17.12.1975
Neðri deild: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

94. mál, bátaábyrgðarfélög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Virðulegi forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um bátaábyrgðarfélög er samið af n, sem ég skipaði 12. nóv. á s. l. ári að ósk Landsambands ísl. útvegsmanna og stjórnar og fulltrúafundar Samábyrgðar Íslands. Þessir aðilar tilnefndu sinn hvorn manninn í n. og sjútvrn. þann þriðja, og er frv. þetta, sem hér liggur fyrir, samhljóða álit þessarar n. Hér er ekki um viðamiklar breyt. að ræða á frv. um bátaábyrgðarfélög. Það er til samræmingar við lög um vátryggingarstarfsemi. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla ítarlega um þær breyt. því að aths. með frv. skýra það mjög vel. En ég vil taka það fram að um nokkur lagaleg atriði var leitað umsagnar Sveinbjarnar Jónssonar hrl., sem er lögfræðingur Samábyrgðar Íslands, og sömuleiðis lét Tryggingaeftirlitið n. í té athugasemdir við núverandi lög og reglugerðir. Hér er einnig um nokkrar breyt. að ræða þar sem hefur komið í ljós að agnúar eru á gildandi lögum. En það sem mest liggur á að gera, er að gefa út nýja reglugerð, bæði á grundvelli gildandi laga og eins til samræmingar þessu frv. ef að lögum verður. Þegar frv. var til meðferðar í nefnd í Ed. komu á fund n. þeir sem stóðu að þessu nál., a. m. k. tveir af þeim, til þess að gefa frekari skýringar. Að þeim fengnum var heilbr.- og trn. Ed. sammála um afgreiðslu málsins. Ef sú n., sem fær málið til afgreiðslu hér, óskar að fá aftur þessa menn á fund, þá er það auðvitað til reiðu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umr.