18.12.1974
Efri deild: 26. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Eins og frsm. sjútvn. greindi frá varð samkomulag um það í n. að mæla með samþykkt frv. með þeirri breytingu sem frsm. gerði grein fyrir, sem varðar heimild fyrir þetta nýja skip sem verið er að smíða í Noregi og ber þetta þjóðlega nafn Ísafold, til þess að veiða loðnu á miðunum hérna í vetur. Ég vík aðeins að þeirri heimild aftur í lok máls míns.

Ég get ekki stillt mig um, þegar nú er fjallað um loðnuveiðarnar á vetri komanda, að vekja athygli á því hvernig við ár eftir ár förum með þennan vaxandi feng sem við tökum af miðunum í kringum landið. Í fyrra framleiddum við mjöl eða svínafóður úr nær 400 þús. tonnum af loðnu, úr afbragðsmat, eggjahvítuefnaríkum mat, sem hefði nægt til þess að sjá, eftir því sem sérfræðingar segja mér, 12–16 millj. manna fyrir nægilegri eggjahvítu í mat í heilt ár í sveltandi heimi, þar sem einmitt skortir fyrst og fremst eggjahvítuefnaríka fæðu. Á þennan hátt höfum við haldið áfram að verka loðnuaflann okkar, og er sannarlega tími til kominn að hið opinbera taki sig nú til og fari að reyna að gera ráðstafanir til þess að þessi fengur okkar verði nýttur á siðbetri hátt. Þess verður ekki kostur í vetur. Enn munum við framleiða loðnumjöl til svínafóðurs úr þessum fiski í vetur. En ég er samþykkur frv. eigi að siður, eins og það liggur fyrir, en ætlaði að víkja aðeins að viðaukanum sem samþykktur var í nefndinni.

Ég felli mig við það að þessu nýja skipi Árna Gíslasonar, sem raunverulega er smíðað í staðinn fyrir Jón Kjartansson, aflaskipið þeirra austfirðinganna sem fórst, verði veitt heimild til þess að veiða hér á þessu 6–7 vikna tímabili í vetur, veiða á miðum íslensku skipanna, að því tilskildu, eins og segir í viðaukagr., sem frsm. n. las áðan, að aflanum verði landað á þessu svæði frá Patreksfirði norður um landið til Seyðisfjarðar, þ.e.a.s. verði landað hjá þeim verksmiðjum sem eru svo að segja hráefnislausar á loðnuvertíðinni, sem alls ekki er séð fyrir nægilegu hráefni á loðnuvertíðinni. Með þessu skilyrði fylgi ég þessu heimildarákvæði að aflanum verði landað á því svæði þar sem vantar loðnu að vetrinum til vinnslu.

Við erum þeirrar skoðunar að undanþága sé fyllilega réttlætanleg í þessu skyni, en leggjum áherslu á að þessi heimild til handa Ísafold, að veiða hér á loðnumiðunum í vetur verði ekki notuð sem fordæmi. Það er kunnugt að töluverð ásókn hefur verið í það af hálfu innlendra manna að fá sérstakar heimildir fyrir erlend skip, sem þeir eiga hlut í eða vilja taka á leigu, til þess að veiða á miðunum við Ísland, en slíku erum við algerlega andvígir. Við höfum fordæmi um það að innlendir aðilar hafa leigt erlend skip til hringnótaveiða hér við land. Þetta var gert í lok stríðsáranna, að tveir íslenskir útvegsmenn leigðu, ef mig minnir rétt, 8 færeysk hringnótaskip til veiða fyrir Norðurlandi. Það vildi svo illa til að flest voru skipin leigð einmitt það sumarið sem síldin brást. En fyrir skemmstu var slíkt leiguskip við veiðar með hringnót á síldarmiðunum hérna, fyrir 4 árum, hygg ég, þannig að fordæmi eru fyrir slíku. En við teljum að rétt sé að leyfa þessa tilraun í vetur til hráefnisöflunar fyrir verksmiðjurnar á norðursvæðinu sem ella eru afskiptar. Við teljum að það sé rétt að gera þessa tilraun í vetur. Því fylgir engin skuldbinding um að gera slíkt öðru sinni eða leyfa fleiri skipum veiðar í vetur, og það má taka þessi mál til endurskoðunar fyrir næstu loðnuvertíð.