18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

84. mál, útvarpslög

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Þegar umr. var frestað síðast um þetta mál var ekki komið lengra en það, að einn ræðumaður hafði látið álit sitt í ljós auk hæstv. menntmrh., frummælanda fyrir málinu.

Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa í grundvallaratriðum samþykki við þau höfuðsjónarmið sem fram komu hjá hv. 2. landsk. þm., en vil þó bæta þar nokkrum atriðum við þegar í upphafi, sérstaklega vegna þuss að þar talaði hv. þm. sem ég býst við að allir þm. geti verið sammála um að getur djarft úr flokki talað um mál Ríkisútvarpsins. Ég hygg að ég fari ekki með rangt mál þegar ég held því fram, að hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, hafi manna lengst setið í útvarpsráði og gegnt þar formannsstarfi öðrum mönnum lengur. Hv. þm. Benedikt Gröndal er að mínu áliti aðalhöfundur þeirra útvarpslaga sem gilt hafa undanfarin ár þótt við samningu þeirra hafi hann haft samstarf við tvo aðra ágæta menn og fróða um þessi efni. Andrés Björnsson útvarpsstjóra og Þórð Eyjólfsson fyrrum hæstaréttardómara.

Það er og að mínu áliti fyrst og fremst verk hv. 2. landsk. þm., þótt hann hafi átt þar ýmsa góða samherja og samverkamenn, að síðasta hálfan annan áratuginn hefur orðið mikil stefnu,breyting um efnisval og efnishlutföll í Ríkisútvarpinu í þá átt sem hann lýsti nokkuð í ræðu sinni í gær. Ákvæði útvarpsl. um óhlutdrægni hafa í vaxandi mæli verið túlkuð á þann eina hátt sem ég tel eðlilegan, sem sé að í þeim felist það að Ríkisútvarpið skuli vera vettvangur fyrir frjáls skoðanaskipti mismunandi sjónarmiða án þess að þar sé sífellt verið að vega og meta að helst komi í framhaldi af yfirlýsingu formælanda einhverrar skoðunar formælandi andstæðrar skoðunar með andmæli, helst jafnlöng svo að upp á mínútu sé. Því aðeins getur Ríkisútvarpið verið sá lífandi fróðleiks- og skoðanamiðill sem það á að vera skv. eðli sínu, að óhlutdrægnisreglan sé þannig túlkuð að óhlutdrægnin komi fram í opnum og hreinskilnislegum umr. sem ekki séu felldar í form kappræðu, heldur fái málsvarar mismunandi skoðana að koma þar fram á eðlilegan hátt og það jafnvægi, sem leita verður að sjálfsögðu, komi fram í tímans rás á verulegum tíma.

Þetta sjónarmið réð tvímælalaust stefnunni þegar núgildandi útvarpslög voru mótuð. Þar var kveðið á um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, og það sjálfstæði var fest í lög með ýmsum hætti, þ. á m. og ekki síst með ákvæðinu um hversu skyldi varið kjörtímabili útvarpsráðs. Þar var ákveðið að útvarpsráð skyldi sem áður kjörið hlutfallskosningu á Alþ. en kjörtímabil þess skyldi fastákveðið 4 ár, en ekki, eins og verið hafði um undanfarið árabil, bundið við það að nýtt útvarpsráð væri kosið og tæki við störfum eftir hverjar alþingiskosningar.

Ég sá í flokksblaði hæstv. menntmrh. eftir l. umr. þessa máls í Ed., að hann hefði viðhaft þar þau ummæli að það hefði verið gerð fljótfærnisleg breyt. á kosningu útvarpsráðs með l. frá 1971. Sé þetta rétt eftir haft, vil ég algjörlega andmæla því að þetta sé rétt mat á því hvernig með þetta ákvæði sér í lagi var farið þegar um útvarpslögin nýju var fjallað á þinginu sem hófst 1970 og reyndar hafði verið fjallað um sama frv. á þinginu áður. En til að hrekja það að hrapað hafi verið að þessari breyt, á kjörtímabili útvarpsráðs vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna lítillega í framsöguræðu þáv. menntmrh. í þessari hv. d. hinn 29. okt. 1970. Þar sagði hæstv. þáv. menntmrh. m.a.:

„Þetta frv. gerir ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði sjálfstæðari stofnun í framtíðinni en það hefur verið hingað til. Það var eindregin skoðun n. að svo skyldi vera, og ég er því fyrir mitt leyti og ríkisstj. sammála að að því skuli stefnt.

Ríkisútvarpið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í íslensku menningarlífi og íslensku þjóðlífi, og það er heppilegt og eðlilegt að slíkar stofnanir séu sem óháðastar, að sem allra minnst hætta sé á afskiptum stjórnmálayfirvalda af stofnunum sem þessari.

Þá er það nýmæli í frv., eina nýmælið sem mér finnst orka nokkurs tvímælis og vil beina sérstaklega til hv. n. að athuga rækilega, en það er ákvæði frv. um breyt. á reglulegum kosningum útvarpsráðs. Hingað til hefur sérhvert nýkjörið Alþ. kosið útvarpsráð og menntmrh. skipað formann þess, og hefur þetta verið gert til þess að jafnan sé tryggt gott samstarf á milli stjórnvalda, sem fara með umboð Alþ., annars vegar og yfirstjórnar útvarpsins hins vegar, vegna þess hve mikið er undir því komið að gott samstarf sé milli þessara aðila. Þetta hefur verið svo um langt skeið. Hér hefur hins vegar verið gert ráð fyrir því samkv. till. n., sem frv. samdi, að útvarpsráð verði kosið til 4 ára þannig að svo getur vel farið að þeir menn sem kosnir eru í útvarpsráð að meiri hl., séu ekki úr sömu flokkum og fara með meirihlutavald á Alþ., og þá sömuleiðis að formaður útvarpsráðs sé ekki skipaður af þeim menntmrh. sem sitja kann.

Sú skipun sem frv. gerir ráð fyrir hefur ýmsa kosti. Hún gerir útvarpsráð óháðara stjórnvöldum en verið hefur. En því er ekki að leyna að þeirri skipan fylgir líka nokkur ókostur. Það kann að vera að það torveldi samstarf útvarpsráðs og ríkisstj. eða menntmrn. og þá sérstaklega samstarf formanns útvarpsráð og menntmrh. ef þeir eru úr sitt hvorum flokknum, þ.e.a.s. ef form. er samkv. gamalli skipun úr flokki sem er í stjórnarandstöðu. Ég vil ekki gera mikið úr þessu, ekki mikið úr hættunni á því að slíkt kunni að leiða til nokkurra vandræða. En ég vil vekja athygli á því að þetta er mikilsverð breyting frá því, sem verið hefur, og gæti undir vissum kringumstæðum verið báðum aðilum til nokkurs tjóns, menntmrn. annars vegar og svo Ríkisútvarpinu hins vegar. Ég fyrir mitt leyti get þó vel fellt mig við þá skipan sem hér er lögð til. Sama gildir um ríkisstj., annars væri frv. ekki flutt í því formi sem það er flutt. En ég vil vekja athygli þm. og hv. n. á því, að hér er um mikilsverða breytingu að ræða og rétt að athuga hana vandlega.“

Í ljósi þessara ummæla í framsöguræðu þáv. menntmrh. tel ég það algjört öfugmæli að halda því fram að Alþ. hafi á sinum tíma flasað að þeirri breytingu á kjörtímabili útvarpsráðs sem gerð var. Þvert á móti vekur ráðh. í framsöguræðu sinni eins sterklega athygli og verða má á þeirri grundvallarbreytingu sem þarna sé um að ræða. Hann bendir þingheimi alveg sérstaklega á að hugleiða þetta mál og rasa ekki um ráð fram, flasa ekki að neinu í þessu efni. Og hann tekur alveg sérstaklega fram að þarna séu þáv. ríkisstjórnarflokkar sammála, þetta sé stefna þáv. ríkisstj. sem verið sé að bera fram um þennan þátt í stjórnun Ríkisútvarpsins.

Hvað varðar flokk núv. hæstv. menntmrh., þá var öðru nær en að hann léti meðferð þessa frv. afskiptalausa á Alþ. 1970 og á öndverðu ári 1971. Um málið töluðu meðal annarra 3 af núv. ráðh. Framsfl., hæstv. landbrh., hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. Allir tjáðu þeir sig um þetta mál og ég held í fleiri ræðum en einni allir þrír. En enginn þeirra gerði að umtalsefni þetta ákvæði, ákvæðið um að breyta kjörtímabili útvarpsráðs, enginn gerði við það athugasemdir og það ákvæði var samþ. og sett í lög án þess, svo að ég hafi orðið var við, að nokkur þm. tæki undir það að nokkuð væri gerandi úr þeirri hættu sem þáv. menntmrh. kvaðst vilja vekja athygli á þegar í upphafi meðferðar málsins, að vel sé rökstutt nú, þegar fram kemur stjórnarfrv. um breyt. á þessu ákvæði í hið fyrra horf frá ríkisstj. sem mynduð er af flokkum sem ég tel mig hafa sýnt fram á að hafi að vel athuguðu máli horfið að því ráði sem lögfest var með útvarpslögunum frá 1971. Þegar þeir beita sér nú fyrir því að frá þessari reglu sé horfið og önnur tekin upp, þá hlýtur að verða að krefjast þess að rök og sterk rök séu leidd að því að slík stefnubreyting sé nauðsynleg. Eins og hv. 2. landsk. þm. vakti athygli á í ræðu sinni í þessum umr. í gær er hér um að ræða breytingu á einu af grundvallaratriðum þeirrar lagasetningar, þeirrar stefnu um stjórn og starfshætti Ríkisútvarpsins sem lögfest var 1971. Ákvæðið um fast kjörtímabil útvarpsráðs er ómissandi hlekkur í þeirri keðju ráðstafana sem þá var verið að gera til þess að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum á hverjum tíma. Ákvæðið var einmitt hugsað þannig, að með því væri slegið föstu að um Ríkisútvarpið færi eins og flestar aðrar stofnanir, sem hafa innan sinna vébanda eða yfir sér ráð og stjórnir kjörnar af Alþ., að kjör þeirra færi ekki saman við kjörtímabil Alþingis, heldur væri þar um fast kjörtímabil að ræða, þar sem eitt ráð eða stjórn tæki við af öðru og ekki endilega um leið og nýtt Alþ. settist á rökstóla.

En hvað sem því líður, hvaða rök sem færð kunna að vera fyrir að hér beri að hverfa að fyrri skipun, þá breytir það ekki því að þessa skipulagsbreytingu mætti gera og láta þó útvarpsráð það sem situr starfa út sitt kjörtímabil. En það er ekki ætlunin hér. Í frv. um breyt. á útvarpslögum á þskj. 92 er einmitt ákvæði til bráðabirgða þar sem segir, að útvarpsráð skal kjörið þegar er lög þessi hafa tekið gildi og fellur samtímis niður umboð núv. útvarpsráðs.

Hér kemur sem sagt fram tvíþættur tilgangur með þessu frv. Annars vegar að kippa burt einum af hornsteinum undir því sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem reynt var að treysta og koma á með útvarpslögunum 1971, hins vegar að skipta umsvifalaust um menn í útvarpsráði.

Borið hefur á góma í þessum umr., þótt mér hafi lítt gefist kostur á að fylgjast með þeim umr. sem fram hafa faríð í hv. Ed., að skipun útvarpsráðs hefur verið með ýmsu móti á starfsferli Ríkisútvarpsins. Hv. 2. landsk. þm. ræddi nokkuð í ræðu sinni í gær það fyrirkomulag, sem ríkti aðeins eitt kjörtímabil, að útvarpsnotendur sjálfir kusu hluta útvarpsráðs. Ég vil fyrir mitt leyti gera athugasemd við það, sem mér virtist vera skoðun hans, að það fyrirkomulag hefði ekki svarað tilgangi sinum vegna þess að í ljós hefði komið að flokkspólitískra viðhorfa hefði gætt í framboði til útvarpsráðs þegar hin almenna kosning meðal útvarpsnotenda fór fram. Ég man vel eftir þessum kosningum, þegar oddvitar framboðslista héldu framboðsfund í útvarpinu og báru fram hugmyndir sínar um dagskrárstefnu. Þá voru þar fyrir hvoru liði einhverjir snjöllustu útvarpsmenn sem þá voru uppi: Annars vegar dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur, hins vegar Pálmi Hannesson rektor, Árni fyrir því sem kalla mætti hægri fylkingu og Pálmi fyrir vinstri mönnum. Þarna var útvarpsnotendum boðið að kjósa um menn sem þeir þekktu báða að góðu fyrir efnisval og efnismeðferð í útvarpi. Og þó að flokkspólitíkin í þá daga kæmi þarna nokkuð við sögu, þá tel ég að framboð kosninga í þetta skipti hafi sýnt að við almenna kosningu útvarpsráðs kemur hún fram allt öðruvísi en þegar um það er að ræða að útvarpsráðsmenn séu kjörnir af Alþ. Þá eru allt önnur tök á því fyrir flokksvélar og flokksvald að beita sér og velja mennina, þar sem hins vegar í almennri kosningu, þótt flokkarnir komi þar við sögu, hljóta þeir að velja mennina fyrst og fremst eftir því að þeir skírskoti til hins óbreytta kjósanda, hins óbreytta útvarpshlustanda. Þess vegna er ég alls ekki eins sannfærður og mér virtist 2. landsk. þm. vera um að þetta fyrirkomulag hefði reynst óhæft. Enda tel ég nú það sannast mála, að þegar frá því var horfið var það beinlínis gert vegna þess að ýmsum flokksforingjum, sem þá voru og sumir æðiráðríkir, fannst að þetta almenna kjör hluta útvarpsráðs gerði útvarpsráð full sjálfstætt, fullmyndugt, að útvarpsráðsmenn, þótt flokksmenn væru, sem hefðu umboð sitt beint frá útvarpsnotendum, vildu miklu frekar ráða stefnunni og fara sínar eigin götur en útvarpsráðsmenn sem beint væru valdir af flokkum og kjörnir á Alþ.

Ég læt nú útrætt um þetta atriði, þótt ég telji að það sé alls ekki út í hött að ræða það þegar almennt er rætt um eftir hvaða reglum eigi að velja útvargsráð.

Það hefur ekki farið leynt, að síðan núv. útvarpsráð tók til starfa hafa þeir menn, sem þar hafa skipað meiri hl., verið lagðir mjög í einelti í stærsta blaði landsins. Það er ekki alveg nýtt að það eigi sér stað að blöðin þurfi að segja sitt af hverju um stjórnendur Ríkisútvarpsins eða þá sem í útvarpi kom fram. T.d. á því tímabili, sem ég aðeins ræddi hér áðan, árunum milli 1934, skulum við segja, og 1940, þá var til að mynda útvarpsmaður, vinsæll mjög og mikilvirkur, séra Sigurður Einarsson, sem fékk yfir sig ótaldar skammagusur í Morgunblaðinu fyrir það hversu hann túlkaði einkum alþjóðamál.

Í því moldviðri, sem reynt hefur verið að þyrla upp nú síðustu dagana, hefur mjög borið á góma dagskrá sem útvarpað var úr Háskóla Íslands 1. des. Það minnir á það að fyrir hart nær 40 árum var útvarpað útvarpsdagskrá háskólastúdenta 1. des., þar sem Halldór Kiljan Laxness kom fram og hélt aðalræðu og olli miklu fjaðrafoki og blaðaskrifum, einnig í Morgunblaðinu. En það, sem nýtt er við þennan málflutning nú, er það að reynt er að koma því inn hjá blaðalesendum að það sé útvarpsráð eða meiri hl. þess, sem beri ábyrgð á þeirri dagskrá sem háskólastúdentar velja að flytja á þessum degi, en þess ekki gætt, að það hefur verið föst hefð um áratugi að því, sem háskólastúdentar hafa fram að færa 1. des., sé útvarpað hverjum svo sem þar er teflt fram og hvaða hópur háskólastúdenta það er sem dagskránni ræður.

Það er alveg ljóst, að frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum hefur nokkur hópur a.m.k. í Sjálfstfl. lagt á það mikla áherslu að bola frá flestum þeim mönnum sem skipað hafa meiri hl. í útvarpsráði það sem af er kjörtímabilinu sem yfir stendur. Ekki hefur linnt brýningum mánuð eftir mánuð að það væri eitt af aðkallandi verk efnum núv. ríkisstj. að skipta um menn í þessari stofnun. Þegar svo þetta frv. kom fram kvað við fagnaðaróp á síðum Morgunblaðsins. Þar birtist leiðari um útvarpsráð og kjör þess þar sem m.a. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá framtakssemi Vilhjálms Hjálmarssonar menntmrh. ber að þakka að flytja frv. til breyt. á útvarpslögum sem gerir ráð fyrir að nýtt útvarpsráð verði kosið eftir hverjar alþingiskosningar og þar með þegar er frv. þetta hefur náð samþykki Alþ. Óhætt er að fullyrða að það hefur verið mjög almenn skoðun að þessa breytingu ætti að gera, og menntmrh. hefur tekið af skarið í þeim efnum:“ Síðan er bætt við í þessari forustugrein: „Óneitanlega vekur það nokkra furðu, að einn af þm. Sjálfstæðisfl., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, skuli draga réttmæti þessarar fyrirhuguðu breytingar í efa.“ Það er ekki nóg með að Morgunblaðið hlaupi upp um hálsinn á hæstv. menntmrh. og þakki honum þetta frv., heldur sendir það hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni hnútur og ákúrur fyrir að hann skuli ekki vera alveg jafnhrifinn af þessari breytingu.

Það leynir sér því ekki að Morgunblaðið og sá hluti Sjálfstfl., sem það talar fyrir í þessu máli, er ákaflega þakklátur hæstv. menntmrh. fyrir að ganga fram fyrir skjöldu og leggja að því drög að skert verði það sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum sem Alþ. ákvað að koma á 1971. En ég vil segja hæstv. menntmrh. það, að þó að Morgunblaðið reyni í þessu máli sem öðru í krafti útbreiðslu sinnar að láta líta svo út sem það tali fyrir munn alls fjöldans, þá held ég að hæstv. menntmrh. geti auðveldlega gengið úr skugga um að flutningur þessa frv. mælist síður en svo vel fyrir meðal almennings. Það er enginn vafi að sú stefna, sem hv. 2. landsk. þm. beitti sér sérstaklega fyrir meðan hann var form. útvarpsráðs og síðan var lögfest 1971, sú stefna að útvarpið eigi að vera opið mismunandi skoðunum og að þar eigi að fara fram frjálslegur málflutningur í hverju því máli sem miklu skiptir í þjóðfélaginu, og jafnvel því fremur sem skoðanir eru skiptari um mál, sú stefna hefur fundið hljómgrunn hjá öllum þorra íslendinga. Íslendingum er ekki um það gefið að reynt sé að troða ofan í þá einhliða málflutningi, og þeir kippa sér ekki upp við það að í opinberum fjölmiðli komi fram skoðanir og sjónarmið sem kunna að falla mönnum misjafnlega og þykja allsvæsin. Menn kunna því miklu betur að þurfa einstöku sinnum að hlýða á eitthvað sem máski hneykslar þá og vekur þeim gremju heldur en að vera mataðir á eintómum vatnsgrautarvellingi útþynnts málflutnings, þar sem þeir fá hvergi nærri að koma sem hneigjast til að ydda mál sitt og setja fram beinskeyttar og kannske ekki alltaf vandlega yfirvegaðar staðhæfingar. Ég tel að hin almenna skoðun á tilganginum með flutningi þessa frv. sé sú, að hér sýni stjórn stóru flokkanna tveggja í landinu tilhneigingu til að stíga skref aftur á bak, að hverfa frá þeim opnu og frjálslegu skoðanaskiptum sem í vaxandi mæli hafa einkennt málflutning í Ríkisútvarpinu. Og ég staðhæfi að það er andstætt þorra landsmanna að frá þeirri stefnu sé horfið.