17.12.1975
Neðri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Áður en þetta mál er afgr. frá d. tel ég mig knúinn til að vekja athygli hv. þm. á merkilegri samsvörun, talnasamsvörun, sem kemur í ljós á tölum sem taldar eru upp í nál, með þessu frv., nál. á þskj. 184, og tölum sem fram koma í nýsamþykktri brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1976. Hér er verið að fjalla um heimild fyrir ríkisstj. til að lækka lögbundin framlög á fjárl., ekki aðeins ársins 1976, heldur líka 1977, um allt að 5%, og í nál. á þskj. 184 er rakið hverjar þessar lækkanir geti orðið á einstökum fjárlagaliðum. Þar kemur m. a. fram, að lækkun á fjárveitingu til Iðnlánasjóðs gæti orðið 2 millj. 500 þús. og Iðnrekstrarsjóði sama upphæð hálf þriðja millj. En á þskj. 169, brtt. fjvn. við frv. til fjárl. fyrir árið 1976, eru í till. 54 lögð til hækkun á framlögum til lánasjóða iðnaðarins. Það eru einmitt þessir sömu sjóðir sem hugsanlegt er talið að skera niður og unnt ætti að vera eftir þessum frumvarpsákvæðum að skera niður um 2.5 millj. hvorn. Í brtt. við fjárlagafrv., till. 50, er hins vegar gert ráð fyrir að hækka framlög ríkissjóðs einmitt til þessara tveggja lánasjóða iðnaðarins, Iðnlánasjóðs og Iðnrekstrarsjóðs — að hækka framlagið til hvors úr 47.5 millj. í 50 millj. Þarna er sem sagt verið að hækka framlögin til þessara tveggja sjóða um nákvæmlega sömu krónutölu og gert var ráð fyrir að skera þau niður. Mér finnst þetta mjög merkilegt fyrirbæri, að á sama fundi og samþ. er hér með öllum greiddum atkv. að hækka framlög ríkissjóðs til þessara tveggja lánasjóða iðnaðarins um 2.5 millj. er verið að samþykkja með atkv. stjórnarliðsins heimild til þess að skera þessa sjóði niður um nákvæmlega sömu krónutölu og verið er að hækka þá.

Þetta gefur tilefni til nokkurra spurninga. Er það kannske svo, að þeir fjárlagaliðir, sem gert er ráð fyrir að skera niður, hafi almennt innifaldar fjárhæðir fyrir niðurskurðinn? Er þarna hæstv. iðnrh., sem ég geri ráð fyrir að hafi beitt sér fyrir þessum hækkunum til lánasjóða iðnaðarins, — er hann, sem var hér fjarverandi alllengi meðan verið var að undirbúa fjárlög, að færa þessa fjárlagaliði síns rn. til samræmis við það sem aðrir ráðh. hafa kannske gert áður, eða eru þetta alveg sérstök klókindi hæstv. iðnrh., að taka þessa tvo sjóði út úr til þess að þar sé gert ráð fyrir hugsanlegum niðurskurði frá öndverðu, svo að þeir standi jafnréttir eftir þótt niðurskurðurinn eigi sér stað? Hvort heldur sem er, þá hlýt ég að draga þá ályktun af þessari málsmeðferð að hér sé um að ræða sýndarmennsku, og reyndar tel ég að ýmsir þeir liðir, sem upp eru taldir á þskj. 184, beri það með sér að þessi lækkunarheimild sé fyrst og fremst sett fram til þess að sýnast, að sýna á pappírnum lit á sparnaði og aðhaldi, en framkvæmdin verði eitthvað eftir því sem gefið er til kynna með því að heimila á sama fundi hækkun á fjárlagalið og niðurskurð á honum aftur um nákvæmlega sömu krónutölu.