18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

84. mál, útvarpslög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Það mun nú alldregið af þingheimi, svo áliðið sem orðið er, enda skal ég ekki halda þessum umr. áfram lengi. Það vill svo til að tveir ræðumanna hér, hv. 11. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., hafa sagt að meginefni það sem ég vildi sagt hafa, þannig að ég get orðið stuttorð hér. Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu, hvers vegna ég styð umrætt lagafrv.

Mér er óskiljanleg sú mótsögn sem kemur fram í málflutningi andófsmanna þessa frv. sem vilja að útvarpsráð sé kjörið af Alþ., en telja það óhæfu að ráðið sé kjörið að nýju þegar nýtt Alþ. kemur saman og ný ríkisstj. tekur við völdum. Þetta er einkennileg mótsögn úr því að við á annað borð höfum meðtekið þessa skipan. Þar fyrir vil ég lýsa yfir að ég er ekki ánægð með hana. Ég vildi miklu fremur að útvarpsráð væri kjörið algerlega ópólitískt, til þess væru kjörnir menn með alhliða menningarlegan áhuga, frjálslyndi og viðsýni, góða menntun og góðan vilja til þess að reynast dyggir og trúir í starfi. Þegar ég segi: góða menntun, þá á ég ekki endilega við doktora og prófessora, eftir þeim skilningi sem ég legg í orðið menntun, heldur einfaldlega sannmenntaða menn sem láta hlutverk sitt ekki mótast af pólitískum skoðunum umfram það hlutverk sem útvarpsráð hlýtur að vera ætlað í hverju menningarþjóðfélagi, að upplýsa, fræða, mennta og skemmta fólki en troða ekki á framfæri einhverri ákveðinni pólitískri kennisetningu eða kreddu.

Það hefur verið sagt hér að útvarpslögunum hafi verið breytt 1971 til að stefna í þessa átt. Það var vissulega viðleitni í rétta átt að gera það óháðara, frjálslyndara og óbundnara pólitískum valdahlutföllum á Alþ. eða í þjóðfélaginu yfirleitt. Hafi þessi tilraun verið vel meint, þá hljótum við að viðurkenna, því miður, að hún hefur mistekist. Þess vegna er þetta lagafrv. komið fram á Alþ., vegna þess að meiri hl. Alþ. og þjóðinni allri finnst að þessi skipan útvarpsráðs, eins og hún hefur verið undanfarin 3 ár, hafi ekki gefist nógu vel, að meiri hl., sem þarna komst til áhrifa, hafi brugðist þeim trúnaði sem þeim bar að halda sem kjörnir fulltrúar í útvarpsráði.

Það er einlæg sannfæring mín að útvarpið sem stofnun megi ekki og eigi ekki að vera vettvangur pólitískra áróðursafla. Það má ekki vera áróðurstæki eins eða neins stjórnmálaflokks, hvorki svokallaðra hægri afla né þeirra vinstri. Ég verð að segja að ég hef því miður orðið að fallast á það sjónarmið að það hafi ekki verið gætt þess jafnvægis og þeirrar óhlutdrægni sem á að stjórna störfum útvarpsráðs. Maður hefur æ ofan í æ orðið var og óþægilega var við hið gagnstæða.

Ég vil leiða hjá mér að tala um 1. des, hátíðadagskrá íslenskra stúdenta. Ég held að það sé rétt, að það er varla hægt að ásaka útvarpsráð um það, eigi þessi hefð að haldast, að gefa stúdentum orðið á þessum fullveldísdegi þjóðarinnar. Ég vil aðeins segja það, að mikið hefur íslenska stúdenta sett niður frá því sem áður var, þegar íslensk þjóðrækni og þjóðerni var meginstoðin í málflutningi þeirra öllum, hvar sem var og hvenær sem var. En þegar svo er komið að íslenskir menntamenn taka baráttusöng sósíalista, Internasjonalinn, fram yfir íslenska þjóðsönginn, þá tel ég að þeir megi tala ofurlítið lægra um þjóðlega reisn og um íslenskt þjóðerni með minni fjálgilegheitum.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta, eins og ég lofaði í upphafi, en segja örfá orð vegna þess sem fram kom hjá hv. 8. landsk. um öll ráðin og n. Ég skal ekki fara út í það hér að vega og meta hvort við eigum að hafa sama hátt á. En mér sýnist óendanlega miklu stærra mál hvort útvarpsráð er skipað viðsýnum, frjálslyndum og samviskusömum mönnum en jafnvel þó að það væri bankaráð, stjórn Kísiliðju eða Sementsverksmiðju. Ég held að það sé augljóst mál, að að því er varðar mótun útvarpsins sem voldugs fjölmiðils á allt okkar þjóðlíf og skoðanir, þá er þetta ekki sambærilegt. Annað mál er, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson tók fram, að hitt kemur vel til álita. Ég er ekki reiðubúin að láta álit mitt í ljós um það. En hitt er víst, og ég vil endurtaka það, að vilji til breyt. núna er til kominn vegna þess að alþjóð hefur blöskrað hvernig útvarpið hefur verið notað í þágu pólitísks valdatafls allt niður í það að reyna að nota það til þess að innræta óþroskuðum börnum vissar pólitískar skoðanir. Þá tel ég, að við séum komin nálægt hættulegri pólitískri spillingu, þegar ríkisútvarp er orðið að innrætingartæki ákveðinna pólitískra skoðana.

Þegar stjórnarandstæðingum nú blöskrar ofstæki og öfgar, þá er það aðeins að gerast að þeir hitta sjálfa sig fyrir. Það er vegna þess að þetta frv. er hér fram borið. Við skulum tala alveg tæpitungulaust um það, vegna þess að það er að gefnu tilefni. Núv. meiri hl. útvarpsráðs hefur brugðist trausti almennings. Og ég vil vona að útvarpsráð verði um ókomin ár betur skipað verði það af pólitísku flokkunum gert, þá beri þeir gæfu til að velja til þess starfa menn sem þeir treysta í menningarlegu tilliti umfram pólitískan áróðursmátt. Og ég lýsi því yfir að ég greiði þessu lagafrv. atkv. mitt vegna þess að ég vil að í útvarpsráði gæti meira frjálslyndis og víðsýni en gert hefur á s.l. 3 ára tímabili. Ég vil í einlægni vona að næstkjörið útvarpsráð láti víti þess, sem nú hverfur senn af starfssviðinu, sér að varnaði verða.