17.12.1975
Neðri deild: 33. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Varðandi fyrirspurn hv. 3. landsk. þm. um það hvort tölur fjárlagafrv. hefðu innifalinn niðurskurð á 5%, þá er ályktun hans rétt.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d. gerði ég grein fyrir því að ákveðnir liðir, þar sem um væri að ræða lögbundin framlög, hefðu verið færðir niður sem næmi 5%, í frv. væri einungis verið að óska eftir heimild til þess að tiltekin framlög á fjárl. lækkuðu um 5%. En ég vék að því, að það væri að sjálfsögðu fjárveitingarvaldsins: fjvn. og síðan Alþ., að taka ákvörðun um hvort þessi heimild, sem sótt er eftir með þessum lögum, væri notuð eða ekki. Hér hefur það einmitt skeð, að fjvn. hefur talið eðlilegra að láta þennan 5% niðurskurð ekki koma á þessa tvo liði. Hins vegar vil ég svo vekja athygli þm. á því, að hér er óskað heimildar ekki aðeins vegna fjárlaga 1976, heldur og fjárlaga 1977, þannig að það, sem hér hefur gerst í dag í sambandi við 2. umr. fjárl. og atkvgr. þar og þegar við ræðum þetta frv., er að mínum dómi ekkert sem stangast á, heldur nákvæmlega það sem ég gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls. Hér er verið að afla heimildar til þess að færa niður lögboðin útgjöld, en það hlýtur og það verður alltaf Alþ. sjálft sem metur það, hvort til þeirrar niðurfærslu kemur, bæði fyrir fjárlög ársins 1976 og 1977.