17.12.1974
Neðri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég þakka forseta tillitssemina, og vissulega er það nú svo, að það er rétt að ég þykist þurfa að bera af mér nokkrar sakir, þótt ekki verði þær nú taldar þungar á metunum. En það var vegna þess að hv. 2. þm. Austurl. lét að því liggja, að ég væri að telja mætti andstæður þessu máli. Ég vil hrekja þessar skoðanir hans, sem ég vil nú ekki kalla fullyrðingar, því að hann tók ekki sterkt til orða í því sambandi, en vildi samt álíta að orð mín og afstöðu mætti túlka sem andstöðu við málið.

Ég sagði þegar þetta mál var fyrst til umr., að ég fagnaði að mínu leyti framkomu þessa frv. og fagnaði því sérstaklega að mönnum sýndist nú tími til kominn að taka stórt skref til að bæta úr þeim sára orkuskorti sem hrjáð hefði þennan landshluta um langa hríð. Ég sagði á öðrum stað í mínu máli orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég endurtek að þessi virkjun er mjög álitleg.“ Og að lokum sagði ég, með leyfi hæstv. forseta: „Að því leyti sem snýr beint að því að bæta úr þessari þörf, þ.e. raforkuskortinum á Austurlandi, vænti ég þess fastlega að þar reynist þessi skortur við lokarannsóknir hinn ákjósanlegasti. Þá fagna ég því sérstaklega að skjótt og myndarlega hefur verið við brugðið um meðalstóra virkjun í framhaldi af Lagarfossvirkjun, sem þetta frv. ber með sér, frv. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal.“

Það er því alveg út í hött, að ég vilji tefja framgang þessa máls. Hitt er allt annað mál, að enda þótt ég vilji af sárri reynslu, sem fengist hefur af virkjunum eystra, hafa uppi varnaðarorð í þessu sambandi, þá má með engum hætti túlka það sem andstöðu mína við málið. Þvert á móti vil ég ekki verða til þess að tefja málið að einu eða neinu leyti, og verði sýnt fram á það með minnstu rökum, að það mundi tefja framgang þessa máls, virkjun Bessastaðaár, að mál þetta yrði ekki afgreitt fyrr en á framhaldsþinginu, þá mundi ég greiða atkv. með því og leggja á það áherslu að það yrði samþ. þegar í stað. En ég hef engin rök séð sem benda til þess með nokkrum hætti að það ætti að einu eða neinu leyti að seinka fyrir þessari framkvæmd þótt það yrði ekki samþ. fyrir lok þessa þinghalds nú fyrir jól. En sem sagt, þrátt fyrir það að ég sjái ekki rökin, ef forustumennirnir vilja leggja á það megináherslu að svo verði, þá skal ég svo sannarlega ekki verða til þess að bregða fyrir það fæti.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram. Það er alveg út í hött að draga þær ályktanir af orðum sem ég hef viðhaft í þessu sambandi, að ég sé í einhverri andstöðu við þetta mál. Þvert á móti er ég einlægur fylgismaður þess. Þær þrætur, sem uppi hafa verið hafðar hér í dag, má kannske segja að hafi meira verið út af staðsetningu, en ekki út af eðli þessa máls. Það var vegna þess hvernig þetta mál bar að hér í dag. Ég þóttist vera í góðri trú um að ég væri engu að spilla þótt ég færi fram á, að þessu máli yrði frestað vegna lögmætra anna minna. Þegar það kom í ljós að áhersla var lögð á framhald málsins, þá felldi ég mig strax við það, en síðan komu önnur atriði fram sem ég taldi mig knúinn til þess að svara, og vil ég þá að mínu leyti taka fram, að þeim atriðum, sem að því lúta, eða umr. um þau er af minni hálfu alveg lokið.

Tómas Árnason, hv. 4. þm. Austf., benti á að það væri útilokað að bíða eftir stórvirkjun til þess að leysa úr hinni brýnu þörf á orku á Austurlandi. Og hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, spurði hvort ég vildi biða eftir stórvirkjun með að leysa það vandamál. Það er auðvitað spurt þarna út í hött. Að sjálfsögðu vil ég að fyrsti kostur sé tekinn til þess að bæta úr þessum mikla skorti. Ég minntist á það við 1. umr. þessa máls, að menn hefðu haft þá skoðun uppi að það kynni að hafa verið hægt að bæta úr þessum sára skorti með enn fljótvirkari hætti en þessum. Það skal ég ekkert um segja, úr því skera sérfræðingar. Ég legg allt mitt ráð í þeirra hendur. Nú sveigja þeir að því að þetta sé besti kosturinn og fyrsti kosturinn til þess að bæta verulega úr þessu ástandi, og þá fylgi ég því eindregið.

Ég skal nú stytta mál mitt. Ég taldi alveg nauðsynlegt, að þetta kæmi fram, og endurtek það, að ég er tilbúinn til þess, ef lögð er á það höfuðáhersla að þetta nái þegar í stað fram að ganga, að fylgja því, þótt ég hins vegar, eins og ég segi, komi ekki auga á þau rök sem að því hníga að svo þurfi að verða. Og eins fyrir forvitnissakir t.d., ef skaðlaust er að bíða með afgreiðslu málsins, þá hefði ég kosið að fá ýmsar þær upplýsingar sem fram kom hér í dag að mundu berast varðandi framhaldsrannsókn þessa máls. En sem sagt, aðalatriðið er að ekkert það verði haft hér í frammi sem kæmi til með að tefja hið minnsta framgang málsins í heild.

Ég vil svo að lokum þakka hæstv. iðnrh. fyrir endurtekna yfirlýsingu hans um að það yrði með öllum ráðum stutt að því að rannsóknum á stórvirkjun og rannsóknum á þeim möguleikum, sem þarna virðast vera í boði um stóra virkjun á Austurlandi, verði haldið fast fram.