18.12.1974
Efri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins nota tækifærið og þakka hæstv. iðnrh. hversu vel hann hefur brugðist við óskum austfirðinga um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Hér kemur fram í raun og veru í fyrsta skipti virkjun sem austfirðingar vonast eftir að geti leyst raforkuþörf þeirra. Þær virkjanir, sem byggðar hafa verið á Austurlandi, hafa í raun og veru aldrei borið þess merki að yfirvöld hafi haft sérstaka trú á þeim landshluta. Þær virkjanir hafa bæði verið fáar og smáar.

Virkjun sú, sem byggð var við Grímsá á sínum tíma, var af austfirðingum þá talin of lítil, og austfirðingar þurftu að berjast í rúman áratug fyrir því að virkjun yrði reist við Smyrlabjargaá. Sama er að segja um Lagarfoss. Það var alltaf álit austfirðinga að sú virkjun væri of lítil. Nú hefur komið í ljós að þessar spár austfirðinga eru réttar. Rafmagnsskortur á Austurlandi er gífurlegur í dag og ekki er ástæða til að rekja það frekar. Þessi virkjun við Bessastaðaá mun væntanlega leysa þann brýna vanda, sem þar ber að höndum, en ekki fyrr en eftir um það bil 4-5 ár, eins og hæstv. ráðh. gat um.

Ég vona að þessu máli verði hraðað eins og kostur er, gert verði allt til þess að flýta þessu máli og koma því til leiðar að þessi virkjun rísi sem fyrst af grunni, en það verði samt haft í huga að þess verði mjög vel gætt að þarna sé vel að verki staðið, þarna sé nægilegt vatn fyrir hendi og umhverfissjónarmið verði í hvívetna höfð í fyrirrúmi. En þessi virkjun er að því leyti til mjög hagstæð, að lítil hætta er á, að umhverfi verði spillt.

Ég vil ekki gera að frekara umtali áframhaldandi virkjunarframkvæmdir á Austurlandi. Austfirðingum er ljóst að mesta auðlegð þeirra liggur í orkunni í landshlutanum og í fiskimiðunum úti fyrir ströndinni. Það verður mál framtíðarinnar hvernig austfirðingar vilja nýta þessa orku, og að mínum dómi eiga þeir sjálfir að ráða því og hafa þar allt frumkvæði. Ég vil ekki taka afstöðu í því á þessu stigi málsins, hvernig þessari orku verður ráðstafað. Ég vil að við fáum að athuga hvert mál sem kemur upp um það, hvernig þessi orka verði best nýtt, og austfirðingar fái að hugleiða það sjálfir, hvort þeir telji að það sé hagkvæmt. Því geta þeir einir ráðið úr, og þess vegna verður að taka afstöðu til hvers máls eftir að tækifæri hefur gefist til að skoða það niður í kjölinn.

Mér er því miður ekki kunnugt um fyrirætlanir Norsk Hydro, sem hv. 7. landsk. gat hér um, ég hef aðeins séð þeirra lítillega getið í blöðum. Ég vil aðeins leiðrétta það, að hér er að vísu ekki um gífurlegt auðfélag að ræða vegna þess að Norsk Hydro er að mestu leyti eign norska ríkisins og er ríkisfyrirtæki, eftir því sem ég kynntist best í veru minni í því landi. Það fyrirtæki er að mestu leyti rekið af norska ríkinu, þannig að ég held að það sé vart rétt að kalla það því nafni. En það skiptir hins vegar engu máli. Það er fyrirtækið sjálft, sem á að reisa þarna, og ef það er hættulegt umhverfi sínu og fólki, þá munu austfirðingar aldrei taka í mál að slíkt verði reist.

Ég vil svo að lokum endurtaka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir það, hversu vel hann hefur brugðist hér við.