12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti Það eru nokkrar aths., sem ég vildi gera við það sem hæstv. félmrh. var hér síðast að segja. Hann reyndi að gera hér nokkra grein fyrir hvernig stæði á því, að sveitarfélögin í landinu væru nú komin í mikla fjárhagsörðugleika. Ég fyrir mitt leyti hef ekki lagt neinn dóm á það í hve miklum erfiðleikum þau eru nú. Ég efast ekkert um það að þeir erfiðleikar eru mjög mismunandi, allt eftir því hvernig menn hafa haldið á sínum málum. En hæstv. ráðh. gaf þá skýringu að erfiðleikar þeirra stöfuðu af mikilli verðbólgu og er það eflaust rétt, þó að þess megi auðvitað geta um leið að tekjur sveitarfélaganna hafa sannarlega hækkað í hlutfalli við þessa verðbólgu, m.a. vegna þess að megintekjur sveitarfélaganna koma af tekjum manna og heyrst hefur frá fulltrúum Sjálfstfl. að þær væru æðimiklar, tekjurnar sem menn hefðu.

Þá sagði hæstv. félmrh., að í tíð fyrrv. ríkisstj. hefði ýmsum rekstrarfyrirtækjum sveitarfélaga verið meinað að leggja á nauðsynleg gjöld, og minntist þar á rafveiturnar og hitaveitur. Það er rétt að í tíð fyrrv. ríkisstj. var ekki orðið við öllum beiðnum Reykjavíkurborgar um hækkun á rafmagnsgjöldum og hitaveitugjöldum. En það vil ég upplýsa í þessu sambandi, að fyrir ríkisstj. lágu reikningar þessara fyrirtækja sem allan tímann sýndu stórkostlegan rekstrarafgang. Ég hygg að það séu tiltölulega fá fyrirtæki hér í landinu sem græða jafnmikið á rekstri sínum eins og Hitaveitan í Reykjavík og Rafmagnsveita Reykjavíkur. En krafa þeirra, sem stjórna Reykjavíkurborg, hefur verið að fá að hækka rafmagnsgjöldin hér í Reykjavík og hitaveitugjöld, þannig að þessi fyrirtæki gætu með tekjum af viðkomandi ári staðið undir öllum sínum stofnframkvæmdum. Um þetta hefur deilan staðið allan tímann. Og þeir, sem hafa haft þá skyldu að reyna að koma í veg fyrir mikla hækkun á verðlagi almennt í landinu, hafa talið sér skylt að benda þessum fyrirtækjum á það eins og öðrum að þau geti ekki búist við því að hafa sérstöðu í þessum efnum og fá að hækka sín gjöld þannig að árlegar rekstrartekjur standi undir öllum stofnframkvæmdum. — Það verða kannske teknir upp nýir siðir í þessum efnum í tíð núv. hæstv. ríkisstj. og þessi fyrirtæki fá að hækka rafmagnsgjöld og hitaveitugjöld eins og þau biðja um — til þess að halda verðbólgu í skefjum eflaust. Það er hægt að sýna að Reykjavíkurborg hefur fengið hækkun á þessum gjöldum fyllilega til samræmis við það sem eðlilegt er miðað við þær reglur sem almennt gilda um verðlagseftirlit í landinu.

Hæstv. félmrh. þótti það afar einkennileg skoðun hjá mér að gerast talsmaður þess, að önnur sveitarfélög í landinu ættu að hafa sams konar rétt gagnvart ríkisbönkunum og Reykjavík hefur. Það fannst honum einkennilegt. En ég held að hann eigi nú eftir að fá að heyra það hjá sveitarstjórnarmönnum þegar fram í sækir, að þeir ætlast til þess að þeir búi við jafnrétti í þessum efnum, en ekki að einn aðili búi þar við allt önnur kjör en annar. Ég tel, að þar sem nú hefur það gerst að einn af ríkisbönkunum hefur veitt einu sveitarfélagi fast lán til ákveðins tíma, þá sé afar eðlilegt að önnur sveitarfélög fari fram á hið sama.

Um yfirdráttarlán það, sem hæstv. ráðh. vitnaði til að hefði orðið til hjá Landsbankanum á þeim tíma sem ég var í ríkisstj., þá veit hann að mismunandi yfirdráttarlán hafa alltaf verið í bönkum og það hefur auðvitað ekki verið undir eftirliti eins eða neins ráðh. að fylgjast með því hvað yfirdráttarlán hafa verið mikil. Hin almenna regla hefur verið sú að bankarnir veittu mönnum ekki yfirdráttarlán, nema þeir gætu borgað þau innan tiltekins tíma. Yfirdráttarlán af þeirri tegund að menn megi bara ávísa á reikninginn og svo komi þar út stórskuld eftir ákveðinn tíma og skuldinni verði síðan breytt í fast lán, það er hins vegar ekkert venjulegt yfirdráttarlán.

Ég tel að ríkisbönkunum beri að halda sig við það, hvort heldur sem um yfirdráttarlán er að ræða eða fast lán, að það eigi að gilda hér jafnrétti milli sveitarfélaganna í þessum efnum en það eigi ekki að mismuna neitt, eins og helst var að skilja hér á máli hæstv. félmrh.

Svo kom hæstv. félmrh. enn einu sinni með það stóra skref sem hann segist vera að stiga í því að rétta við hag sveitarfélaganna í landinu, þ.e. með frv. um Lánasjóð sveitarfélaga.

Í greinargerð frv. er á það bent, að eigin tekjur þessa lánasjóðs gætu hækkað miðað við árið í ár í framlögum frá ríkinu um 15 millj. kr. og í framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 32 millj. kr. Ég benti á það í umr., að þessar 32 millj. kr. eru enginn stuðningur við sveitarfélögin því að þær eru teknar af sveitarfélögunum sjálfum. Þetta eru greiðslur sem á að úthluta og er úthlutað til þeirra miðað við íbúafjölda á hverjum stað. Nú verður þessi upphæð aðeins lækkuð og á að leggjast inn í þennan lánasjóð. Öll ósköpin í þessum efnum eru því það að það er verið að auka framlag ríkissjóðs um 15 millj. kr. Það reynist sennilega heldur stutt skref þegar kemur til þess að bjarga fjárhag sveitarfélaganna í landinu. En ég lýsti því yfir við þessa umr., að ég væri út af fyrir sig þessu samþykkur, en benti á að það væri eðlilegt að það væri skoðað nú hvort framlag ríkisins ætti ekki nú, eins og upphaflega var gengið út frá, að vera hið sama og framlagið frá sveitarfélögunum, úr Jöfnunarsjóði.

Enn einu sinni segir hæstv. félmrh. að sveitarfélögin í landinu hafi sent þetta frv. til fyrrv. ríkisstj. og hann hafi ekki viljað sinna því og bætti því auðvitað víð að ég hefði þá ekki haft neinn áhuga á málinu. Hæstv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, sem var fjmrh. í fyrrv. ríkisstj. hlustaði á þessar fullyrðingar hæstv. félmrh., Gunnars Thoroddsens, þegar hann sagði þetta hér fyrir nokkrum dögum, og hann kom hér upp í ræðustólinn og bar þetta allt til baka, sagðist aldrei hafa séð þessar till. þó að þær kynnu að hafa komið til félmrh. í fyrrv. ríkisstj. höfðu þær aldrei komið fyrir ríkisstj. og hann eða aðrir í ríkisstj. hefðu því ekki haft neitt tækifæri til að taka afstöðu til þessara tillagna. Þetta sagði hæstv. samgrh., samráðh. félmrh: nú, þetta upplýsti hann hér fyrir nokkrum dögum. En samt sér hæstv. félmrh. nú ástæðu til að endurtaka þessi ósannindi, sem hafði verið búið að leiðrétta hann með, og ætlar að halda því fram að ég hafi tekið þá afstöðu til þessa frv. í fyrri ríkisstj. að ég hafi ekki sýnt neinn áhuga á málinu. Þetta er það sem flokkast undir meira lagi óvandaðan málflutning.

Það, sem er aðalatriði þeirra umr., sem hér hafa farið fram af minni hálfu, er að þar sem það hefur komið í ljós að einn af ríkisbönkunum hefur veitt stærsta sveitarfélaginu í landinu tiltekið fast lán vegna erfiðleika, sem þetta sveitarfélag á í, þá tel ég að það sé eðlilegt að ríkisstj. hlutist til um að önnur sveitarfélög, sem búa við hliðstæðar aðstæður, geti átt kost á því að fá sams konar fyrirgreiðslu. Hæstv. félmrh. má svo auðvitað vera hissa á þessari skoðun minni, að ég skuli setja hana fram. Hann um það. En þetta er mín skoðun, að þetta sé réttlætismál, sveitarfélögin í landinu eigi hér að búa við sams konar kjör en ekki misjöfn. Því var það, að ég fór fram á að ríkisstj. beitti sér beinlínis fyrir því að þetta jafnrétti yrði tryggt. Allt þruglið um það, að ég hafi áður sýnt einhvern fjandskap í garð sveitarfélaganna, er út í hött. Það er alveg rétt að ég hef verið á þeirri skoðun og er á þeirri skoðun enn að við aðstæður eins og þær, sem við höfum búið við á þessu ári og einnig á árinu 1973, sé mjög hæpið að heimila sveitarfélögunum að auka álögur sínar umfram það sem verið hefur, það sé mjög hæpið og það sé eðlilegt að þau verði að miða framkvæmdir sínar við þær tekjur sem þau eiga að hafa og við þau eðlilegu lán sem þau geta fengið til sinna framkvæmda. Hitt er, eins og ég hef bent á, ekkert annað en óraunsæl, að tala um það þannig að það sé sjálfsagt að leyfa sveitarfélögunum að leggja á og leggja á. Það er vitanlega hægt að auka við álögurnar eftir þeirri leið alveg endalaust. Takmörkin verða einhvers staðar að vera.

Ég var á þeirri skoðun og er á þeirri skoðun enn að það hafi verið mjög hæpið að auka álögurnar á almenning í landinu umfram það sem lög gerðu ráð fyrir og heimilað var, en framkvæmdir sveitarfélaganna hafi síðan átt að taka mið af þessum tekjum, en ekki mið af einhverju allt öðru. Verði sum sveitarfélög aðstoðuð með lánveitingar í þessum efnum, m.a. af því að þau hafi gengið miklu lengra til framkvæmda en önnur, þá er líka réttmætt að þau, sem hafa tekið tillit til þeirra aðstæðna og reglna sem í gildi áttu að vera, fái að njóta hliðstæðra fyrirgreiðslna, a.m.k. af því leyti til sem ríkisbankarnir eða ríkið á þar hlut að máli. Reynslan sker úr um það, hvernig á þessum málum verður haldið, hvort það verður þessi nýja byggðastefna, sem hér verður ofan á, sem mér heyrðist helst að hæstv. félmrh væri að túlka, að sveitarfélög viða úti um land gætu verið þar sem þau eru og með þann vanda sem þau hafa á sér hvílandi, en hins vegar væri sjálfsagt að greiða úr málefnum stærstu sveitarfélaganna, aðallega Reykjavíkur. Það er auðvitað byggðastefna út af fyrir sig að framfylgja þessari kenningu og verður fróðlegt að sjá hvernig á verður haldið.