17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er að því er mér sýnist ekki ástæða til þess að hefja deilur um þetta mál þegar af þeirri ástæðu að hér er um að ræða heimildarlög, eins og tekið hefur verið fram af öðrum hv. þm., heimild til handa ríkisstj. bæði til að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal og heimild til lántöku fyrir hönd ríkissjóðs ef til kemur. Ég er þeirrar skoðunar, að samþykkt þessa frv. muni heldur ýta á málið almennt séð, er fylgjandi því, að það gangi fram sem fyrst, og vonast til að það geti gengið fram fyrir jólaleyfi þm.

Það kemur fram í nál. frá iðnn. á þskj. 158, að n. hefur haldið nokkra fundi um málið. Hún hefur kallað á sinn fund fulltrúa frá Orkustofnun, frá Rafmagnsveitum ríkisins, frá Hönnun hf., það hafa komið fram skriflegar umsagnir um málið og n. mælir eindregið með því samhljóða að frv. nái fram að ganga. Að vísu er einn nm., hv. þm. Magnús Kjartansson, sem gerir það með fyrirvara, en hann hefur lýst því hér í ræðum að hann sé því fylgjandi, að frv. gangi fram.

Hæstv, iðnrh. hefur sýnt málinu áhuga, og er ástæða til þess fyrir okkur alþm. Austurl. að þakka fyrir það. Er ástæða til að ætla, ef lokarannsóknir leiða í ljós að það verði talið eðlilegt að ráðast í þessar framkvæmdir, eins og hæstv. ráðh. hefur strax í öndverðu tekið á þessu máli, að hann muni fylgja því fram af festu þegar það er komið á það stig, að sýnt sé að þarna verði ráðist í virkjun.

Það mætti ræða langt mál um þá möguleika sem finnast á Austurlandi til virkjunar, og það er enginn vafi á að virkjunarmöguleikar á Austurlandi eru sennilega hvað mestir sem finnast hér í landinu. Það er aðallega þrennt sem menn tala um í þessu sambandi.

Það er í fyrsta lagi hin svokallaða Austurlandsvirkjun, sem var mikið rætt um hér á tímabili og er fólgin í því að safna saman vötnum allar götur frá Jökulsá á Fjöllum og um allt þetta svæði og veita þeim niður á Fljótsdalsheiði til miðlunar og nota svo hið geysilega mikla fall af heiðinni niður í gegnum fjallið til þess að virkja þar stórvirkjanir. Það er talað um stórkostlega virkjunarmöguleika, allt upp í 1600 mw., hafa menn látið sér um munn fara.

Ég hef talað við vísindamann, jarðfræðing, sem er vel inni í þessum málum, og hann sagði mér að hann væri þeirrar skoðunar að það væri í raun og veru útilokað að veita Jökulsá á Fjöllum austur eftir, eins og talað var um á sínum tíma, vegna þess að komið hefur í ljós við nánari athugun á landinu að það væri ekki þannig gert, að gerlegt væri að standa fyrir slíkri veitu.

Í öðru lagi er svokölluð Fljótsdalsvirkjun sem er fólgin í því að gera mikið uppistöðulón við svokallaða Eyjabakka, — uppistöðulón, sem yrði suður af Snæfelli og neðan Eyjabakkajökuls, sem gengur fram úr Vatnajökli, veita því vatni síðan fram á Fljótsdalsheiði, bora göng niður um fjallið, lóðrétt eða því sem næst, og síðan lárétt göng út í Fljótsdalinn, þannig að hægt væri að hleypa vatni þar í gegn og koma stöðvarhúsi fyrir í hnénu og gera þannig virkjun. Er enginn vafi á því að það væru möguleikar, ef nægilegt fjármagn yrði í það sett, að grafa fleiri göng jafnhliða og bæta við vatni og virkja þannig stórkostlegar virkjanir á þessum stað. Virðast vera mjög óvenjuleg skilyrði til staðar til þess að standa fyrir hagnýtum virkjunum.

Síðan er það þriðja sem menn ræða um, þ.e.a.s. Bessastaðaárvirkjunin sem þetta frv. fjallar um. Það mun liggja fyrir, eftir því sem sérfróðir menn telja, að athuganir á virkjunarmöguleikum svokallaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þ.e.a.s. að taka Jökulsá í Fljótsdal og veita henni fram á Fljótsdalsheiðina og síðan niður göng, eins og ég ræddi um áður og virkja á þann hátt, mundu taka langan tíma, sennilega 2–3 ár. Mætti segja mér að þó að nú væri tekin ákvörðun um að hefja ítarlegar rannsóknir á virkjunarmöguleikum Fljótsdalsvirkjunar, ákvarðanir væru t.d. teknar í febr. eða mars í vetur, þá væri ástæða til að ætla að niðurstöður slíkra rannsókna lægju ekki fyrir fyrr en í ársbyrjun 1978. Þannig eru sýnilega langt undan möguleikar á því að byggja þar stóra virkjun.

Ég hef hugsað talsvert mikið um þessi mál, eins og margir fleiri austfirðingar, vegna þess að okkur er ljóst að þarna eru miklar auðlindir til staðar á Austurlandi, Ég er þeirrar skoðunar að það sé tímabært að fara að taka ákvarðanir um rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun. Þá er verið að tala um hugsanlegan möguleika á raforkuveri, sem gæti framleitt 230–250 mw. af raforku. Ég álít einnig að það sé ekki ástæða til að taka neinar ákvarðanir um það fyrr en niðurstöður liggja fyrir, hvernig slíkan möguleika á að nota.

Það er hugsanlegt, eins og komið hefur fram í umr. um þetta mál, að Bessastaðaárvirkjun, ef af henni verður sem ég vona, gæti ekki tekið til starfa fyrr en á árinu 1979. Það er að vísu hugsanlegt, ef allt gengi í haginn, að það gæti orðið seint á árinu 1978, en sennilega meira raunsæi í að telja að fyrsti tími, sem til greina kæmi í því sambandi, væri árið 1979. Þannig er sýnilegt, að þó að ráðist yrði í rannsóknir á Fljótsdalsvirkjun, sem gætu kostað um 150–200 millj., að það muni standast nokkurn veginn á endum að slíkri rannsókn yrði lakið og niðurstöður lægju fyrir í þann mund eða e.t.v. nokkru fyrr en Bessastaðaárvirkjun mætti taka í notkun.

Ástandið í orkumálum á Austurlandi og víðar er þannig að ákaflega æskilegt væri að gera meðalstóra virkjun eystra sem allra fyrst. Valkostirnir eru ekki ýkjamargir. Sá valkostur, sem menn hafs nú komið auga á einna helst, er Bessastaðaárvirkjun, þótt það sé viðurkennt af öllum, sem hér hafa tekið til máls, að lokarannsóknir liggja ekki fyrir. Sérstaklega er um að ræða vatnsmælingar sem þarf að gera ítarlegri. Það er í öðru lagi hugsanlegt að tengja Kröfluvirkjun við Austurland. Kröfluvirkjun er gufuvirkjun, eins og við vitum, og það er fyrsta stóra virkjunin af því tagi, sem við mundum ráðast í, íslendingar, þannig að það er nokkur óvissa í því sambandi. Slík virkjun gæti tekið til starfa, ef vel tækist til, árið 1978 eða 1979. Það er því valkostur, sem vert er að gefa gaum að, ef svo færi að eitthvað það kæmi fram í lokarannsóknum Bessastaðaárvirkjunar sem gerði að verkum að því verki seinkaði. Síðan eru möguleikar á að virkja minni virkjanir á Austurlandi. En athuganir og undirbúningur minni virkjana tekur býsna langan tíma, eftir því sem sérfræðingar upplýsa.

Ég var staddur á þeim fundi sem hefur verið rætt dálitið um hér í umr. Það var aðalfundur sambands austfirskra sveitarfélaga, og orkumálin voru þar efst á baugi. Menn höfðu geysilegar áhyggjur af þessum málum, sem eðlilegt er, og mikinn áhuga á úrbótum. Þar voru flutt erindi af kunnáttumönnum á þessu sviði. Þar flutti m.a. erindi Erling Garðar Jónasson, sem er framkvstj. Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi, og hann sagði í sínu erindi á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil strax taka fram, að tenging við Norðurland kemur þá fyrst til greina að virkjuð verði á jarðgufusvæðinu við Námaskarð eða Kröflu tiltölulega stór virkjun, ef ofangreind tenging er ákvörðuð sem líður í rafhitunarvæðingu Austurlands. Á undan öllu slíku er án vafs virkjun stórrar miðlunarvirkjunar hér á Austurlandi, t.d. Bessastaðaárvirkjunar eða fleiri minni miðlunarvirkjana, ef fullnægja skal öllum kröfum sem 100% rafhitunarvæðing Austurlands gerir til orkuöflunar- og dreifingaraðila, þ. á m. fyrst og fremst öryggiskröfum. Samfara slíkum framkvæmdum ætti landshlutatenging að koma fyrst og fremst til að auka öryggið í báðum landshlutum.“

Það kom alveg greinilega fram hjá þeim kunnáttumönnum sem þarna kvöddu sér hljóðs, þ.á m. Sverri Ólafssyni rafmagnsverkfræðingi, sem á sinum tíma var framkvstj. Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi og hefur unnið að þessum málum um árabil, að þeir settu Bessastaðaárvirkjunina fremsta sem hagstæðan möguleika ef lokarannsóknir yrðu jákvæðar. Þess vegna álít ég að eins og mál standa sé sjálfsagt að flýta þessu máli og stuðla að því öllum árum að þessi virkjun verði framkvæmd, en þó auðvitað að því tilskildu að þar sé vatn að finna, en ekki vatnsleysi (Ég veit ekkert um það hvernig Bessastaðaá rennur eða hvort hún er vatnslaus, eins og hv. 3. þm. Austurl. gat um áðan. Ég hef ekki þekkingu á því. En það kom fram í ræðu hæstv. iðnrh., að það, sem gerir þennan virkjunarmöguleika aðlaðandi, er tvennt: í fyrsta lagi miklir miðlunarmöguleikar uppi á fjallinu og í öðru lagi hin geysilega fallhæð, 550 m. Þannig nýtist vatnið vel vegna þessarar miklu fallhæðar.

Ég held að menn ættu ekki að deila í sjálfu sér um þetta mál eða þetta frv., vegna þess að eingöngu er um að ræða heimild til handa ríkisstj. Það væri betur að í ljós kæmi fljótlega að þetta væri heppilegur valkostur, því að einmitt stærðin á þessari virkjun, allt að 32 mw., er einmitt sú stærð sem hentar raforkuþörf Austurlands á þeim tíma sem menn hugsa sér að virkjunin geti hugsanlega tekið til starfa.

Ég vil því endurtaka það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég er fylgjandi því að þetta frv. gangi fram sem fyrst.