18.12.1974
Efri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

118. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, þess efnis að á Alþ. 1973 var gerð sú breyting á þessum lögum, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var falið að starfrækja rannsóknarstofur utan Reykjavíkur samkv. nánari ákvörðun ráðh. og að fengnum till. aðila fiskiðnaðarins. Samkv. þessari lagabreytingu átti að leita samstarfs í þessum efnum við fiskiðnaðinn eða fiskframleiðendur og aðra matvælaframleiðendur og sveitarfélög á viðkomandi stað og þessir aðilar legðu fram helming stofnkostnaðar þessara útibúa.

Fljótt kom í ljós að mjög mikil óánægja var ríkjandi með að hafa þetta ákvæði í þessum lögum, að staðir úti á landi, þar sem áttu að risa útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, ættu að greiða helming af stofnkostnaði þegar kostnaður víð aðalstöðvarnar hér í Reykjavík er greiddur, eins og allir vita, að fullu og öllu af ríkinu. Sama er að segja um Hafrannsóknastofnunina. Hún er kostuð af ríkissjóði að öllu leyti og sömuleiðis þau útibú sem áformað er að reisa og reka á hennar vegum. Eitt útibú Hafrannsóknastofnunar hefur nýlega tekið til starfa, útibúið á Húsavík, sem er mjög vel útbúið og naut margvíslegs stuðnings heimamanna á staðnum, en er greitt að öllu leyti af ríkissjóði. Sama má segja um t.d. tilraunastöðvar, sem reknar eru af landbúnaðinum. Þær eru auðvitað allar eins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins greiddar að fullu og öllu af ríkissjóði.

Ég held að hér hafi verið um ákaflega ósanngjarna breytingu að ræða hvað snertir þessa einu rannsóknastofnun. Þetta frv. gerir ráð fyrir að afnema það með öllu þannig að allar rannsóknastofnanir og öll útibú, sem kunna að verða reist og rekin, verða greidd að fullu af ríkissjóði.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.