12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

297. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að það hefur þegar verið lagt hér fram frv. um heimild til þess að ráðast í Bessastaðaárvirkjun í Fljótsdal, en eins og öllum hv. alþm. er kunnugt eru mörg dæmi um það að flutt er frv. sem aðeins felur í sér heimild til þess að ráðast í tiltekna virkjun, en það getur dregist úr hófi að taka síðan ákvörðun um það, hvort eigi að nota heimildina og ráðast í virkjunina. Nú vildi ég spyrja hæstv. iðnrh. hvort ríkisstj. hafi nú þegar tekið ákvörðun um að ráðast í þessa virkjun, hina formlegu ákvörðun um það og hafi það ekki þegar verið gert hvort hann geti gefið hér upplýsingar um það hvenær megi búast við því að ríkisstj. taki formlega ákvörðun um hvort í virkjunina verður ráðist eða ekki. Þetta er það sem skiptir mestu máli. Ég vil ætla að framlagning þessa frv. þýði það að alveg innan skamms verði þessi formlega ákvörðun tekin. Það verður svo að sjálfsögðu að ráðast hversu tekst að þoka mannvirkinu áfram og hvenær verður hægt að koma því í gagnið. En að sjálfsögðu tek ég undir það að mikil þörf er á því að það verði gert sem allra fyrst. Ég vil fara fram á það að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum mínum.