17.12.1975
Efri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala í þessu máli, en hv. 5. þm. Norðurl. v. gaf mér tilefni til þess að koma hér upp í stólinn vegna orða hans um vinnubrögð ríkisstj. í þessu máli. Þó að ég ætli ekki að fara að verja þau í öðrum málum, þá ætla ég þó að gera það í þessu. Við vorum sammála um það, hv. 5. þm. Norðurl. v. og ég, strax á fyrsta fundi fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., þegar þetta mál kom fyrst fram í öðru formi en nú er lagt hér til, að það væri slæm ráðstöfun að skylda menn til þess að kaupa þessa mæla í bílana sem væru dýrir og kölluðu á mikið eftirlit og svo viðgerðir og áframhaldandi kostnað við endurnýjun og fleira. Okkur kom saman um að það væri réttast að setja fast gjald á eins og nú er komið hér í frv.- formi, þannig að ég held að það, sem við lögðum til báðir tveir, liggi nú fyrir, og n. varð sammála um að beita sér fyrir því. Ég hef ekki heyrt áður á neinum nefndarfundanna, sem við höfum haldið um þetta mál, og þeir voru 3, ef ekki 4, þá hugmynd hv. þm., sem hann var hér með, að bæta 16 kr. gjaldi á lítrann af olíu og skapa þar með enn þá meiri mun á húshitunarolíu eða bátaolíu og dísilolíu til bifreiðanotkunar, sem náttúrlega gefur, eins og hann segir sjálfur, miklu meiri möguleika á því að fara kringum lögin. Ég lái ekki nokkrum manni að hann vilji kaupa olíu á 6 kr. og eitthvað lítrann ef hann sér að hann getur komist hjá að borga meira verð fyrir hann. (RA: Hann getur það í dag.) Hann getur það í dag, já, en nú eykur það vilja manna til þess að fara kringum lögin ef olíuverð til dísilbílanotkunar er hækkað, og ég lái þeim ekkert þó að þeir geri það, ef olía er á annað borð til á 6 kr. lítrinn, að kaupa hana og nota hana á þann hátt sem þeir þurfa á henni að halda. Það kemur mér ekkert á óvart.

Hitt er annað mál, og það er mergur máls míns, og ég ætla að leiðrétta það, að ég hef ekki orðið var við það hjá hv. þm. að vinnubrögðin hafi verið slæleg eða röng í sambandi við það að breyta eða falla frá mælunum í bílana og í það form sem nú er mælt með, því að það var ósk okkar beggja. Aftur á móti lýsi ég mig fyrir fram mótfallinn þeirri hugmynd sem hann kom með hér um 16 kr. viðbótargjald á olíulítrann til aksturs. Ég held að það bjóði þeirri hættu, sem hann er að vara víð, enn þá meira heim en nú virðist vera.

Í þessu frv., eins og það liggur fyrir, höfum við ekki verið alveg sammála um gjaldið, þ. e. a. s. 70 þús. kr. viðmiðunargjald. Ég hefði líka viljað eins og hv. þm. Ragnar Arnalds hafa það lægra, en mér fannst þetta vera skref í alveg rétta átt sem n. hefur tekið þarna og þegar hún féll frá mælunum í bifreiðunum og festi sig við ákveðið gjald. Ég vildi heldur styðja þá stefnu, sem var mörkuð þarna af formanni n. og fleirum, heldur en að láta verða ágreiningsatriði sjálft gjaldið, sem er þó sanngjarnt eftir því sem ég hef komist næst í samtölum mínum við atvinnubifreiðastjóra, formann félags þeirra.

Ég sem sagt lýsi mig samþykkan þessu frv. sem ég er meðflm. að, en gegn þeirri hugmynd sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Norðurl. v.