17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Út af fsp. hv. þm. um till. til þál. um nýtingu innlendra orkugjafa vil ég skýra frá því, að s.l. laugardag var haldinn fundur hér í Nd. eins og títt er á laugardögum rétt fyrir jól. Þá var þetta mál á dagskrá og til umr., en samkv. ósk þingmanna Alþb. var málið tekið út af dagskránni og umr. um það frestað. Það var því eftir ósk flokks hv. fyrirspyrjanda, að þessi till. var þá tekin út af dagskránni. Ég lét þess getið, þegar þessi beiðni var sett fram um að málið yrði tekið út af dagskrá, að frestun þess þá gæti þýtt að það gæti ekki komið til framhaldsumr. fyrr en að loknu jólaleyfi. Var það látið gott heita af hv. þm. Alþb., en þeir munu hafa haft einhvern fund innan sinna vébanda á laugardaginn. Um það var forseta d. ekki kunnugt fyrr en hálftíma áður en sá fundur átti að standa, þannig að forseti gerði að því er ég tel sitt besta til þess að koma umr. um þetta mál áfram. Meiningin var að nota til þess seinni hluta laugardagsins, en þá voru þm. Alþb. við annað bundnir, svo að við þetta situr nú. Að sjálfsögðu verður þó, ef tími gefst til, rætt um þetta mál sem og önnur þmfrv. og þmtill. sem yfir höfuð hafa verið lögð fram í deildinni.

Þessa skýringu vildi ég aðeins gefa til þess að hér væri ekki um neinn misskilning að ræða.