18.12.1974
Efri deild: 27. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

124. mál, alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á tímabilinu 4.–20. okt. 1972 var haldin í London alþjóðaráðstefna til þess að endurskoða alþjóðasiglingareglurnar frá 1960. Á ráðstefnunni var gerð samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó og var hún undirrituð af fulltrúum 16 landa hinn 20. okt. 1972. Flestir undirrituðu með fyrirvara, þ. á m. Ísland, og þetta frv. er einmitt flutt til þess að fullnægja þeim fyrirvara og leita samþykktar Alþ. til þess að mega staðfesta samþykktina. Þessi samþykkt hefur verið lögð fyrir samgrn., sem leggur til að hún verði staðfest fyrir Íslands hönd.

Sökum örrar þróunar á sviði siglingatækni og tilkomu risaskipa, sem fer sífjölgandi, þótti orðið nauðsynlegt að endurskoða reglurnar frá 1960, en þær tóku gildi 1. sept. 1965. Til þessa hafa siglingareglurnar byggst á samkomulagi þjóða í milli án þess að þær væru byggðar á samþykkt. Nú hefur hins vegar í fyrsta sinni verið gerð samþykkt um reglurnar. Samþykktin auðveldar endurskoðun og breytingar á reglunum, sem áður var aðeins hægt að breyta með því að kalla saman alþjóðaráðstefnu. Helstu breytingar, sem gerðar voru á siglingareglunum að þessu sinni, eru í stórum dráttum sem hér segir:

Kaflaskiptingu og niðurröðun greina hefur verið breytt, þannig að nú er hún skýrari og ýmis atriði tæknilegs eðlis, sem áður voru hluti siglingareglnanna eru nú birt aftan við þær sem viðaukar. Hins vegar eru leiðbeiningar um notkun radars sem hjálpartækis til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, og er viðauki við núgildandi reglur felldur inn í nýju reglurnar, þannig að nú eru þeim skipstjórnarmönnum, sem hafa radar til umráða, lagðar ýmsar skyldur á herðar í sambandi við notkun hans.

Í núverandi reglum er mælt fyrir um að skip, sem ekki á að víkja fyrir öðru skipi, skuli halda stefnu sinni og ferð óbreyttri. Hefur grein þessi lengi verið skipstjórnarmönnum áhyggjuefni. En í nýju reglunum hefur verið bætt úr þessu með því að heimila slíkum skipum að gera eigin ráðstafanir í tæka tíð ef fyrirsjáanlegt er að skipið, sem víkja átti samkv. reglunum, vanrækir skyldu sína í þeim efnum.

Merk nýmæli koma fram í 10. gr. reglnanna. Þar er ákveðið hvernig skip skuli haga siglingu sinni á ýmsum ströngum og fjölförnum siglingaleiðum sem ákveðnar hafa verið af Alþjóðasiglingamálastofnuninni.

Samþykktin um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó og reglurnar, sem henni fylgja, taka gildi 12 mánuðum eftir að 15 ríki, sem eiga samanlagt ekki minna en 65% af verslunarflota heims miðað við fjölda eða rúmlestatölu, hafa gerst aðilar. Er miðað við 100 brúttólesta fiskiskip og stærri og fer gildistakan eftir því hvoru markinu verður fyrr náð. En þrátt fyrir framangreind ákvæði skulu reglurnar ekki taka gildi fyrr en 1. jan. 1976. Samþykktin og reglur þessar, ásamt viðaukum þeirra, eru birtar á þskj. 178 sem fskj.

Sé ég ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.