18.12.1974
Neðri deild: 28. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

84. mál, útvarpslög

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var tekið á dagskrá hér í gær, seinni hlutann í gærdag, gerði ég aths. og mótmælti þeim vinnubrögðum sem þá var gert ráð fyrir að viðhafa. Hæstv. menntmrh. tók það til greina og mér finnst þess vegna sjálfsagt að sýna þá tillitsemi hæstv. forseta og öðrum að vera stuttorður, og mér finnst það vel til fallið að ég ljúki þá þessari 1. umr. Ég geri ráð fyrir að það séu ekki margir sem eiga eftir að tala, þó að vel megi vera að hæstv. menntmrh. sjái ástæðu til þess að koma upp hér á eftir.

Ég skal segja það strax að ég ætla ekki að fella dóm, hvorki yfir því útvarpsráði, sem nú er, né öðrum þeim útvarpsráðum sem verið hafa. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um starfsemi þessara aðila. Ég ætla aðeins að lýsa skoðunum mínum gagnvart því, sem hér er á ferðinni, og því sem ég tel að geti verið hættulegt fordæmi fyrir þá sem á eftir koma.

Ég vil segja það strax að ég hugsa að ég hefði getað trúað flestum, ef ekki öllum, fremur en núv. hæstv. menntmrh. til þess að vera slíkur baráttumaður fyrir þessu frv. eins og hann virðist vera. Ég vil byrja á því — ég vænti að hæstv. menntmrh. heyri það — að spyrja hann sömu spurninga og hann var spurður í hv. Ed. í gær: Telur hæstv. menntmrh að slíkt frv. hefði verið lagt fram hér á Alþ. ef vinstri stjórn hefði verið mynduð að loknum síðustu kosningum? Nú virðist hæstv. menntmrh. vera búinn að fá þann umhugsunarfrest sem hann taldi sig ekki hafa haft í gær þegar hann var að þessu spurður, taldi sig þá ekki geta svarað. Hann sagði í ræðu í kvöld að hann teldi að þessu væri ómögulegt að svara. Nú svarar hann því til að hann teldi það mjög líklegt. (Menntmrh.: En ég veit ekkert um það samt.) Nú, þá er dregið í land aftur.

En hvað sem um það er, þá sagði hæstv. menntmrh. áðan að hann hefði skipt um skoðun frá 1971 þegar hann stóð að því að samþ. núgildandi lög að því er varðar útvarpsráð. Ekki færði hæstv. ráðh. nein rök fyrir því, hver væri orsökin að þeim skoðanaskiptum sem hann hafði haft í þessu máli. Vel má vera að hann eigi það eftir, ég bíð þess að heyra ef það kemur fram.

Mér hefur komið það í hug núna hinar síðustu vikur og daga að hæstv. menntmrh. væri svo sannarlega búinn að setja í gang hreinsunardeildina, eins og menn kalla það, því að fátt hefur verið um meina rætt en það, sem gerst hefur í hans rn. að undanförnu, og í áframhaldi af því það frv. sem hér er nú til umr. Ég ætla ekki að ræða það mál sérstaklega, tel ekki ástæðu til þess, en mér kom þetta í hug þegar þetta frv. var lagt fram, vegna þess að ég tel að þetta frv. sé fyrst og fremst flutt til þess að losa sig við þá einstaklinga í útvarpsráði sem nú eru, að því er sumum virðist í stjórnarherbúðunum, þyrnir í augum manna.

Mér finnst það ákaflega hæpið að taka upp þá reglu aftur, sem horfið var frá fyrir 3 árum, að það skuli í hvert skipti sem alþingiskosningar hafa farið fram kjósa nýtt útvarpsráð. Og mér finnst að þetta geti átt við um miklu fleiri stjórnir og ráð stofnana en útvarpsráð, að það sé afar hæpið að taka upp algilda reglu um að það skuli í hvert skipti að afloknum kosningum kjósa nýjar stjórnir og ný ráð. Ég a.m.k. vil ekki líta á allt slíkt með pólitískum augum. Og ég get tekið undir það sem kom fram áðan hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég mundi miklum mun frekar fella mig við það, ef hægt væri að finna eitthvert form á því til dæmis í sambandi við kosningu á útvarpsráði að það væri reynt að draga úr pólitískum áhrifum sem þar eðlilega verða meðan kosningafyrirkomulag til þess er eins og það er í dag. Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef látið það koma fram, að mér finnst að það sé full ástæða til þess að reynt sé að draga úr pólitísku áhrifavaldi innan stofnana, þannig að ég tel ekki eðlilegt að útvarpsráð sýni endilega styrkleikahlutföll þess meiri hl. sem er hverju sinni á Alþ.

Ég hygg að hv. þm. fari ekki í grafgötur með það, af því sem nú þegar hefur verið sagt, að ég er andvígur þessu frv. sem hér liggur fyrir. Ég tel að ekki hafi verið færð nein það haldgóð rök fyrir því að æskilegt sé að hverfa aftur til þess sem var, að það hafi sannfært mig um að réttlátt sé að breyta nú til. En það eru ekki bara stjórnarandstæðingar hér á Alþingi sem eru þessarar skoðunar, eins og ég hef nú verið að lýsa. Mér fannst bæði ræða hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar og hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur vera að verulegu leyti hnútukast í hv. 3. þm. Vestf., hæstv. forseta Ed., því að hann virðist hafa nákvæmlega sömu skoðun og hér hefur komið fram hjá mörgum ræðumanna í kvöld. Hann er ekki sannfærður um að það sé æskilegt að breyta þessu nú. Hann telur að það hafi ekki neitt komið fram, bersýnilega á þeim 3 árum, sem liðin eru frá því að breytingin var gerð, sem gerir það eðlilegt að breyta til þess sem áður var. Þannig eru a.m.k. til þau sjónarmið innan stjórnmálaflokkanna og sjálfsagt hjá fleirum, sennilega mörgum fleirum en hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, sem falla nokkuð saman við þau viðhorf sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram.

Mér finnst það heldur stór orð, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson viðhafði hér áðan, þegar hann fullyrti að það hefði verið traðkað á siðgæðisvitund almennings í landinu, það hafi verið traðkað á hinu borgaralega siðgæði af núv. útvarpsráði eða meiri hl. þess. A.m.k. treysti ég mér ekki til þess að taka mér í munn svo stór orð, hvorki um núv. útvarpsráð né fyrrv. útvarpsráð. Ég er því ekki hér, eins og ég gat um í upphafi, að dæma núv. eða fyrrv. útvarpsráðsmenn. Ég held að stóryrði í þessum efnum þjóni engum tilgangi. Menn eiga að geta rætt þetta á málefnalegum grundvelli og gert grein fyrir skoðunum sínum.

Ég vil taka það alveg skýrt fram, af því að það hefur verið nokkuð rætt hér um það sem gerðist 1. des. s.l., að það er langt frá því, að ég hafi verið ánægður með það sem þar kom fram. Ég tek undir það, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að mér finnst að íslenska stúdenta setji niður við slíka meðferð mála. En ég vil ekki og tel ekki að það sé með neinum hætti hægt að ásaka núv. útvarpsráð fyrir þetta. Hér er um að ræða aðila innan Háskóla Íslands sem hlýtur að bera ábyrgð á því sem þarna fór fram. Ég held að það sé með engum hætti hægt að draga núv. útvarpsráð fram sem sökudólg í þeim efnum sem þarna er um að ræða. Þar eru aðrir aðilar sem hljóta að svara fyrir.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson spurði hvort það hafi virkilega verið tilgangur þeirra sem stóðu að þessari breyt. 1971 að þessir aðilar fengju alræðisvald í 4 ár? Auðvitað hlýtur það að hafa verið tilgangur þeirra manna, sem breyttu þessum lögum á þann hátt að útvarpsráð yrði kosið til 4 ára, að sú kosning gilti þann tíma. Ég held að það hljóti að hafa verið. Og mér fyrir mitt leyti finnst það ekki óeðlilegt í starfi sem þessu, sem ég a.m.k. held að sé ærið starf og taki nokkurn tíma að komast inn í og sinna þannig að vel sé, og það sé ekki æskilegt að vera með tíðar breyt. í mannavali í sambandi við svona starfsemi. Það gætu komið upp þau tilfelli, hafa komið upp og geta það enn, ef menn vilja endilega miða þetta víð kosningar. Kosningar geta verið tíðar og því a.m.k. spurning hvort það sé stigið inn á rétta braut að breyta því, sem hér um ræðir, til þess sem áður var og miða þá endilega við kosningar til Alþ.

Eins og ég sagði áðan, ég skal ekki vera langorður. Ég vona að ég hafi ekki orðið til þess að hv. þm., sem var að biðja um orðið, hafi talið sig knúinn til þess. En hvað um það, ég vil að síðustu segja það sem mína skoðun, eftir það sem hæstv. menntmrh. sagði hér í kvöld, að ég lít svo á eftir þau ummæli sem hann viðhafði, að hann ætli sér ekki að keyra þetta mál í gegnum hv. deild á þeim stutta tíma sem eftir er þar til þm. fara í jólaleyfi. Ég lít svo á, ef hann kemur ekki fram með neina aths. við það, að þá sé það hans ætlan að málið fari til n. en komi síðan til afgreiðslu eftir að þing kemur saman á ný að jólaleyfi loknu.