12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr. en mér hafa blöskrað svo nokkur ummæli sem hér hafa fallið í garð Reykjavíkurborgar, að ég get ekki orða bundist.

Nú vil ég fyrst segja það, að ég hef ekkert við það að athuga að þm. standi hér upp og geri kröfur sem þeir telja að gangi í réttlætisátt. Það er eðlilegt að sú krafa sé gerð, að sveitarfélög í þessu máli eins og öðrum sitji við sama borð þegar um er að ræða fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins. En ég hef ekki heyrt neinn staf fyrir því að eitthvert óréttlæti hafi átt sér stað eða sveitarfélög hafi ekki setið við sama borð. Veit nokkur eða hefur það verið kannað hvort einhverjum sveitarfélögum hafi verið neitað um slíka fyrirgreiðslu sem hér er talað um? Og þegar allt kemur til alls, hefur þá ekki ýmislegt verið gert fyrir hin ýmsu sveitarfélög þegar þau hafa lent í vandræðum, þannig að bankastofnanir og hið opinbera hafi stuðlað að því að þeirra fjármál kæmust í betra lag? Ég held að það yrði niðurstaðan, ef þetta mál yrði kannað ofan í kjölinn.

En um leið og kröfur eru gerðar í réttlætisátt og um það að sveitarfélög sitji við sama borð, þá er alveg óþarfi að senda tóninn einu ákveðnu sveitarfélagi. Það er hægt að gera kröfur um eitt án þess að níða niður annað. Því miður hafa nokkrir hv. þm. fallið í þá gryfju að tala svo óvirðulega um Reykjavíkurborg að ekki verður undir því setið.

Það er talað um að Reykjavíkurborg standi í miklu skuldafeni, að Reykjavíkurborg sitji að allsnægtarbrunni o.s.frv., o.s.frv. Ég hygg að þær skuldir, sem Reykjavík hefur stofnað til, séu af sömu ástæðum og hjá öðrum sveitarfélögum og þess vegna spyr ég og reyndar fullyrði, að þegar hv. síðasti ræðumaður talaði um óreiðuskuldir hjá Reykjavíkurborg þá auðvitað má nefna þær skuldir, sem önnur sveitarfélög eru í, sama nafni og þess vegna er líkt á komið með þeim sveitarfélögum, ef á annað borð er hægt að tala um óreiðuskuldir hjá einu sveitarfélagi. En ég hygg að svo sé ekki. Þessar skuldir eru til komnar vegna þeirrar verðbólgu sem í landinu er. Ég hlustaði á borgarstjóra Reykjavíkur í útvarpinu í gærkvöld þar sem hann lýsti þeim hækkunum, sem átt hefðu sér stað á árinu, og ég held að það hafi komið fram í því viðtali, að Reykjavíkurborg dró saman verklegar framkvæmdir allt upp í 500 millj. á síðasta ári, svo að það getur enginn sagt eða fullyrt að það hafi verið vaðið áfram og stofnað til skuldafens án þess að íhuga hvernig málin yrðu leyst. Þrátt fyrir það að dregið var saman í verklegum framkvæmdum, þá er borgin komin í þær skuldir sem um er rætt.

Það er líka vafasamur málflutningur að fullyrða að fyrirtæki eins og Hitaveita og Rafmagnsveita Reykjavikur hafi skilað stórkostlegum hagnaði á undanförnum árum. Hv. 2. þm. Austf. fullyrti meira að segja, að ég held að fá fyrirtæki í landinu hafi grætt eins mikið og þessi tvö fyrirtæki. Þetta er í meira lagi óvandaður málflutningur, svo að ég noti hans eigin orð, og ég vil leyfa mér að vísa þessu á bug. Staðreyndin er sú, að slíkur málflutningur þjónar engum jákvæðum tilgangi.

Hér erum við hv. alþm. nokkurn veginn sammála um svokallaða byggðastefnu, sem felur í sér aukna aðstoð og aukna fyrirgreiðslu til handa landsbyggðinni. Við þm. Reykv. höfum staðið að því af fullri einurð að því að móta þessa stefnu og reyna að hrinda henni í framkvæmd. Nú er búið að leggja fram fjárlagafrv. sem felur í sér stóraukna fjárveitingu til Byggðasjóðs, á 9. hundrað millj. kr. Hér erum við nýbúnir að kjósa fjvn., sem er skipuð hv. þm. úr öllum kjördæmum nema úr Reykjavík, og það þrátt fyrir að Reykjavíkurþm. eru langfjölmennasta sveitin á þingi. Allt er þetta vegna þess, að ég tel, að þm. Reykv. hafi fullan skilning á því að það þurfi að efla landsbyggðina og veita fé og efla framkvæmdir úti á landsbyggðinni.

Hér höfum við fyrir framan okkur á borðunum um 40 mál, sem nú þegar hafa verið lögð fram á þessu þingi, og þegar maður flettir í gegnum þennan bunka er athyglisvert að a.m.k. annað hvert mál, ef ekki 2/3 af þessum málum, er mál þar sem beðið er um fyrirgreiðslu eða fjárveitingar til hinna ýmsu landshluta. Það á að stofna stofnlánasjóði, það á að efla framkvæmdir og hlut landsbyggðarinnar með einu og öðru móti. En það er ekkert mál á borðum þm. sem biður um aðstoð til handa Reykjavíkurborgar eða reykvíkingum. Þetta mega menn muna þegar þeir eru að tala hér um misræmi og misrétti varðandi fyrirgreiðslu til einstakra sveitarfélaga. Ég held að það sé heppilegt fyrir alla þm. að gera sér grein fyrir því að við erum hér öll til þess að efla þjóðarbúið og viljum standa að svokallaðri byggðastefnu, og það skulum við gera án þess að vera að kasta hnútum og koma óorði á eitt sveitarfélag. Það ei óvandaður málflutningur sem ekki þjónar neinum tilgangi.