18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Skammur tími hefur verið gefinn til þess fyrir minni hl. að koma frá sér viðunandi nál. Því hefur ekki enn þá verið dreift og ekki heldur þeim brtt., sem við tveir sem myndum minni hl. hv. sjútvn. þessarar d., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og ég, höfum borið fram. Ég hlýt þess vegna að kynna till. okkar hér og grg. í fyrri hluta minnar tölu, sem verður að vísu ekki mjög löng. Ég vil þó fyrst, áður en ég hef efnisumr. varðandi þetta mál, geta nokkurra atriða í sögu þess frá því það var lagt fyrir hv. Alþingi.

Alþ. hóf störf að vísu nokkuð seinna á þessu ári en áður hefur tíðkast, eða í lok okt. En þetta mál er 4. mál þingsins og var lagt fram í upphafi þess. Ekki virtist liggja mikið á að ýta þessu máli af stað í gegnum maskínuna þeirra, sem malað hefur heldur hratt nú upp á síðkastið, flestum þeim til óþæginda sem hafa viljað kynna sér þetta mikilvæga og mikla mál ofan í kjölinn. Ég er í fullkomnum vafa um að allir hv. meðlimir sjútvn. hafi einu sinni haft tækifæri til þess að gera það sem skyldi. Þetta mál var sem sagt lagt fyrst fram á fundi í sjútvn. þann 26. nóv. Þá lá engin efnisleg grg. fyrir frá sjútvrn., aðeins frv. eins og það liggur nú fyrir.

Annar fundur var haldinn 12. des. Það var sameiginlegur fundur og eini sameiginlegi fundurinn sem haldinn hefur verið í n., jafnvel þótt hv. þm. Sverrir Hermannsson leyfði sér að halda hinu gagnstæða fram hér áðan, að allmargir fundir hefðu verið haldnir sameiginlega. Einn fundur hefur ekki verið kallaður allmargir hingað til. En á þessum fundi voru gestir n. Einar Ingvarsson, aðstoðarráðh., Jón Arnalds ásamt fleirum. Þessir menn gerðu þá nokkra grein fyrir till. rn., sem voru ákaflega óljósar. Það var nánast rammi um þá hluti sem gera skyldi og engin leið fyrir hvern einstakan nm. að gera sér grein fyrir því hvernig dæmið kæmi raunverulega út, því að engir útreikningar, sem við vitum að rn. hafði látið framkvæma, voru lagðir fram okkur til glöggvunar.

Þriðji fundur n. var haldinn 14. des. Á þeim fundi var ekkert hægt að afgreiða, vegna þess að menn höfðu öðrum hnöppum að hneppa sumir hverjir og vegna slæmrar mætingar var engin útkoma úr þeim fundi. Meira að segja hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem talaði af miklum ábyrgðarþunga um þetta mál áðan, lét ekki sjá sig, enda var hann þá þegar búinn að fá að vita hvað skuttogararnir fengju í sinn hlut. Á þessum fundi höfðu engar frekari upplýsingar borist þrátt fyrir tilmæli okkar minnihlutamanna í þeim efnum. Þar voru aðeins komnar umsagnir Landssambands ísl. útvegsmanna, sem reyndar voru bornar þangað af form. þeirra samtaka og umsögn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem mótmælti mörgum líðum í þessu frv.

Og svo að lokum var 4. fundurinn haldinn kl. 8 í morgun og það tilkynnt að málið skyldi afgr., að hve miklu leyti sem menn hefðu þá getað gert sér grein fyrir efni frv. og því hvernig framkvæmd á skiptingu gengishagnaðarins kæmi út. Áður en þessi fundur var haldinn var meira að segja búið að prenta dagskrá þessa fundar í þessari hv. d., þar sem þetta mál hafði verið tekið á dagskrá án þess að nokkur vissi um það hvort unnt væri að koma því áfram. Svona mikill er nú böðulsgangurinn í þessu máli öllu.

Ég mun nú víkja að þeim brtt., sem við tveir í minni hl. höfum lagt til, og gera síðan nokkra grein fyrir þeim.

Í fyrsta lagi leggjum við til, að 1., 2., 3. og 4. gr. þessa frv. falli niður. Þessar gr. eru í fyrsta lagi um bindingu fiskverðs, í öðru lagi um hækkun til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, í þriðja lagi um hækkun til Stofnfjársjóðs fiskiskipa þegar landað er í erlendri höfn, sem nú er hvorki meira né minna en 21%, og í fjórða lagi að olíuvandinn skuli leystur á þann hátt sem þarna greinir.

Annað höfuðatriðið í till. minni hl. er varðandi skiptingu gengishagnaðarins, þannig að formáli greinarinnar sé óbreyttur, en stafliðir breytist sem hér segir:

1) a-liður verði svona: Til þess að greiða hluta gengistaps vegna erlendra skulda eigenda fiskiskipa verði varið 600 millj. kr. Fiskveiðasjóði er heimilt að ráðstafa 300 millj. kr. af þessari fjárhæð skv. reglugerð, er hann setur og ráðh. staðfestir, til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja, enda verði krafist öruggra trygginga fyrir þessum lánum.

2) Breyting á b-lið og hann hljóði þá svo: Styrkur til bátaflotans vegna rekstrarerfiðleika á tímabilinu frá 1. jan. til 1. sept. 1974 verði 250 millj. kr. eins og lagt er til í frv., en styrkupphæðinni verði skipt þannig, að 40% hennar verði ráðstafað einvörðungu með tilliti til mannúthaldsdaga og 60% við reglur er Aflatryggingasjóður setur, þar sem tekið verði tillit m.a. til aflamagns og lágmarkstekna sem skipið þarf að hafa til að geta greitt kauptryggingu, enda hafi kaupgreiðslur til sjómanna algeran forgang. Þar sem í upphaflegum till. rn. var gert ráð fyrir takmörkunum á bátastærð, 20 smálestir, settum við inn í þessa brtt. líka svo hljóðandi málsgrein: Allir fiskibátar án tillits til stærðar skulu hljóta styrk samkvæmt ákvæðum þessa stafliðs.

3) Styrkur til skuttogara verði 230 millj. og miðist við fjölda úthaldsdaga.

4) Við leggjum til, þvert ofan í það sem kemur fram í till. meiri hl. um þær 50 millj. sem skammta á fiskmjölsframleiðendum, að til lífeyrissjóðs sjómanna komi 80 millj. kr., m.a. til að verðbæta lífeyrisgreiðslur til aldraðra sjómanna og ekkna skv. reglum er stjórn sjóðsins setur.

5) 20 millj. kr. til sjómannasamtakanna til byggingar orlofshúsa og annarra félagsmála eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.

Í síðasta lagi að eftirstöðvunum verði ráðstafað með sérstökum lögum af Alþ. síðar, þegar nákvæmari upplýsingar liggja fyrir um stöðu sjávarútvegs og fiskvinnslu.

Eins og menn geta heyrt af þessum till. eru þær í veigamiklum atriðum öðruvísi en meiri hl. leggur til. Við viljum fella niður þær greinar sem skerða stórkostlega hlut sjómanna í landinu. Við erum á móti þeirri skoðun hv. þm. Sverris Hermannssonar að vandamál sjávarútvegsins verði eingöngu leyst eða að mestu leyti leyst á kostnað sjómannanna, og er það þvert ofan í það sem hann hefur látið hafa eftir sér á opinberum vettvangi áður.

Nál. minni hl. hefur nú verið útbýtt, en vegna þess, hve seint það er fram komið, hef ég kosið að lesa hluta þess, með leyfi forseta:

Frv. það, sem hér er lagt fram, er tvíþætt: Annars vegar um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna afkomuerfiðleika, sem m.a. hafa skapast vegna gengisfellingar hægri stjórnarinnar, og um ráðstöfun gengishagnaðar.

Um fyrra atriðið — ráðstafanir í sjávarútvegi — er það að segja, að þær miðast eingöngu við tilfærslur fjármagns innan atvinnugreinarinnar sjálfrar og þá fyrst og fremst frá launþegunum yfir til atvinnurekendanna. Þannig er gert ráð fyrir því í 2. og 3. gr. frv. að hækka þann hlut, sem tekinn er af óskiptu, mjög verulega og ráðstafa honum til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, þ.e.a.s. í þágu atvinnurekenda í útvegi. Með þessu er verið að rýra kjör sjómannastéttarinnar mjög verulega og skerða sjálfan grundvöll frjálsra kjarasamninga þeirra. Sjómannasamtökin hafa harðlega mótmælt þessu gerræði hægri stjórnarinnar og talið það fullnægjandi ástæðu til að segja upp núgildandi kjarasamningum.

Minni hl. sjútvn. Nd. lýsir sig samþykkan afstöðu sjómanna til þessara ráðstafana og leggur til að frvgr. verði felldar.

Í 1. gr. frv. gerist það í fyrsta skipti, að ráðin eru tekin af Verðlagsráði sjávarútvegsins með því að heimila ekki nema óverulega fiskverðshækkun á sama tíma og reynt var að ná samkomulagi um fiskverðið í Verðlagsráðinu og áður en séð yrði hvort það mundi geta tekist. Þegar þetta gerðist hafði engin hækkun fengist fram á fiskverðinu frá áramótum 1973–1974 og sjómenn því ekki fengið launahækkanir á tímabilinu til samræmis við aðra launþega. Þeim mun tilfinnanlegri hafði þessi seinkun á launabótum til sjómannastéttarinnar orðið, þar sem afli hafði farið rýrnandi, auk þess sem hér var um að ræða ráðstöfun sem kom í veg fyrir það að sjómenn gætu fengið launahækkanir til jafns við aðrar stéttir. Hér er um hættulegt fordæmi að ræða, þ.e.a.s. það fordæmi að ríkisstj. grípur með brbl. inn í atriði frjálsrar samningagerðar launastéttar á meðan sú samningagerð stendur yfir og ekkert bendir til annars en hún hefði getað tekist án afskipta ríkisvaldsins.

Með 4. gr. frv. er kostnaði vegna verðhækkana á olíu velt yfir á sjómenn að miklu leyti, vegna þess að þessar tilfærslur fjármuna innan greinarinnar koma í veg fyrir hækkun fiskverðs sem ella hefði getað orðið. Með þessari grein er sjávarútveginum í raun sjálfum gert að standa undir olíuverðshækkuninni og stór hluti þeirrar byrðar lagður á launþegana í atvinnugreininni — sjómennina.

Það er ekki ágreiningur við meiri hl. um 5., 6., 7. og 8. gr. frv. Þó vill minni hl. n. benda á nauðsyn þess að vátryggingamál fiskiskipa verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar.

Um síðari þátt frv. — ráðstöfun gengishagnaðar — er fjallað í 9. gr. frv.

Minni hl. n. telur í hæsta máta óeðlilegt að ráðh. verði falið að ráðstafa stórkostlegum upphæðum í lán og styrki að eigin geðþótta. Því leggjum við til á sérstöku þskj. að fastákveðnar reglur verði markaðar í lögum um þessi efni og framkvæmdin falin þeim aðilum sem eðlilegast er að um hana sjái. Einnig telur minni hl. eðlilegt og sjálfsagt að víð úthlutun gengishagnaðar sé miðað við bæði vetrar- og sumarúthald og engar takmarkanir séu settar um stærð þeirra fiskibáta sem fyrirgreiðslnanna geti notið.

Minni hl. sjútvn. bendir á að sjómenn eiga tilkall til gengishagnaðarins ekki síður en útgerðarmenn og fiskverkendur. Ekkert tillit er tekið til þessa í frv., enda þar hvergi finnanleg ákvæði um að hluta gengishagnaðarins sé ráðstafað í þágu sjómannanna. Að vísu mun meiri hl. n. leggja fram till. um þetta efni, eins og við heyrðum hér áðan. Þær till. eru greinilega algerar sýndartill., því að aðeins er gert ráð fyrir að verja mjög óverulegum hluta gengishagnaðarins í þágu sjómannastéttarinnar. Minni hl. gerir það að till. sinni á sérstöku þskj., að uppbæturnar í þessum till. meiri hl. verði hækksanngjarna og í fyllsta máta eðlilega lausn að ræða.

aðar verulega, og bendir á að þar sé aðeins um Meiri hl. n. mun leggja til að 50 millj. kr. af gengishagnaðinum verði ráðstafað til verðbóta á fiskmjöli, öðru en loðnumjöli. Minni hl. n. sér engin rök mæla með þeirri afgreiðslu.

Með þessum orðum lýkur nál. okkar.

Um þetta mikilvæga mál, þar sem um er að tefla upphæðir upp á milljarða kr., mætti vissulega halda langa ræðu og reyna að freista þess að hafa með skynsamlegum rökum áhrif á hæstv. núv. sjútvrh. En mér hefur heyrst það nú í haust og sýnst það og fundist af hans málflutningi, að hann kunni ekki mikið að meta hæfilegar röksemdir. Það, sem virðist vera honum efst í huga, eru tilskipanir og valdboð.

Ég mun nú aðeins fara lauslega yfir þær till., sem við höfum af rn. hálfu, og sýna mönnum það svart á hvítu hver ætlunin var og er með þeirri aðferð sem nota skal við að úthluta öllu þessu fé. Það kemur að vísu einnig fram á þskj. 190 í brtt. meiri hl., svo að það er nokkuð sama hvort lesið er upphaflega plaggið eða það sem tínt er út úr því í þessar brtt. meiri hl. n.

1. líður þeirra till., sem sjútvrn. gerði, var um að greiða gengistapið með 600 millj. kr., sem er eðlilegt. En síðan kemur sú viðbót, að sjútvrn. sé heimilt að ráðstafa 400 millj. af þessari fjárhæð til þess að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi til þess að koma í stað skammtímalána og vanskilaskulda og bráðabirgðalána. Þessi lán átti þó ekki að veita til lengri tíma en 2–3 ára. Ég vil vekja athygli á því, að í þessari gr. er hvergi minnst á neinar reglur, það er ekkert sagt um hvernig eigi að útbýta þessum lánum. Þarna er ekkert minnst á tryggingar. Það er aðeins sagt að hæstv. sjútvrh. eigi að útbýta þessum 400 millj. upp úr vasa sínum og að eigin geðþótta að því er virðist.

Næsti liður í till. rn. er stuttur og laggóður, svokallað óafturkræft framlag, sem þýðir styrkur á venjulegu íslensku máli, til bátaflotans vegna rekstrarörðugleika á árinu 1974, 250 millj. kr., og ekki orð um það. Hins vegar er í skýringum gert ráð fyrir því, að rn. eigi líka að útbýta þessum peningum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir óafturkræfu framlagi til skuttogara, 230 millj. Það er sama upphæð sem við í minni hl. höfðum gert ráð fyrir og höfum ekkert við að athuga annað en það, að við tökum fram í okkar till., að það skuli miðast við úthaldsdaga.

Síðan kemur þessi dæmalausi d-liður um að rétta 50 millj. upp í hendurnar á þeim sem hafa framleitt fiskmjöl og greiða verðbætur á fiskmjölið og ekki tekið til loðnumjöls. Þessi fyrirtæki hafa ekki verið á horriminni á undanförnum árum, en haft mikið upp úr sinni framleiðslu. Það vitum við allir sem erum úr sjávarplássum og höfum fylgst með þessu. Þau hafa notað peningana jafnóðum í eyðslu og geysilegar fjárfestingar. En svo þegar hallar undan fæti augnablik, þá á að koma strax til ríkisins og fá hjá því stóra styrki. Þetta leggjum við að sjálfsögðu til að verði fellt niður.

Svo er rúsínan, sem menn sjá eiginlega ekki hvort er rúsína eða sveskja, það stendur bara: eftirstöðvar, sem enginn veit hvað eru miklar, til ráðstöfunar samkvæmt nánari ákvörðun sjútvrn. Þar er upptalið. Sjútvrn. á að hafa það í sinni hendi, hvernig á að úthluta þessu fé, sem er engir smápeningar, 1250 millj. kr. Við slík vinnubrögð verður hreint ekki unað.

Það er nú svo, að það, sem ég nú þegar hef sagt um þetta mál, ætli kannske að geta nægt. Ég vil samt sem áður fara nokkrum orðum um einstakar greinar sjálfs frv. og skal þar fara fljótt yfir sögu, enda höfum við sagt um það nokkur orð þegar í nál., sem ég las upp hér áðan.

Það má öllum vera ljóst, að ákvæði 1. gr. um að heimila ekki meira en 11% hækkun á fiskverði er ákaflega harkaleg árás á kjör sjómanna. Fiskverðið hefur ekki hækkað síðan um áramótin, en allar aðrar launastéttir hafa þó fengið í krónutölu allverulegar hækkanir. Með þessu er greinilega verið að lækka kaup sjómanna, ekki aðeins hlutfallslega, heldur einnig í krónutölu. Þetta hefur verið gert áður, á árunum 1967 og 1968. Þá var hlutur sjómanna rýrður mjög, að vísu með stórkostlegri hækkun á framlagi til Stofnfjársjóðs. En þarna er verið að setja loku fyrir það, að sjómenn geti með hækkuðu fiskverði bætt sín kjör, þótt ekki sé nema að hluta upp í það sem almenningur í landinu hefur fengið, sem þó er vissulega ekki of mikið í þeirri geysilegu dýrtíð sem nú geisar.

Ef það væri ekkert annað en þetta, þá væri kannske hægt að sætta sig við það á erfiðleikatímum, eins og virðast alltaf vera þegar þessir herrar eru í stjórn, þó að glæsilega horfi fyrir þeirra augum þegar þeir eru í stjórnarandstöðu og hver af öðrum hleypur upp í stólinn til þess að boða nýja aðferð til að lækka skatta um t.d. eins og 4–5 milljarða. Ef ekki kæmi til annað en þetta, þá væri það kannske sök sér. En í ofanálag kemst það, að afli hefur stórminnkað víða um land. Að meðaltali líklega milli 13 og 15% og á sumum landssvæðum 30–40%. Sjómenn eiga sem sagt að fá kauplækkun í krónum, þegar allt þetta er tekið saman, stórkostlega kauplækkun. Ég er að vísu ekkert undrandi yfir þessu af þessari hæstv. ríkisstj. og síst af þessum hæstv. ráðh., sem mér sýnist ekki mega vera að því að hlusta á þessi mál. Hann er búinn að gefa út sína tilskipun og ætlar síðan að láta sínar leikbrúður afgreiða þetta steinþegjandi og hljóðalaust.

Ég er sem sagt ekkert undrandi á því, að þessi hæstv. ráðh. beiti slíkum bolabrögðum í garð sjómannastéttarinnar. Þetta hefur ríkisstj. hægri flokkanna gert áður. En það hafa áreiðanlega fáir hæstv. ráðh. í þessari grein látið sér um munn fara annað eins og hæstv. sjútvrh. gerði við 1. umr. þessa máls hér í þinginu, en þá sagði hæstv. sjútvrh., með leyfi hæstv. forseta, mánudaginn 11. nóv. kl. 14.03 líklega:

„Ástæður þessa eru einkum tvær,“ — þ.e.a.s. það á að ganga á hlut sjómanna — „takmarkað svigrúm fiskvinnslunnar, einkum frystingar, til að greiða hærra fiskverð og þörfin á að tryggja samræmi í tekjuþróun stétta í milli, en þá var búist við, sem seinna kom á daginn, að settar yrðu takmarkanir á hækkun taxta og tekna annarra stétta.“ Vissi hæstv. ráðh. ekki að þessar aðrar stéttir, sem hann talaði þarna um, höfðu þá þegar fengið talsvert miklar hækkanir? Þetta þýðir auðvitað ekkert annað en það, þó að það sé sagt í penum orðum, og hann fer vissulega í þessum efnum í kringum kjarna málsins, eins og hans er vandi. Hann segir þarna berum orðum að það megi ekki hækka kaup sjómanna, af því að þeir séu allt of hálaunaðir, þó að öll þjóðin viti hið gagnstæða.

Þá hafa flestir tekið eftir því í þessu þjóðfélagi, að það er sífellt verið að auglýsa eftir mönnum á alls kyns fiskibáta, viðast hvar á landinu. Það er aðeins á eina tegund skipa sem ekki virðist vanta tiltakanlega mannskap, og það er einmitt á þá tegund skipa sem getur borgað skást kaup, en á bátaflotanum hafa verið slík vandræði að fá mannskap, svo að ég tali nú ekki um menn með réttindi, að mér er sagt að í Hornafirði sé t.d. ekki nema einn vélstjóri með full réttindi, og svipaða sögu er að segja í mörgum öðrum verstöðvum, t.d. Ísafirði og víðar. Allar þessar auglýsingar eftir mannskap segja ekkert annað en það, að meðan nóg vinna er í landi vilja menn alls ekki fara út á sjó, ósköp einfaldlega vegna þess að þar er kaupið þegar of lágt. Ef menn fást ekki til þess að fara út á sjó, þá verður ekkert gert út. Jafnvel þótt menn geti fundið einhverja hausatölu af óvönum mönnum, þá er flotinn að sjálfsögðu miklu afkastaminni en ella.

Það er alveg ljóst, að vandi útgerðarinnar verður ekki leystur með því að lækka kaup sjómanna með þessum bolabrögðum og þjösnaskap. Er ekki hægt að segja annað en þetta boði enn þá meiri og tilfinnanlegri mannaskort á fiskiflotanum.

Þessum gr. laganna hefur að sjálfsögðu verið mótmælt af sjómönnum og samtökum þeirra um land allt, og er hætt við því að ekki verði gert mikið út fyrr en reynt hefur verið á það hvort sjómenn geti ekki fengið einhverja leiðréttingu á sínum málum.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að setja á sérstakt útflutningsgjald vegna olíukostnaðar. Ef þetta útflutningsgjald hefði ekki verið lagt á, hefði líklega mátt hækka fiskverðið um 12–15%, og tekjur af þessu gjaldi má reikna á ársgrundvelli 1200–1250 millj. kr. og af því hefðu útgerðarmenn fengið a.m.k. 700 millj., en sjómenn rúmar 500 millj. Útgerðarmenn þurfa hvort sem er að borga útgerðinni þennan olíukostnað. En þarna er aðeins því bætt við að láta sjómenn standa undir stórkostlegum hluta af olíuverðinu í landinu. Það er þessi stétt, sem ein allra launastétta í landinu þarf að taka á sig þessa gífurlegu hækkun. Ég vil segja það, að með þessu er höggvið fyrst og skarpast að þeim sem hlífa skyldi.

Ég vil nú fara að stytta mál mitt, en kann ekki við annað en víkja örfáum orðum að þeirri dæmalausu 9. gr., þar sem þingnefndin, sem um málið fjallaði, fékk aldrei í rauninni þær upplýsingar sem hún þurfti með. Það, sem við finnum helst að þeirri útgáfu sem lögð hefur verið hér fram af meiri hl. og kynnt var að nokkru af fulltrúum sjútvrn., er að þessum hæstv. ráðh. — hann er horfinn aftur, — er gefið allt að því einræðisvald til þess að ráðskast með góðan milljarð kr. í vösum sinum. Enda hefur hann verið ákaflega kátur og broshýr nú upp á síðkastið, vegna þess að með þessu telur hann sig fullnægja að einhverju leyti þeim einræðistilhneigingum og tilskipanaáráttu sem hann hefur verið haldinn síðan hann settist í þennan ráðherrastól. Það er sem sagt hvergi gert ráð fyrir því, svo að gagn sé að, að reglur séu settar af opinberum aðilum um hvernig ganga eigi frá því að skipta þessum peningum. Það er talað um það á einum stað, að rn. vinni núna að því að útbúa reglur til að skipta þessum fjármunum. En það á að afgr. þetta frá hv. Alþ., áður en Alþ. hefur gefist kostur á að sjá þessar reglur, áður en hv. Alþ. gefst kostur á að sjá hvernig þessir útreikningar eftir þessum ramma koma út fyrir flotann. Ég vil segja það, að þó að mikið liggi kannske á að flýta þessu máli, þá hefði verið hægt að koma þessu áfram miklu fyrr með því að byrja að vinna strax í upphafi þings og alger óhæfa að pína þetta svona áfram á örfáum klukkutímum.

Ég vil þó geta þess, áður en ég lýk máli mínu, að þeir rn.- menn með ráðh. í broddi fylkingar hafa verið alveg ófeimnir í því efni að ýta þessu máli gegnum þingið og fá samþykkt á því hjá hv. þm., sem að sjálfsögðu hafa ekki haft tækifæri til að setja sig inn í það án þess að hafa í höndunum nokkrar skýrslur aðrar en hluta af skýrslum frá vetrarvertíðinni. Það er ekki merkilegt sem á á að byggja. Allir vita að bátar, sem stunda sjó á vetrarvertíðinni, róa líka á sumrin, og það er vitað mál að sumarvertíðin hefur komið afar illa út sums staðar á landinu. Ég efast um að við höfum nokkurn tíma fengið eins rýra sumarvertíð og í sumar á Suðurlandi. Þess vegna vil ég leggja á það þunga áherslu að einnig verði tekið tillit til sumarúthaldsins, þ.e.a.s. alls veiðitímabilsins frá áramótum til loka ágústmánaðar.