18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vílhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég verð alltaf dálítið undrandi að heyra tal hv. alþb.-manna um þetta mál, bæði í hv. Ed. og hér. Þeir setja á langar ræður um einhver ofstækisfull vinnubrögð í sambandi við þetta mál, þessa einföldu till. um breytta tilhögun á kosningafyrirkomulagi til útvarpsráðs. Nú hef ég getið þess hér og því hefur ekki verið mótmælt, enda vita vafalaust allir hv. þm. að það er alveg rétt, að það hefur oftlega átt sér stað að menn hafa breytt fyrirkomulagi á kosningum í n., sem Alþ. kýs, og þá með þeim afleiðingum eða með því ákvæði að ný n. eða ný stjórn sé kosin þegar eftir lagabreyt., án tillits til þess hvort kjörtímabilið er raunverulega útrunnið eða ekki. Þetta er þess vegna ekkert nýtt. Það er ekki verið að gefa hér neitt nýtt fordæmi. Þetta eru hlutir sem oftlega hafa átt sér stað hér á hv. Alþ. og að ég hygg án þess að menn hafi brugðist við á þennan hátt.

Ég vísa einnig algerlega á bug öllum aðdróttunum um að hér eigi að fara að taka upp einhverja ritskoðun. Það er einkennilegt að þetta skuli heyrast frá hv. alþb.-mönnum. Einhver ástæða er fyrir þessu samt, og hún hlýtur að vera sú að þarna séu á bak við í hugskotinu einhverjar leifar af illgresi frá eldri tímum. Við þekkjum það, sem höfum fengist við illgresi í akri, að það er mjög erfitt að uppræta það að fullu. Þetta getur ekki verið sprottið af öðrum ástæðum, þetta tal hv. 3. þm. Reykv. hér og flokksbræðra hans í hv. Ed. svona í svipaða stefnu. Það getur ekki verið sprottið af öðru en því að það er enn þá eftir að uppræta eitthvað af óheppilegum gróðri fyrri tíma í þeirra hugskoti.

Hv. þm. fjölyrti nokkuð um þau skoðanaskipti sem orðið hefðu t.d. hjá mér frá því að þetta mál var til meðferðar hér 1971. Það er alveg satt hjá hv. þm., að ég greiddi þá atkv. með málinu í heild og þ. á m. þessu ákvæði. Hann spyr hvað gerst hafi síðan. Ég hef íhugað málið og endurskoðað mína afstöðu — það gera menn oft og iðulega og ég tel mér ekki neina minnkun að því — og komist að þeirri niðurstöðu sem felst í þessu frv. og ég var að gera nokkra grein fyrir áðan og ætla ekki að fara að endurtaka hér.

Já, það er dálítið sérkennilegt, það er satt, að 1971 virtist enginn ágreiningur vera um það að prófa nú þessa nýju tilhögum. En hitt er ekki síður eftirtektarvert og ástæða til að rifja það upp, að þegar breytt var um 1943 og upp tekin sú tilhögun sem afnumin var 1971, þá var mjög lítill ágreiningur um það líka, og ágreiningurinn var ekki meiri en svo að það voru aðeins fluttar tvær ræður um málið, sín í hvorri deild, og þar með búið — örstuttar ræður þar sem mælt var með því að breyta til á þann hátt sem gilti allt til 1971. En það voru að vísu einhver mótatkvæði, ég man nú ekki hvað þau voru mörg, en það voru engar deilur um þetta. Það er ekki alveg nýtt að menn taki því ósköp rólega hér á Alþ. þegar stungið hefur verið upp á að breyta tilhögun kosninga í útvarpsráð. En hvernig stendur á þessum ókyrrleika nú, það skal ég ekki segja um.

Ég kvaddi mér nú fyrst og fremst hljóðs til þess að mótmæla því algjörlega að í Ed. hafi átt sér stað óeðlileg meðferð á þessu máli. Það eru sum mál þannig vaxin að það er engin ástæða til þess og enda er það ekki nándar nærri alltaf gert að leita umsagna um þau utan Alþ. Það eru ýmis mál þannig vaxin, og þetta er einmitt slíkt atriði að mínum dómi, að það er eðlilegt að Alþ. sjálft fjalli um það og úrskurði án þess að leita umsagna annarra. Hver á að dæma um það frekar en Alþ. sjálft hvort það óskar að kjósa eina n., hvort sem það er þessi n. eða önnur, með þessu móti eða hinu? Nei, ég verð að segja að mér finnst þetta mál einmitt þannig vaxið að það sé ekki ástæða til þess fyrir hv. alþm. og Alþ. í heild að leita ráða hjá öðrum aðilum um afgreiðslu þess. Og ég endurtek það að ég mótmæli því algjörlega að þetta mál hafi verið flutt hér eða meðhöndlað á óþinglegan hátt.