12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja hér nokkur orð, þar sem málefni Reykjavíkurborgar hafa komið það mikið við sögu í þessum umr., umr. sem áttu að fjalla um fyrirgreiðslu bankanna eða bankakerfisins til annarra sveitarfélaga.

Ég vil taka strax fram að það eina, sem Reykjavíkurborg hefur farið fram á, er að fá fyrir fram að vita að ef álagning á útsvör í Reykjavík nægi ekki til að standa undir skuldbindingum þrátt fyrir vel unna fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar á komandi ári, þá sé Reykjavíkurborg heimilt að nota þá álagningarprósentu, sem er 1% eða ellefta álagningarprósentið, til þess að mæta þeim skuldum sem safnast hafa á yfirdrætti borgarinnar hjá Landsbanka Íslands. Ég held að hv. 5. þm. Vestf. viti betur en hann vill láta í skína hér þegar hann heldur því fram að í síðustu kosningum, hvort heldur voru sveitarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar, hafi Reykjavíkurborg verið að fela fjárhagsstöðu sína. Ég held þvert á móti. Reykjavíkurborg sagði frá sinni fjárhagslegu stöðu, faldi ekki nokkurn skapaðan hlut og alþjóð er kunnug ástæðan fyrir þessum yfirdrætti. Þess vegna er kosningaútkoman eins og hún er, að þeir flokkar, sem stóðu helst að hruni bæði á íslensku krónunni og efnahagslífi þjóðarinnar, hafa fengið sinn dóm í síðustu kosningum. Ég hef sagt það í borgarstjórn, segi það enn þá og ítreka það hér á þessum stað, að guði sé lof að það var þó ábyrgur flokkur á borð við Framsfl., þótt ég sé honum ekki sammála á öllum sviðum, sem var í stjórnaraðstöðu með kommúnistum á síðasta kjörtímabili, því að efnahagsöngþveitið væri algert ef þeir hefðu fengið að ráða meiru en þeir gerðu. Eiga framsóknarmenn þó sannarlega þakkir skildar fyrir að halda svona aftur af þeim öflum sem stefna bókstaflega að öngþveiti á öllum sviðum í þjóðfélaginu.

Ég er alveg hissa á því að fyrrv. viðskrh. skyldi ekki gera grein fyrir þeirri skuldasöfnun, sem þó átti sér stað öll á hans ráðherratímabili, heldur geri fsp. til núv. valdhafa. Ég bjóst við að hann mundi gera grein fyrir þessu. Úr því að hann gerði það ekki vil ég bæta því við sem hann hefði átt að segja.

Reykjavíkurborg og stofnunum Reykjavíkurborgar ber samkv. reglugerðum að láta reksturinn bera sig og stofnkostnaður á að koma úr borgarsjóði. Við erum kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum á sama hátt og fulltrúar eru kjörnir til Alþ. og ríkisstj. á að treysta þeim kjörnu fulltrúum fyrir sveitarstjórnarmálum. En það hefur hún ekki gert á einu einasta sviði. Það er alveg sama um hvað var sótt í sambandi við þjónustugjöld stofnananna. En við fengum þó eitt svar. Það var: „Jú, þið getið fengið heimild til þess að taka erlend lán til að brúa rekstrartap“ — rétt eins og rekstrartöp, ef þau væru tekin í erlendum gjaldeyri að láni, þyrfti ekki að borga.

Ég vil benda á það að eitt fyrirtæki, sem hvað mest hefur verið svelt, er t.d. Strætisvagnarnir. Úr borgarsjóði þurfa líklega að koma á þessu eina ári un 240 millj. kr. samtals til að standa undir rekstri strætisvagnanna. En það er óhentugt að hækka fargjöld strætisvagnanna vegna þess að sú fargjaldahækkun fer beint út í vísitöluna og hækkar þá ýmislegt annað um allt land þótt strætisvagnar má segja að séu ekki annars staðar en í Reykjavík.

Ég held að sú fyrirgreiðsla, sem Landsbankinn er að veita Reykjavíkurborg, sé ekkert óeðlileg. Reykjavíkurborg er langstærsti viðskiptaaðili Landsbaka Íslands. Þó að þessi stóri viðskiptaaðili Landsbanka Íslands fari upp í 600–800 millj. kr. yfirdrátt einu sinni kannske á 10–20 ára fresti, þá tel ég að það sé ekki óeðlilegt, sérstaklega þar sem ástæðurnar eru augljósar. Hitt er annað mál, að það er sjálfsagt að önnur sveitarfélög fái sams konar fyrirgreiðslu frá sínum lánastofnunum og sínum viðskiptabönkum. Ekki er Reykjavíkurborg með fyrirkomulagi í sínum viðskiptum að koma í veg fyrir það og ég skil ekki þennan málflutning að hér sé um óreiðuskuld að ræða. Það hefur hvergi komið fram, ekki einu sinni hjá stjórnarandstöðunni í borgarstjórn, sem samþykkti einróma, að vísu með bókunum, að borgin gengi frá þessum málum og einu aths., sem gerðar voru, hvort sem það var af kommúnistum eða öðrum, voru þær, að lánið væri of stutt, þeir vildu hafa það til lengri tíma. Að öllu öðru leyti var samstaða um þessa lántöku. Hitt er annað mál að það er ekki eins og Reykjavíkurborg sé eini aðilinn sem þarf að taka rekstrarlán. Lántaka Reykjavíkurborgar er 600 millj., en yfirdráttur Landsbankans hjá Seðlabankanum er talinn vera um 5000 millj. Það hljóta einhverjir aðrir að draga á á Landsbanka Íslands. Ég vil segja það og endurtek það, sem ég sagði í borgarstjórn, að Landsbanka Íslands og bankakerfinu ber að þakka fyrir hve ábyrga afstöðu þeir tóku þegar vissir aðilar í ríkisstj. hreinlega reyndu að koma öllum sköpuðum hlutum á hausinn. Ekki hefði farið vel, ef Landsbankinn hefði ekki tekið lán hjá Seðlabankanum og svo hinir bankarnir hjá Seðlabankanum líka og undirstöðuatvinnuvegirnir á sama hátt og við getum þrætt þetta niður í einstaklingana. Ég trúi ekki öðru en að fulltrúar öreiganna séu orðnir nákvæmlega jafnsettir og aðrir landsmenn, sem þurfa að framlengja sina víxla á sama hátt og Reykjavíkurborg og undirstöðuatvinnuvegirnir almennt, því að við vitum allir að þeir búa ekkert verr en hver annar. Þeir búa í sínum eigin íbúðum, þeir eiga sína lúxusbíla alveg eins og við hinir og ef fulltrúar öreiganna eiga þetta skuldlaust þá er kominn tími til að athuga þá.

Það er alveg rétt, þarna stangast á lífsskoðanir manna. Fyrrv. viðskrh. talaði um að fyrirtækin græði. Það er alveg rétt, Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur hafa haft góða afkomu þangað til hans flokkur og hann sjálfur komu í stjórn og fóru að hafa áhrif á. Þá fóru þau að tapa. En fyrirtækin verða að skila nettóágóða til þess að geta staðið undir ekki bara rekstrinum, heldur eðlilegum viðbótarframkvæmdum sem þurfa að eiga sér stað hér í borginni, því að það er óeðlilegt ef fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hitaveita Reykjavíkur eru þurfa að taka 100% lán til að standa undir nýbyggingum. Það er eðlilegt að þau taki lán, það er eðlilegt, en alls ekki, að þau séu gerð fjárvana. Ég vil þó undanskilja Hitaveitu Reykjavíkur þarna. Það er rétt hjá fyrrv. viðskrh. að hennar hagur hefur verið mjög góður og betri en annarra fyrirtækja en hann er líka í miklu stærri framkvæmdum nú heldur en nokkurt annað fyrirtæki þar sem hún er að leggja hitaveitu í nágrannasveitarfélögin. Og það er aðeins þrýstingur frá nágrannasveitarfélögunum, en ekki frá Reykjavik, sem gerði það að verkum að Hitaveitan fékk hækkað sitt gjald. En Rafmagnsveitan fékk enga hækkun fyrr en löngu seinna og allt of seint, þegar Rafmagnsveitur ríkisins voru búnar að hækka í heildsölu rafmagnsverðið til Rafmagnsveitu Reykjavíkur þannig að Rafmagnsveitan var rekin með stórtapi. Og svarið, sem við fengum þá í borgarstjórn, þegar við báðum um hækkun, var: „Þið megið taka erlent rekstrarlán.“ Það álit ég að hafi verið svar á borð við það sem mátti búast við af þessum háu herrum. En í ár er hagur Rafmagnsveitunnar, sem annars hefur alltaf verið góður, það slæmur að reiknað er með að fjárþörf hennar gæti orðið um 400 millj. En eitt vil ég segja, að borgarstjórnarmeirihl. hefur komið fram á miklu ábyrgari hátt heldur en virðist hafa borist til eyrna þessara herra, vegna þess að peningalegur samdráttur var á milli 500 og 600 millj. í krónutölu og framkvæmdaáætlunin náttúrlega stórlækkuð eða minnkuð af þeim orsökum sem og öðrum orsökum, því að þessar stóru og miklu hækkanir og stökk, sem verið hafa undanfaríð, koma að sjálfsögðu jafnt niður á borginni sem öllum öðrum. Það finna einstaklingarnir og þess vegna skila þeir sínum atkv. eins og þeir gerðu í síðustu kosningum. Við skulum ekki halda að fólkið sé einhverjir kjánar sem fylgist ekki með. Það fylgist vel með.

Ég vil ítreka það, að það eru ekki til óreiðuskuldir hjá borginni frekar en ég vil bera upp á önnur sveitarfélög sem eru undir í sínum fjárhagsáætlunum eða framkvæmdaverkefnum. Þetta er allt skiljanlegt og skýranlegt og langt frá því að það sé réttlætanlegt að kalla það hér á Alþ. óreiðuskuldir. Sveitarstjórnarmenn almennt starfa eftir bestri sannfæringu og þeir njóta trausts fólksins. Annars væru þeir ekki í sínum stöðum. Og það er óréttlátt, hvar í flokki sem þeir eru og hvernig sem meiri hl. er úti um land, að segja að hjá sveitarstjórnum almennt sé um óreiðuskuldir að ræða, ef þar er skuld, og hér í Reykjavík á það ekkert síður við.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu lengri. En ég vil benda á það, að þó að Reykjavíkurborg sé í 600 millj. kr. yfirdrætti þá er það ekki stór upphæð. Það er þungur baggi fyrir okkur og það er ekki víst að við þurfum á þeirri heimild að halda, sem viðskrh. hefur lofað að beita sér fyrir að við fáum. Það getum við ekki sagt fyrr en álagningin hefur farið fram og ef það kemur í ljós að hún nægir ekki til að standa undir þeim bagga sem nú er kominn óvænt á okkur á þessu fjárhagsári sem er að líða, en það var ekki eins ljóst þegar við hófum þetta fjárhagsár vegna þess að við trúðum því að ríkisstj. væri ábyrgari en hún reyndist og við fengjum að hækka smátt og smátt þjónustugjöldin eftir því sem þörfin segði til um og réttlætanlegt var, þannig að við gætum reynt að halda á við kostnaðinn. En að fá á sig skell eftir að hækkanirnar hafa verið dregnar saman í stórar upphæðir í prósentum, það er hvaða sveitarfélagi sem er um of. Ég vona að sú ríkisstj., sem nú situr, beri gæfu til þess að hafa betri skilning á þörfum sveitarfélaganna þegar þar skapast, en dragi ekki saman í eina stóra upphæð, sem skellur á fólki með þeim þunga sem nú þarf að vera, til þess að endar nái saman.

Ég verð að lokum að segja það, að þrátt fyrir þá heimild, sem félmrh. hefur staðfest bréflega að Reykjavíkurborg muni fá til þess að geta gert þennan samning við Landsbanka Íslands, þá þurfi borgin ekki á því að halda. En heimildin er fyrir hendi og er bara varnagli og sýnir að borgarstjórnin og borgarstjórnarmeirihl. tekur ábyrga afstöðu í sínum fjármálum.