18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs og það er á valdi forseta hvaða röð hann velur þegar bæði ráðh. og hv. þm. hafa kvatt sér hljóðs samtímis. Ég virði að sjálfsögðu tillitssemi hv. 3. þm. Reykv. og vil ekki metast um það við hann hvor fari fyrr í pontuna.

Ég vil segja það fyrst að ég skuldaði í raun og veru hv. þm. afsökun mína fyrir að ég var ekki viðstaddur þegar þetta mál var tekið á dagskrá í dag. Ég hafði fyrir löngu lofað að mæta á „litlu jólum“ í skóla einum hér í bænum, skóla fjölfatlaðra barna í Kjarvalshúsi. Og með því einnig að ég treysti því að hér yrðu alllangar umr. um annað dagskrármál sem var á dagskránni og hafði spurst fyrir um dagskrána hér á skrifstofunni, þá riftaði ég ekki þessu loforði sem ég hafði áður gefið. Ég má bæta því hér við að það var ákaflega lærdómsríkt að koma í þessa stofnun, og væri það áreiðanlega æskilegt að sem flestir hv. þm. ættu kost á því að kynna sér það gífurlega erfiða starf, sem þar er unnið af starfsfólkinu. En ég vil biðja hv. þdm, afsökunar á því samt sem áður að ég mætti ekki á þingfundi þegar þetta ágæta frv. var til umr. hér í hv. d. fyrr í dag. Ég frétti það svo að tveir hv. þm. hefðu byrjað hér að tala, en orðið frá að hverfa þar sem mín naut ekki við. Ég hafði satt að segja gert ráð fyrir því að ég mundi fá hér mjög flóknar fyrirspurnir líkt og ég fékk í hv. Ed., þ. á m. eina sem mér var lífsins ómögulegt að svara þrátt fyrir mjög mikinn vilja. Það var fyrirspurnin um það, hvort þetta frv. hefði verið lagt fram ef hér hefði verið mynduð vinstri stjórn.

Það er afskaplega erfitt að segja fyrir um hvað hefði gerst ef forsendur hefðu verið aðrar. Þegar í hlut eiga náttúruöfl, t.d. vindar loftsins og straumar hafsins ellegar ísmyndanir í vatnsföllum, þá reyna menn að nálgast spurningar um svona hluti með því „setja viðfangsefnið í módel“. Menn eru aldrei alveg öruggir fyrir því, en komast þó oft mjög nálægt þeim viðfangsefnum. Þó að menn hefðu gefið sér tíma til að „setja þetta mál í módel“, sem auðvitað hefði þá orðið að vera með nokkuð sérstökum hætti, þá held ég að menn hefðu ekki nálgast rétta svarið nándar nærri eins mikið, því að þótt torráðnir séu straumar hafs og lofts og allt það, þá eru straumarnir í pólitíkinni og þar með í mannssálinni enn þá torráðnari. En hv. síðasti ræðumaður hlífði mér við svona torveldum spurningum, hv. 3. landsk. þm.

Það hefur mikið verið talað um það, bæði í blöðum og hér á Alþ. líka, að þetta mál bæri að með óeðlilegum hætti, það væri skammur tími til að fjalla um það o.s.frv. Mér finnst þetta alveg fráleitt. Þetta er ákaflega einfalt mál og það eru margir dagar til stefnu. Og það er alveg eins með hitt, að hér sé eitthvað óvenjulegt á seyði, að styttur sé kjörtími kjörinna n. á Alþ. með lögum. Þetta hefur oft gerst áður hér á hv. Alþ. og hér er ekki um neitt nýmæli að ræða að því leyti, ekki neitt.

Hv. 3. landsk. lýsti þeirri skoðun sinni, að það væri mjög æskilegt að útvarpsráð væri óháð stjórnmálaafskiptum, og þessu var mjög haldið fram einnig í hv. Ed. og þar með miklu sterkari orðum en þessi hv. þm. notaði áðan. Við skulum segja að það sé æskilegt að útvarpsráð sé sem óháðast stjórnmálum og sem allra sjálfstæðust stofnun í sjálfu sér. En á meðan sú skipun er viðhöfð, sem staðið hefur nú lengi, að Alþ. kýs útvarpsráð hlutbundinni kosningu, eftir að þeir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ., hafa skilað listum sínum eins og venja er í slíkum hlutbundnum kosningum, þá verður ekki hjá því komist að útvarpsráð er — kannske ekki endilega háð stjórnmálunum — en það er nátengt þeim. Og það verður það alltaf meðan þessi háttur er á hafður, að Alþ. kjósi útvarpsráð. Það verður alltaf nátengt flokkunum sem stilla upp listunum, hvort sem er hafður á sá hátturinn að kjósa á 4 ára fresti eða 3 ára fresti annars vegar ellegar að kjósa að afstöðnum alþingiskosningum, eins og lengst af hefur verið venja. Og þó að menn vildu alveg snúa þessu við og láta kosningu í útvarpsráð fara fram á síðasta þingi kjörtímabilsins, þá væru tengslin við stjórnmálin og stjórnmálaflokkana að mínum dómi alveg hin sömu. Þess vegna álít ég að það sé alveg tómt mál að tala um það, á meðan við höfum þessa skipan á, að útvarpsráð skuli ekki vera tengt stjórnmálunum og stjórnmálaflokkunum.

Menn reyndu það í fyrstunni og hafa aðeins velt því fyrir sér, þótt engar beinar till. hafi komið fram um það hér, að taka upp allt annan hátt og að fela eins og áður einhverjum tilteknum stofnunum, kannske hlustendum sjálfum, að velja ráðið. En ætli það færi ekki svo í reyndinni samt sem áður, þó að menn tækju upp slíkt fyrirkomulag, að það yrði erfitt þar eins og svo viða að útiloka áhrif stjórnmálanna? Ég er ósköp hræddur um það. Og ég t.d. tók eftir því þegar hv. 3. landsk. þm. áðan rifjaði það upp þegar kosið var til útvarpsráðs að nokkru utan þings, þ.e.a.s. af hlustendum, þá voru boðnir fram tveir listar. Það voru ekki listar stjórnmálaflokka að vísu, en hv. þm. gat þess að annar hefði í raun verið listi hægri manna og hinn listi vinstri manna. Það er ósköp hætt við því að þannig færi þetta enn í dag því að undir niðri erum við ákaflega pólitískir, íslendingar, og eigum áreiðanlega erfitt með að halda hlutum eins og í kosningu jafnvaldamikils og þýðingarmikils aðila eins og útvarpsráðs utan við alla pólitík. Ég held að það mundi ganga erfiðlega, jafnvel þó að við tækjum okkur nú til og leituðum eftir þeirri leið. Enda hefur niðurstaðan orðið sú og varð það fljótlega, eða strax 1939, að hallast að því formi að Alþ. kjósi útvarpsráð, og þá er það mín skoðun, eins og ég hef margoft tekið fram, að það sé eðlilegt að haga kosningu þannig að skipan ráðsins sé að jafnaði í sem mestu samræmi við skipan Alþingis.

Það er nefnilega engum blöðum um það að fletta að útvarpsráð er þýðingarmikil stofnun og þó nokkuð valdamikil. Það kom fram í byrjun þessarar umr. hjá hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, sem talaði mjög málefnalega um þetta mál, að hlutverk útvarpsráðs væri í rauninni ekki annað en að leggja meginlínurnar um dagskrárefni. En hlutverk útvarpsráðs er í reynd miklu viðtækara, og í því að velja dagskrárefni felst heilmikið vald í sjálfu sér, m.a. heilmikið fjármálalegt vald, að vísu innan tiltekins ramma. Útvarpsráð er einnig umsagnaraðili um ýmsar stöðuveitingar og hefur þannig sín áhrif, þannig að hvernig sem menn velta þessu fyrir sér, þá er þarna um heilmikinn og merkan aðila að ræða sem hefur mikil áhrif og — á þá stofnun sem hann stýrir, í raun eina af þýðingarmestu stofnunum þessarar þjóðar, bæði með þýðingarmestu menningarstofnunum og voldugasti fjölmiðillinn sem við ráðum yfir. M.a. með tilliti til þessa viðtæka starfssviðs útvarpsráðs hefur mönnum fyrir löngu þótt eðlilegt, að Alþ. kjósi þetta ráð. Og þá segi ég einfaldlega: Fyrst Alþ. kýs það þá er eðlilegt að skipan ráðsins sé jafnan í samræmi við skipan Alþ. á hverjum tíma.

Hv. 3. landsk. hafði séð eftir mig ummæli í Tímanum að það hafi verið fljótræðisverk þegar ákveðið var að breyta þeirri skipan, sem lengst hafði gilt, í það horf sem nú er. Ég man nú ekki hvort að ég kallaði þetta fljótræðisverk. En það, sem fyrst og fremst vakti fyrir mér, og það, sem ég vildi sagt hafa, var að ég álít að menn hafi ekki ráðið þarna viturlega, heldur hafi í raun réttri verið rangt að hverfa frá því skipulagi sem verið hafði og af þeim ástæðum sem ég hef þegar vikið að og skal ekki endurtaka.

Hvort sem menn kjósa útvarpsráð eftir kosningar ellegar menn kjósa það til vissra ára breytir það auðvitað í engu ákvæðum útvarpslaganna og skilningi okkar allra á þeim, þeim ákvæðum að útvarpið skuli ævinlega gæta fyllstu óhlutdrægni, sem hefur verið útlagt þannig, held ég mér sé óhætt að segja, að útvarpið skuli ekki láta sér neitt óviðkomandi. Þess vegna er ekki nefnt hlutleysi, heldur óhlutdrægni. En hins vegar skal það forðast að halla á nokkurn aðila. Það er og verður fyrsta boðorð og fyrsta skylda hvers þess manns, sem starfar við Ríkisútvarpið, að leitast við að gæta þess, og ég leyfi mér ekki að væna nokkurn um það að brjóta slíkt meginboðorð að yfirlögðu ráði. Hitt er svo annað mál, að menn auðvitað deila ævinlega um það, eins og hefur verið bent á hér í þessum umr., hvernig tekist hefur til um efnisvalið og þá m.a. um það hvort mönnum hafi tekist að sigla þarna milli skers og báru, hvort mönnum hafi tekist að gæta að því að þetta meginboðorð sé haldið. Þar breytir engu hvort kosið er í ráðið með þeim hætti, sem nú er, eða þeim hætti, sem hér er lagt til.

Ég vildi láta þessi atriði koma fram út af þeim orðum sem hér hafa fallið um þetta frv., en skal ekki annars fara út í frekari þrætur um það. Það hefur, eins og ég vék að áðan, mikið verið rætt um meðferð þessa máls og hvort eðlilegt sé að hraða því o.s.frv., bæði í blöðum og eins hér á hv. Alþ., bæði við meðferð málsins í Ed. og eins við 1. umr. hér í þessari hv. d. Út af meðferð málsins hér í d. núna fyrir jólin get ég sagt það, að ég að sjálfsögðu æski þess og vona að málið, eins einfalt og það er, fái fullnaðarafgreiðslu. Hins vegar hafa risið hér heilmiklar deilur um þetta mál þó að það sé að mínum dómi ákaflega einfalt, og vita allir að það styttist mjög til jóla og hér eru mörg þýðingarmikil mál sem bíða úrlausnar og þ. á m. sjálf fjárlögin. Ég lýsti í gær þeim vilja mínum hér í hv. d., lagði á það áherslu og ég get gert það nú aftur og hvenær sem er, að ég tel það mjög mikið atriði að gott samstarf ríki alla tíð með stjórnarliði og stjórnarandstöðu hverju sinni um störfin á Alþ. Það á að vera vel hægt ef menn vilja lúta eðlilegum reglum þingskapa og eðlilegum reglum og venjum í lýðræðisþjóðfélagi. Ég staðfesti þessi ummæli mín í gær með því að verða við tilmælum hv. 5. þm. Vestf. um að gefa honum tóm til að sinna sínum störfum í fjvn. og missa þó ekki af neinu hér í hv. d. Ég mæltist þá til þess við hæstv. forseta að hann frestaði umr. um málið á þeim fundi. Það eru nú sjálfsagt flestir sem reyna eftir föngum að forðast það að segja eitt í dag og annað á morgun, og ég hlýt þess vegna að hliðra mér hjá því að fara að gefa hv. þdm. nokkur fyrirmæli um meðferð þessa máls úr ræðustól, enda hef ég auðvitað, eins og öllum hv. þm. hlýtur að vera ljóst, ekkert vald til þess. Ég held að ég láti þá máli mínu lokið að þessu sinni. Þetta er aðeins 1. umr. hér í hv. Nd. og vafalaust er eftir að ræða þetta mál allítarlega við fleiri umr.