18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr. í þessari hv. þd., er um breyt. á l. um löndun á loðnu til bræðslu. Þessi lög voru sett á árinu 1972 og 1. jan. 1974 tóku gildi lög um löndun á loðnu til bræðslu, sem voru framhald af fyrri lagasetningu. Var við undirbúning þessarar lagasetningar tekið tillit til þeirrar reynslu sem fékkst af eldri lögum við skipulag loðnulöndunar á vertíðinni á s.l. ári.

Á síðustu loðnuvertíð stunduðu um 135 skip veiðar á móti um 90 skipum á árinu á undan. Á sama tíma urðu þær breyt. á afkastagetu verksmiðjanna, að báðar verksmiðjurnar í Vestmannaeyjum tóku á móti loðnu á síðustu vertíð, en á vertíðinni 1973 tók aðeins önnur verksmiðjan við loðnu síðari hluta vertíðarinnar.

Helstu breyt. frá gildandi lögum eru þær, að sett eru skýrari ákvæði um tilkynningarskyldu skipstjóra til loðnunefndar og að fiskiskipi er undir öllum kringumstæðum óheimilt að leita löndunar hjá verksmiðju ef loðnunefnd hefur ekki auglýst laust móttökurými. Þá er einnig lagt til, að loðnunefnd verði skipuð til eins árs í stað 3 ára áður. Þá er enn fremur gerð sú breyt., að heimilað er að greiða kostnað af framkvæmd l. úr loðnuflutningasjóði, en heimild til að innheimta sérstakt gjald af hverri hráefnislest verði áfram í l., þar sem grípa yrði til þeirrar heimildar ef Verðlagsráð sjávarútvegsins kynni að ákveða við verðlagningu einhverju sinni að loðnuflutningasjóður yrði ekki starfræktur.

Breyt., sem verður á 3. gr., er að það eru sett inn refsiákvæði gagnvart loðnufrystihúsum ef þau gerast brotleg við reglur n., og jafnframt eru sett refsiákvæði gagnvart skipum ef þau eru þátttakendur í slíkum brotum. Þá er einnig lagt til að sektir vegna brota á þessum l. skuli renna í loðnuflutningasjóð.

4. gr. frv. er nýmæli. Þar er lagt til að veitt verði heimild fyrir setningu reglugerðar um löndun á loðnu til frystingar ef samstaða ríkir um það milli hagsmunaaðila, og er þetta gert í fullu samráði við hagsmunaaðila alla, en þeir hafa komið saman til fundar á vegum sjútvrn., þ.e. fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna, fulltrúar verksmiðjanna og fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og þar náðist þetta samkomulag.

Ed. hefur gert þá breyt. á þessu frv., að hún hefur samþ. að bæta við ákv. til brb. þess efnis að þrátt fyrir ákvæði l. nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, skal tilteknu skipi, sem Ísafold heitir, 800 lestir og verður skráð í Hirtshals í Danmörku, vera heimilt að veiða loðnu í landhelgi og landa henni á svæðinu frá Patreksfirði norður til Seyðisfjarðar sem íslenskt skip í febr.- og marsmánuði á næsta ári, enda hlíti það reglum sem sjútvrn. setur og sé rekið af íslenskum aðila og áhöfn þess sé íslensk. Sjútvn. nd. varð sammála um að gera þessa breyt. á frv. og Ed. samþ. þessa breyt. shlj. Ég fyrir mitt leyti get fallist á þessa breyt. Ég tel að hér sé um mjög sérstakt tilfelli að ræða, þar sem er alíslensk áhöfn og eigandi a.m.k. að 1/3 að þessu skipi er íslendingur og það hlýtur öllum settum reglum eins og um íslensk skip væri að ræða. Og svo er hitt sem kannske skiptir töluverðu máli, það skilyrði, sem sjútvn. Ed. setur, að þetta skip landi á svæðinu frá Patreksfirði norður um til Seyðisfjarðar. Þetta er stórt skip sem tekur stóra farma, og það hafa verið einna mestu erfiðleikarnir að metta verksmiðjur á þessu svæði öllu eða þær verksmiðjur sem eru yfirleitt lengst frá veiðisvæðinu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., því að það hefur verið um það alger samstaða á milli allra þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli. — Forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísa ð til hv. sjútvn.