18.12.1974
Neðri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

76. mál, nýting innlendra orkugjafa

Kjartan Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það er nú orðið langt um líðið síðan ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við þessa umr. um nýtingu innlendra orkugjafa. Síðan hefur málið komið á dagskrá einu sinni, en það var hér í fyrra dag. En þótt langt sé um liðið vil ég fara um þetta mál nokkrum orðum, og þess skal getið í upphafi, að tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs var ræða sem hv. 4. þm. Norðurl. v. flutti hér í þessari hv. d. fyrir allmörgum dögum. Ég vil þó, áður en ég vík að máli hans, minnast á fáein atriði sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Sunnl. hér fyrr í dag.

Hann ræddi nokkuð um hvort tölur, sem hv. þm. Magnús Kjartansson hafði farið með hér í sambandi við orkusölu til álversins í Straumsvík, væru réttar eða ekki. Hv. þm. Magnús Kjartansson sagði á fundi hér í d. í gær að það verð, sem við fengjum, íslendingar, fyrir þá orku sem víð seljum álverksmiðjunni í Straumsvík, væri svo lágt að við töpuðum hvorki meira né minna en 1000 millj. kr. á ári, ef miðað væri við annars vegar það verð sem í gildi er hér og hins vegar það verð sem er almennt markaðsverð í veröldinni í dag á forgangsorku eins og þarna er um að ræða. Hv. 1. þm. Sunnl. vildi mótmæla því að þetta væri rétt. Það kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar að það verð, sem við fáum fyrir raforku okkar til álversins, er milli 300 og 400 millj. kr. Og hann hélt því fram að á því markaðsverði sem almennt gildir í dag, ætti þetta að vera 1000 millj. kr. hærra á ári. Hv. þm. Ingólfur Jónsson nefndi einnig tölu um það, hvað við fengjum fyrir orkuna, og sú tala kom heim og saman við það sem hv. þm. Magnús Kjartansson hafði haldið fram í ræðu sinni í gær. Enda þótt hv. þm. Ingólfur Jónsson talaði hér langt mál og leitaðist við að færa sönnur á að það væri ekki rétt, að hér væri um að ræða tap sem næmi 1000 millj. kr. á ári, þá er athyglisvert að ekki kom fram í hans máli nein kenning um það, hvert markaðsverð væri í dag fyrir þetta magn af orku, sem hv. þm. Magnús Kjartansson hafði haldið fram að ætti að vera milli 1300 og 1400 millj. Þetta var athyglisvert, og ástæðan fyrir því var að sjálfsögðu sú, að þær tölur, sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hafði farið með í þessum efnum, voru réttar og mismunurinn á því verði, sem okkur er greitt, og hins vegar almennu verði á forgangsorku er hvorki meira né minna en 1000 millj. á ári.

Hv. 1. þm. Sunnl. minntist hins vegar á, að greitt væri af álverksmiðjunni í Straumsvík ákveðið framleiðslugjald, og vildi leggja það við þá tölu sem okkur er greidd fyrir raforkuna. Slíkt gefur að sjálfsögðu alls ekki rétta mynd varðandi þetta mál, þegar verið er að bera saman orkuverð nú annars staðar og hér. Það er rétt að undirstrika það alveg sérstaklega, að í sambandi við þá samninga, sem gerðir voru við Swiss Aluminium, var auðhringurinn, sem á álverksmiðjuna í Straumsvík, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, undanþeginn íslenskum lögum og íslenskum dómstólum. Hann var þar á meðal undanþeginn íslenskum skattalögum. Það framleiðslugjald, sem hv. 1. þm. Sunnl. minntist hér á og vildi að lítið væri á sem hluta af raforkuverðinu, — það er upphæð sem litið var á í byrjun að kæmi á móti því að auðhringurinn þyrfti ekki að greiða skatta af sínum mikla hagnaði af þessum rekstri hér. Ég hygg, að ef þessi ákveðna verksmiðja í eigu erlendra aðila væri bundin íslenskum skattalögum eins og önnur fyrirtæki í þessu landi, þá þyrfti hún að greiða til ríkisins í skatta mun hærri upphæð en nemur þessu framleiðslugjaldi. Við skulum þess vegna ekki blanda því saman við orkuverðið. Orkuverðið er svo smánarlega lágt sem raun ber vitni, og breytir engu um staðreyndir í þeim efnum það sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði í sinni ræðu áðan. Staðreyndirnar halda áfram að vera þær sömu.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk við þetta atriði vegna ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar og með tilliti til orða hans og samanburðar við rekstur átverksmiðja í Noregi, segja það, að á þeim tíma sem verið var að semja um byggingu álversins í Straumsvík var það algjört einsdæmi, og það ætti hv. þm. að hafa vel í huga, að það væri samið um raforkusölu á óbreyttu verði til 25 ára. Í þeim samningum sem um það leyti voru gerðir í Noregi, voru ákvæði jafnan um að orkuverð skyldi endurskoðað á 5 ára fresti. Og í þeim samningum, sem rætt er um í Noregi nú siðar í sambandi við orkufrekan iðnað, er talið sjálfsagt mál að þar séu ákvæði um að orkuverð skuli endurskoðað á eins árs fresti. En þessir samningar, sem hv. 1. þm. Sunnl. vildi halda fram að hefðu verið hinir ágætustu, voru með slíkum eindæmum varðandi þetta atriði, að við vorum bundnir við óbreytt orkuverð í 25 ár, til 1997.

Það er nú einu sinni svo, að það blasir að sjálfsögðu við hverjum manni í dag, hvaða afleiðingar þetta hefur haft, ef við hugleiðum hver þróunin hefur orðið varðandi orkuverðið almennt.

Hv. 1. þm. Sunnl. hélt því fram, að þetta ákveðna fyrirtæki, álverksmiðjan í Straumsvík, hefði malað okkur íslendingum gull á þessum árum. Ég hygg, að slíkt megi kalla fullkomið öfugmæli.

Það er eitt annað atriði sem ég vil einnig minnast á varðandi það sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Sunnl. Hann vildi mótmæla því að að þeirri hæstv. ríkisstj., sem þennan samning gerði á sínum tíma, hefði nokkurn tíma hvarflað að verð á vatnsorku kynni að fara lækkandi á næstu árum. Hann vildi mótmæla því alveg sérstaklega, að þetta hefði verið skoðun þeirra hæstv. ríkisstj., sem þá var við völd. Ég vil vekja á þessu athygli vegna þess að ég verð að segja það, að ég hef a.m.k. hingað til staðið í þeirri meiningu, að ástæðan fyrir því að þáv. hæstv. ríkisstj. gerði slíkan samning um óbreytt orkuverð í 25 ár, hafi verið sú, að viðkomandi hæstv. ráðh. þáv. hafi verið þeirrar skoðunar, að búast mætti við að orkuverð almennt í heiminum frá vatnsaflsvirkjunum færi lækkandi, þess vegna hefðu þeir talið sig með þessu vera að tryggja hlut íslendinga, þeir hefðu ekki séð þróunina betur fyrir en þetta. Slíkt hefði út af fyrir sig verið að ýmsu leyti mannlegt og að einhverju leyti afsakanlegt. En því er nú harðneitað, að hæstv. ráðh, og hæstv. ríkisstj. á þeim tíma hefði dottið neitt slíkt í hug. Þeir hafi þvert á móti verið á allt öðru máli. Þá vil ég leyfa mér að spyrja: Hvernig í ósköpunum gat þá á því staðið, að með slíkum eindæmum var að þessum samningi staðið eins og hér hefur verið minnst á, að gera samning um þetta lágt orkuverð og binda það svo að það skyldi vera óbreytt í 25 ár, ef menn hafa átt von á að orkuverð færi hækkandi, þó að þeir ættu kannske ekki von á að það hækkaði svo mjög sem raun hefur á orðið? Hvernig í ósköpunum mátti þetta þá gerast?

Það liggur alveg ljóst fyrir, og það skal verða það síðasta sem ég segi varðandi þetta atriði, að orkuverðið í samningnum við álverið í Straumsvík er 2.5 mill og það gerir á ársgrundvelli nú milli 300–400 millj. fyrir það orkumagn sem verksmiðjan notar. Það verð, sem hins vegar er gangverð á slíkri forgangsorku nú í dag, kemur m.a. fram í því uppkasti að samningi við Union Carbide sem fyrir liggur. Það er ekki 2.5 mill heldur 10 mill. þ.e.a.s. fjórum sinnum meira. Þetta er það verð sem er í dag gangverð á forgangsorku. Ef menn vilja átta sig á því nánar, hvernig þessar 1000 millj., sem hér hefur verið talað um á ári, eru til komnar, þá er það einfalt mál. Við getum séð það ef við fjórföldum verðið á þeirri orku sem seld er til álversins, milli 300 og 400 millj. Ég hygg, að hv. þm. Ingólfur Jónsson hafi nefnt 345 millj., og það mun sjálfsagt vera rétt. En ef þetta væri fjórfaldað, þá er þar um að ræða ekki langt frá 1400 millj. eða milli 1300 og 1400 millj. og mismunurinn 1000 millj. kr. Ég hygg, að það sé ekki á færi eins né neins að hrekja þessar tölur og það sé fyllilega þess vert fyrir hv. alþm. að íhuga þá alvarlegu hluti, sem að baki þeirra felast.

Ég vil þá aðeins minnast á það, að hv. þm. Ingólfur Jónsson vildi segja að álverksmiðjan í Straumsvík fengi nú 40% af þeirri orku, sem Landsvirkjun framleiðir, en það hafði áður í þessu sambandi verið talað um 50%. Þarna ber kannske ekki verulega stórkostlega á milli með tilliti til þess, að ég hygg, að það sé vart um deilt að greiðslan, sem fyrir þessa orku fæst, er ekki nema 10% af því sem greitt er yfirleitt fyrir orkuna frá Landsvirkjun.

Ég vil þá aðeins koma að fáeinum atriðum í ræðu hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, hv. 4. þm. Norðurl. v., sem var tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs, þegar hún var flutt fyrir allmörgum dögum. Eins og menn muna var þessi ræða flutt hér við þær aðstæður, að 1. flm. þeirrar till., sem á dagskrá var og á dagskrá er nú, hv. þm. Magnús Kjartansson, hafði þegar talað tvisvar í málinu og átti þess því ekki kost að ræða málið frekar við þessa umr. Hv. 4. þm. Norðurl. v. virtist hafa fullan hug á því að færa sér þessar aðstæður í nyt og setti hér á svið ákveðinn leikþátt eða revíu, sem ég vil svo nefna, sem hann var sjálfur að mestu höfundur að, en þar sem hann vildi, hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson, skipa hinum ýmsu þm. Alþb. í einstök hlutverk. Það getur út af fyrir sig verið skemmtilegt að hlýða á slíka revíu frá hendi pólitískra andstæðinga. En ég vil aðeins segja það, að ef hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson hefur gert sér um það vonir í alvöru að svo alvarlegur ágreiningur væri uppi í sambandi við þessi mál innan Alþb. og hann vildi vera láta, þá á hann áreiðanlega eftir að verða fyrir miklum vonbrigðum.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vildi meina, að í rauninni hefði hann sérstaka ástæðu til að þakka hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni það, að hann hefði meðan hann var ráðh. tekið upp fyrri stefnu viðreisnarstjórnarinnar í orkumálum og að því er varðar samskipti við erlenda auðhringa hér á Íslandi, og fór um það mörgum orðum að þarna hefðu átt sér stað ákveðin skoðanaskipti hjá þessum fyrrv. ráðh. Alþb. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að stefna Alþb. er í öllum meginatriðum sú sama nú og áður. Sú stefna kom fram í verkum Magnúsar Kjartanssonar í vinstri stjórninni og sú sama var stefna Alþb. á dögum viðreisnarstjórnarinnar. Þar hafa engin skoðanaskipti varðandi meginatriði átt sér stað. Það var stefna viðreisnarstjórnarinnar að koma hér upp á Íslandi erlendum fyrirtækjum og nýta til þess íslenska orku. Fyrirmyndin varð að vísu aldrei nema ein, álverið í Straumsvík, en ekki var hikað við af stjórnvöldum á þeim tíma að gera sem allra mest úr því, hversu ágæt sú fyrirmynd væri. Og hver var hún? Hún var sú, að það fyrirtæki, sem þarna var um að ræða, var að einu og öllu leyti í eigu hins erlenda auðhrings Swiss Aluminium. Þetta fyrirtæki laut í engu íslenskum lögum né íslenskum dómstólum. Það var undanþegið. Þetta fyrirtæki gerði samning um orkukaup á því smánarverði, sem hér var rætt um áðan, og til þess furðulega langa tíma, sem ég minntist á áðan og var einsdæmi. Það var annað, sem var einsdæmi við þann samning, og það var að þetta fyrirtæki var ekki krafið um að setja upp hreinsitæki, eins og sjálfsagt þótti í öðrum löndum, þar sem um slíkt var að ræða á þeim tíma. Þetta var líka einsdæmi. Þetta var sú stefna, sem þáv. hæstv. ríkisstj. hafði í þessum málum. Þetta var hennar fyrirmynd. Þeir, sem með réttu væri hægt að hrósa fyrir að hafa tekið upp þá stefnu, hefðu skrifað undir þessi atriði flest eða öll.

Stefna vinstri stjórnarinnar í þessum efnum og þá ekki síst stefna hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, sem þar var orkumálaráðh., var þveröfug hvað öll þessi atriði varðar. Vinstri stjórnin markaði í fyrsta lagi þau skil frá stefnu viðreisnarstjórnarinnar, að það kæmi alls ekki til greina að eiga samvinnu við erlenda aðila um orkufrekan iðnað á Íslandi undir neinum kringumstæðum, nema því aðeins að um væri að ræða fyrirtæki þar sem íslendingar og þá íslenska ríkið ættu meiri hluta þveröfugt við stefnu viðreisnarstjórnarinnar. Í öðru lagi, að ekki kæmi til greina að nein slík fyrirtæki væru sett á stofn, þar sem erlendir aðilar kynnu að eiga minni hl., nema því aðeins að þau lytu í einn og öllu íslenskum lögum og íslenskum dómstólum, líka þveröfugt við stefnu viðreisnarstjórnarinnar. Í þriðja lagi kom ekki til greina af hálfu vinstri stjórnarinnar að reisa nein slík fyrirtæki, nema um væri að ræða að orkuverð væri fullkomlega viðunandi og samningar um slíkt verð væru endurskoðaðir með stuttu millibili, líka þveröfugt við stefnu viðreisnarstjórnarinnar.

Og síðast, en ekki síst, hvarflaði það aldrei að þeim, sem með þessi mál fóru í vinstri stjórninni, að það kæmi til mála að reisa hér eitt eða neitt meiri háttar iðjuver, innlent eða erlent án þess að þar væri um að ræða hreinsibúnað svo sem best mætti verða.

Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vildi nefna það til vitnis um skoðanaskipti fyrrv. hæstv. ráðh. Alþb., að hann hefði rætt við stjórn eða fulltrúa Swiss Aluminium. Það er nú svo. Ætli menn séu ekki dæmdir til að tala við einn og annan? Og um hvað snerust þær viðræður? Þær snerust um það fyrst og fremst að þáv. iðnrh. vildi fá það á hreint hvort ekki væri nokkur möguleiki að fá þennan auðhring, sem þarna var um að ræða, eiganda verksmiðjunnar í Straumsvík, til að fallast á það út frá almennum rökum og almennu viðskiptasiðferði, liggur mér við að segja, að opna þann samning sem gerður hafði verið af viðreisnarstjórninni um orkuverð til 25 ára, þegar svo var komið eins og öllum er kunnugt að orkan hafði margfaldast í verði og það, sem áður mátti kalla að smávægilegt gjald kæmi fyrir orkuna var orðið gjöf úr okkar hendi. Þessi hv. þm. og þáv. ráðh., Magnús Kjartansson, hafði ekki við að styðjast í þessum sínum tilraunum eitt eða neitt í plöggum þeim sem hann erfði í iðnrn. frá hæstv. ríkisstj., sem áður var þar við völd. Einnig var í þessum viðræðum rætt um annað og það var að sett yrðu upp hreinsitæki við þessa ákveðnu verksmiðju. Það kom fram í þeim viðræðum að Swiss Aluminium taldi sig ekki vera skuldbundið til þess skv. þeim samningum sem áður höfðu verið gerðir. Hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vildi bera sakir á fyrrv. iðnrh. nú vegna þess að þessi hreinsitæki væru þrátt fyrir allt ekki komin upp nú. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á í fyrsta lagi, að það var eitt fyrsta verk fyrrv. iðnrh., þess manns sem Eyjólfur K. Jónsson vildi eiga hér orðastað við eftir að hann átti þess ekki kost að svara fyrir sig, — það var eitt hans fyrsta verk 1971 að setja í það ákveðna n. að undirbúa reglugerð varðandi mengunarvarnir og aðra slíka hluti í sambandi við iðnaðarrekstur hér á Íslandi. Þessi reglugerð varð til á tiltölulega skömmum tíma og var sett strax snemma árs 1972, nokkrum mánuðum eftir stjórnarskiptin, og hafist var handa um að tryggja það að álverksmiðjan í Straumsvik setti upp hreinsitæki í samræmi við þessa reglugerð. Það er hins vegar rétt, að um það varð samkomulag að gera yrði tilraun með ákveðna gerð af íslenskum hreinsitækjum, sem þeir, sem helst höfðu vit á af innlendum aðilum, töldu líklegt að mundu duga. Ég hygg að það hafi verið út af fyrir sig mjög eðlileg ráðstöfun að þessi tilraun væri gerð. Niðurstaða hennar varð hins vegar sú, að þau reyndust ekki jafnheppileg og menn höfðu gert sér vonir um eða jafnörugg, og því var það, að að þeirri tilraun lokinni voru gefin út endanleg fyrirmæli í tíð fyrrv. ríkisstj. til álversins í Straumsvík um að það setti upp hjá sér erlend hreinsitæki af svipuðu tagi og tíðkast við verksmiðjur hér í nágrannalöndum af þessu tagi. Þessi tæki verða að sjálfsögðu sett upp samkvæmt fyrirmælum sem gefin voru í tíð vinstri stjórnarinnar, það vil ég undirstrika.

Ég mun nú ekki fara um þetta miklu fleiri orðum. Ég vildi svara hér örfáum atriðum í máli þessara tveggja hv. þm.

Um þá till., sem hér er til umr., vil ég aðeins segja það, að ég er þeirrar skoðunar, eins og sjálfsagt flestir aðrir hv. alþm., að hún snerti eitt allra veigamesta mál í okkar stjórnmálum nú, þ.e.a.s. nýtingu þeirrar miklu orku sem við eigum í okkar landi. Ég hygg að það sé ekki ágreiningur um það, að menn hafi fullan hug á að tryggja að þessi orka verði nýtt í framtíðinni og verulegur hluti hennar sem fyrst. Ágreiningurinn er hins vegar um það hvort leggja beri megináherslu á að hún verði nýtt í þágu okkar sjálfra, íslendinga, eða hvort eigi að nýta þessa orku að einhverju verulegu marki í þágu erlendra aðila, en ætla okkur sjálfum að njóta þeirra mola sem af þeirra borði kynni að hrjóta. Þessi ágreiningur er einn sá alvarlegasti í íslenskum stjórnmálum nú, bæði hér á Alþ. og í þjóðfélaginu yfirleitt. Ég vil aðeins segja það, að við Alþb.-menn höfum markað þá stefnu, sem er algerlega ljós og um hana er algjör eining innan okkar flokks, að það komi ekki til greina við þær aðstæður, sem hér ríkja nú, að fallast á að ráðist verði í meiri háttar orkufrekan iðnað, enda þótt þar væri um að ræða fyrirtæki, sem væri að yfirgnæfandi meiri hluta í íslenskri eigu. Þetta viljum við alls ekki fallast á eins og mál standa í dag, vegna þess að við teljum að það sé langtum brýnna að leysa þá gífurlega miklu þörf sem við öllum blasir fyrir aukið orkuframboð í þágu almennrar notkunar okkar sjálfra. Sú till., sem hér er til umr., er í samræmi við þessa stefnu.

Ég hygg að ég hafi svarað þeim meginatriðum, sem ég taldi ástæðu til að koma hér inn á, og enda þótt hægt væri að ræða þetta í mjög löngu máli, þá vil ég ekki gera það frekar með tilliti til þess að hér er margt sem kallar að.