18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

84. mál, útvarpslög

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Í gærkvöld hófust umr. um þetta mál í hv. d. og talaði þá fyrir því hæstv. menntmrh. og af öðrum þdm. hv. 2. landsk. þm. Þetta mál er þannig vaxið að það hlýtur mjög að snúa að þeim hæstv. ráðh. sem flytur það. Nú kem ég ekki auga á hæstv. menntmrh. í d. og vil biðja forseta að grennslast eftir því hvort hann er svo nærri að hann treysti sér til að sækja deildarfund. (Forseti: Ég vil taka fram að mér er kunnugt um að hæstv. menntmrh. mun ekki geta verið á fundinum hér fyrr en eftir þrjá stundarfjórðunga. Ég mun ekki telja mér fært að verða við því að fresta málinu á meðan, það eru margir menn á mælendaskrá. Ég hef þegar orðið við beiðni um að fresta öðru dagskrármáli í klukkutíma og þessum umr. verður nú haldið áfram, ef þdm. óska að ræða málið, en það á eftir að koma bæði til 2. og 3. umr., og þá gefst tækifæri til frekari umr. ef menn vilja ekki ræða það nú.) Hæstv. forseti. Ég tel að jafnmikla áherslu og jafnmikið kapp og hæstv. menntmrh. hefur lagt á þetta mál, þá sé honum skylt að fylgjast með umr. og því sem þm. hafa um það að segja. Vegna þess að búið er að fresta öðru máli leyfi ég mér að benda hæstv. forseta á að fleiri mál eru á dagskrá en þau tvö sem hér er um að ræða. Ef hæstv. menntmrh. er ógerlegt að sækja fund að sinni vil ég mælast til að umr. verði frestað þangað til hann getur verið viðstaddur.