22.10.1975
Efri deild: 8. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

16. mál, heilbrigðisþjónusta á Vestfjörðum

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :

Herra forseti. Það stóð ekki til að leggja þetta hér inn án þess að eyða í það tíma að verja það. Ég vil byrja á því að fullyrðing mín, að ég mælist undan því að þessi löggjöf verði látin varða veginn dauðsföllum, er ekki sögð út í bláinn. En ég hefði óskað að þurfa ekki að ganga svo langt að gefa upp öll nöfn, stund og stað.

Þá er það ályktunin frá Klúku. Sem formanni Fjórðungssambands vestfirðinga er mér að sjálfsögðu vel ljóst hvað samþ. var á Klúku. Það er ekkert launungarmál að við þar vestra teljum sjálfsagt að þakka það sem vel er gert, og við færðum þakkir fyrir það sem verið væri að gera. En í þeirri ályktun er nánast orðrétt það sem ég var að leggja hér til, og það hefði einnig mátt koma fram.

Einnig kom það fram að varamaður Steingríms Hermannssonar hefði lagt til að það væri enginn læknir á Bíldudal, en núv. forseti þessarar d. aftur á móti verið þeirrar skoðunar að þar ætti að vera læknir. Ég vil segja það alveg skýrt að ég styð þá skoðun núv. forseta þessarar d.

Ég styð þá skoðun og ég tel að hann hafi hvað það snertir haft rétt fyrir sér, en hinn rangt. Það er kannske líka rétt að við hugleiðum annan þátt þessara mála sem tilheyrir stéttarfélögunum og er miklu alvarlegri. Það færist því miður í vöxt hér á landi að stéttarfélögin reisi um sína stétt menntamúr til að meina eðlilega fjölgun innan stéttarinnar. Þessi múr er ef til vill hættulegri en nokkur annar sem reistur verður, ef baráttan fyrir kaupi og kjörum er orðin slík að menn telja vænlegast til að ná árangri að koma í veg fyrir að það fjölgi í stéttinni, stuðla þannig að því að eftirspurnin verði nægilega mikil og kaupið nógu hátt. Því miður eru þær þó nokkrar, stéttirnar á Íslandi sem eru ekki saklausar af þessum hugsunarbætti í dag.

En við skulum ræða þessi mál af raunsæi. Það kom fram sú hugmynd að yfir vetrarmánuðina ætti læknirinn að búa á þessum stöðum, en yfir sumarmánuðina ætti hann aftur á móti að vera í heilsugæslustöðinni. Hvaða mann haldið þið, herrar mínir, að þið fáið til að flytja búferlum tvisvar á ári? Hvaða mann haldið þið að þið fáið til þess — ekki nokkurn mann að flytja alla sína búslóð tvisvar á ári á milli? Þetta eru ekki sniglar. Þetta eru menn sem vilja hafa heimili þar sem þeir eru. En ef er fært á milli, þá er ekkert því til fyrirstöðu að yfir sumartímann stundi hann vinnuna á hinum staðnum. Þarna er í sumum tilfellum stutt á milli. Varðandi mína heimabyggð, þá er það þannig að yfir sumartímann gæti hann á hálftíma skotist til heilsugæslustöðvarinnar til starfa þar. En þegar lokast viljum við hafa hann okkar megin við fjallið. Hann yrði að eyða þar mun meira en helmingi af þeirri starfsskyldu sem honum er ætluð. Hvers vegna á að staðsetja manninn þannig að hann þurfi alltaf fyrst að fara í ferðalag áður en hann þarf að fara að vinna? Er það ekki sóun á hans starfslífi?

Ég held að það þurfi að athuga þessi lög. Ég tek undir það að margt í þeim er til bóta. En það þýðir ekki að ætla að segja okkur, sem töpuðum þeirri aðstöðu sem við höfðum og erum mun verr settir, en við vorum, — það þýðir ekki að ætla að halda því fram að ástandið sé gott og það sé betra en það var. Ég er ekki viss um, að önfirðingar eða dýrfirðingar hefðu verið hrifnir hefðu þeir tapað sínum heilsugæslustöðvum, tapað sínum læknum til Ísafjarðar, eins og ætlað var í upphafi. Ég er ekki viss um að þeir hefðu verið hrifnir, jafnvel þó að læknar hefðu verið hafðir þar þrír eða fjórir, vegna þess að samgöngurnar eru nú einu sinni þannig yfir vetrartímann að hvorki flugvélar né annað kemur til greina þegar veður eru hvað verst. Það er kannske sláandi dæmi um þessar samgöngur, það er kannske meira sláandi en allt annað, að þegar núv. heilbrigðisrh. var að stinga fyrstu skóflustunguna fyrir miklum byggingarframkvæmdum á Ísafirði, þá voru fluttar þakkarræður margar. Honum var ekki aðeins þakkað fyrir þessa byggingu sem þarna átti að fara að rísa, honum var þakkað alveg sérstaklega fyrir að einn af læknum heilsugæslustöðvarinnar byggi úti í Hnífsdal. Hnífsdalur er rétt fyrir utan Ísafjörð. Þeir töldu það stórkostlegt atriði fyrir sig að hafa fengið manninn. En þetta er sami maðurinn og er að þjóna okkur súgfirðingum. Og ef þeir í Hnífsdal hafa talið rétt að færa þakkir fyrir þetta, þá skyldi engan undra þó að það væri lítil kátína hinum megin við fjallið.

Ég vil skora á menn, áður en þeir taka afstöðu til þessa máls, að gera sér það ómak að kynna sér landafræðina af Vestfjörðum, vegalengdir hæð fjallvega og þann tíma sem þeir eru lokaðir. Í ljósi þess er hægt að taka skynsamlega ákvörðun. En ef það er látið ógert, þá er það vonlaust. — Svo þakka ég fyrir og óska þess, að þessi tillaga verði lögð inn til heilbr.- og trn. Ed.