22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er eiga námsmenn tvo fulltrúa í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þessir tveir fulltrúar námsmanna í stjórninni komu að máli við mig í gær og báðu mig um að skýra frá málstað þeirra, skýra frá þeim rökum sem til þess lægju að námsmenn telja þá stefnu, sem fylgt er af hálfu núv. ríkisstj. í málefnum þeirra, vera algjörlega ófullnægjandi, og leiðrétta gagnvart hv. alþm. upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum af hálfu opinberra aðila og gefa ekki rétta mynd af því vandamáli sem hér er um að ræða. Verð ég með ánægju við þessum tilmælum.

Þeir kváðu ástæðu þess, að þeir sneru sér til mín að koma þessum leiðréttingum eða rökum á framfæri, vera þá að gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna voru samþ. hér á Alþ. 1967, meðan ég gegndi starfi menntmrh. Málið hafði verið undirbúið í menntmrn. á 1–2 árum þar á undan. Ég mælti fyrir lögunum á sínum tíma, túlkaði þau og það tókst að ná um samþykkt laganna algerri samstöðu hér á hinu háa Alþingi.

Í 2. gr. þessara laga segir skýrt og skorinort að stefnt skuli að því að umframþörf námsmanna verði fullnægt, m. ö. o.: það skuli stefnt að því á ótilteknu árabili að námsmenn fái lán sem svari 100%, sem svari algjörlega til svonefndrar umframfjárþarfar námsmanna, sem er hugtak sem ég veit ég þarf ekki að skýra fyrir hv. alþm. Það var enginn ágreiningur um það þegar lögin voru samþ. 1967 að það væri nægilegt að ákveða sem markmið að fullnægja umframþörfinni algjörlega án þess að í lögunum sjálfum yrði tekið til á hvaða árabili það skyldi gert. Það yrði að vera á valdi fjárveitingavaldsins hverju sinni hversu ört fjárframlög til Lánasjóðsins yrðu aukin. Þau hafa verið sem hér segir: Á því ári, sem lögin voru samþ., náðu lánveitingar af umframfjárþörf 43%, á árunum 1967–1968, þau jukust 1968–1969 upp í 48.5%, 1969–1970 upp í 52.2%, 1970–1971 upp í 62.9%, 1971–1972 upp í 77.4%, en þá hefst tímabil stöðnunarinnar, því að 1972–1973 er hlutfallið svo að segja óbreytt, þ. e. 77,8%. Það olli hins vegar svo mikilli réttlátri óánægju, það olli gagnrýni um að verið væri að hverfa frá yfirlýstum samróma vilja Alþ. frá 1967, að það tókst að hækka fjárframlög til þess að gera lánveitingar í samræmi við umframfjárþörf mögulegar upp í hlutfallið 82.7%. Á yfirstandandi skólaári hafa lánveitingar til þess að greiða umframfjárþörf numið sömu tölu, 83%. M. ö. o.: á liðnu námsári var í annað sinn um að ræða stöðnun á því að framfylgja skýlausum ákvæðum 2. gr. laganna. Og nú, ef framlögð fjárlög eru tekin og haldið mjög fast við þá yfirlýsingu hæstv. menntmrh. að greiða aðeins 5/7 hluta árlegrar lánsupphæðar sem haustlán, þá jafngildir það því að meðaltali að haustlánin lækki um helming, að þau skerðist um 50%.

Það gerðist á þinginu 1970–1971, 4–5 árum eftir að lögin höfðu verið samþ., að tveir þm., þeir Magnús Kjartansson og Þórarinn Þórarinsson fluttu brtt. við lánasjóðslögin um að ákveðin viðmiðun skyldi tekin upp í aðalgrein laganna, sem samkomulag hafði verið um 1967 að gera ekki. Brtt. þeirra hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„2. gr. laganna orðist svo:

Stefnt skal að því að opinber aðstoð við námsmenn samkv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar. Verði tekjur Lánasjóðsins auknar í áföngum að því marki að frá og með námsárinu 1974–1975 verði unnt að fullnægja allri fjárþörf námsmanna umfram eigin tekjur þeirra.“

Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „17. nóv. s. l. spurðist Magnús Kjartansson fyrir um það í fyrirspurnatíma Sþ. hvenær ríkisstj. ráðgerði opinbera aðstoð við námsmenn nái því marki að hún standi straum af árlegum umframkostnaði þeirra. Gylfi Þ. Gíslason menntmrh. komst svo að orði í svari sinu:

„Samkv. áætlun Lánasjóðsins um dreifing lána má ætla að lán sjóðsins hafi numið 53–54% af umframfjárþörf að meðaltali samkv. reglum þeim sem giltu við síðustu úthlutun. En gera má ráð fyrir að þetta hlutfall hækki við næstu úthlutun um 65–66%. Hefur þannig með samþykkt till. Lánasjóðsins verið stigið stórt skref í átt að því markmiði laganna um námslán og námsstyrki sem um getur í fsp. Með sama áframhaldi mundi ekki taka nema um 3 ár til viðbótar að ná þessu markmiði að fullu. En svo sem jafnan hefur verið lögð áhersla á af hálfu ríkisstj. er það að sjálfsögðu undir Alþ. komið með ákvörðun fjárveitinga hversu hratt þeirri sókn miðar, en ég tel að að þessu marki eigi að stefna, þ. e. a. s. að halda þeim vaxtarhraða á fjárveitingum til sjóðsins sem markaður hefur verið í fjárlagafrv. fyrir 1971.“

Svo segir flm. áfram í sinni grg.:

„Ástæða er til þess að fagna þeirri yfirlýsingu menntmrh., sem væntanlega er gefin fyrir hönd ríkisstj., að stefna beri að því marki að Lánasjóðurinn geti fullnægt þörfum námsmanna skólaárið 1974–1975. Með frv. þessu er lagt til að Alþ. lýsi í verki samþykki við þessa stefnu.“

Í umr., sem urðu um þetta frv., sagði ég fyrir hönd þáv. ríkisstj. m. a. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég sagði í fyrra, og bak við það er fyllsta alvara og fullkomin samstaða í ríkisstj., að það væri skoðun mín og allrar ríkisstj. að verða skyldi við þeim kröfum um tímamark sem stjórn Lánasjóðsins hafði sett fram, sem sagt að fullnægja þeim kröfum á 3–4 árum.“ — Þetta er sagt 1970. — „Ég hafði heimild ríkisstj. til að gefa þá yfirlýsingu sem ég gaf og það var full alvara að baki henni.

Það sem ég hins vegar sagði, að endanlega valdið væri ekki í höndum ríkisstj., heldur Alþ., þá átti ég auðvitað við endanlega fjárveitingavaldið, það væri í höndum Alþ., þ. e. a. s. við afgreiðslu fjárlaga, því að þar eru framlögin ákveðin, en ekki í einstökum lögum.

Það var sammæli allra þegar lögin um Lánasjóðinn voru sett á sínum tíma að ekki skyldi vera ákveðið áramark í lögunum sjálfum. Í 2. gr. er sett fram almennt takmark að hverju skuli stefnt, en allir, öll menntmn. og allir sem sömdu frv , þ. á m. fulltrúar flokks hv. þm., voru á því að það væri rétt að orða þetta svona, að hafa ekki ákveðið áramark í lögunum sjálfum, það hlyti að fara eftir skoðun fjárveitingavaldsins á hverjum tíma hversu ört því markmiði væri náð og óhyggilegt að binda árabilið í almennum lögum. Það, sem velviljuð ríkisstj. getur gert og núv. ríkisstj. hefur gert, er að lýsa yfir vilja sínum á því að fara að óskum stjórnar Lánasjóðsins í þessum efnum. En sérhver ríkisstj. hefur sitt umboð til ákveðins tíma. Umboð þessarar ríkisstj.“ — þ. e. a. s. þáv. ríkisstj. — „er til næsta sumars, og það, sem við getum gert og höfum gert, er að lýsa yfir okkar skoðun. meðan við höfum tillögurétt til fjárveitingavaldsins um þetta, þá skuli eftir óskum stjórnar Lánasjóðsins farið og við það tímamark sem hún hefur miðað við í bréfum sínum til menntmrn.

Þessi yfirlýsing er gefin fyrir hönd stjórnar sem Alþfl. fór með menntamálin í og Sjálfstfl. fór með stjórn fjármálanna. Hún er því gefin fyrir hönd ríkisstj. Alþfl. og Sjálfstfl., þ. á m. auðvitað fyrir hönd þess flokks sem skipar nú sæti hæstv. fjmrh. Þessi yfirlýsing er gefin fyrir hönd þáv. ríkisstj. í tilefni af frv. sem flutt er af þm. Alþb. og Framsfl. þar sem farið er fram á að það verði lögbundið sem við töldum rétt að lýsa yfir sem stefnuyfirlýsingu. Nú vill svo vel til að hæstv. menntmrh. er í sama flokki og annar af flm. þessa frv. sem flutt var vegna nauðsynjar á að tryggja að unnt yrði að veita 100% lán upp í umframlánsþörf í síðasta lagi á árinn 1974–1975. Ég tel því óhætt að segja að allir flokkar þingsins hafi áður fyrr staðið að yfirlýsingum um að fjárveitingar til sjóðsins skuli við það miðaðar, þó að það væri ekki lögbundið, — fulltrúar allra flokka þingsins hafi lýst því yfir að markmið 2. gr. laganna skyldi náð í síðasta lagi á námsárinu 1974–1975.

Afstaða flokks míns kom fram í þeim yfirlýsingum mínum, sem ég hef þegar lesið. Ég tel afstöðu Sjálfstfl. hafa komið fram í samþykki þáv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar, á því að ég mætti gefa slíka yfirlýsingu. Afstaða Framsfl. kom fram í afstöðu Þórarins Þórarinssonar sem flutti frv. um þetta efni, og ég tel það að vissu leyti vera siðferðilega bindandi fyrir núv. menntmrh. því að hans flokkur stóð einhuga að baki þessu frv. Aðild Magnúsar Kjartanssonar að því hefur að sjálfsögðu verið gefin með fullu samþykki hans þingflokks, enginn vafi er á um afstöðu þingflokks Alþb. Og þingflokkur SF, sem ekki var kominn á þing þegar þessar umr. fóru fram, — það hefur aldrei leikið nokkur minnsti vafi á afstöðu þess flokks til þessa, m. ö. o. að Alþ., að fjárveitingavaldinu sé skylt að stuðla að því að markmið 2. gr. náist og að þær yfirlýsingar eigi að sjálfsögðu að standa sem gefnar voru vorið 1971 um að því marki skyldi náð á árinu 1974– 1975.

Ég tel því að það, sem hér er nú um að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj., sé í beinni andstöðu við áður gefnar yfirlýsingar af hálfu allra fimm flokka þingsins. Þannig getur ríkisstj. ekki hegðað sér. Hún getur ekki gengið á bak orða sinna eigin manna. Hún hlýtur að taka tillit til þeirra yfirlýsinga sem fyrrv. ríkisstj. hefur gefið. Það hafa verið talin óskráð lög, a. m. k. regla sem talið hefur verið siðferðilega skylt að framfylgja, að ríkisstj. er talin bundin af yfirlýsingum fyrri ríkisstj., ekki hvað síst þegar svo vill til að einn og sami flokkurinn á sterkustu aðildina að þeim tveimur ríkisstj. sem hér er um að ræða. Afturkippur komst í þessi mál tvívegis, þ. e. á árinu 1972–1973 og svo aftur á árinu 1974–1975, þar sem um óbreytt skilyrði til lánveitingar upp í umframfjárþörf var að ræða. Nú virðist eiga að ganga enn þá lengra, vega enn þá dýpra í þennan sama knérunn og beinlínis skerða möguleikana til þess að fullnægja umframþörfinni. Það er að sjálfsögðu í svo hróplegu ósamræmi við þær yfirlýsingar sem áður hafa verið gefnar að það er fullkomlega eðlilegt að námsmenn uni því ekki. Við þm. eigum ekki heldur að una því að ríkisstj., hvort sem við styðjum hana í öðrum málum eða ekki, hegði sér með þessum hætti.

Um efnisatriði málsins vildi ég segja þetta, ef það mætti verða hv. þm. til leiðréttingar á nokkrum upplýsingum sem fram hafa komið opinberlega um þetta mál:

Við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra var ekkert beint framlag til haustlána nú í haust. Þess í stað var gert ráð fyrir 100 millj. kr. lántöku. Það reyndust erfiðleikar í haust á að útvega þetta lán, en það fékkst þó á endanum. Fjárþörf til haustlána samkv. venjulegum reglum reyndist vera 290 millj. kr. Í dag eru fyrir hendi til að mæta þessari fjárþörf þessi 100 millj.kr.lántaka, 60 millj. kr. afgangur sjóðsins frá síðasta starfsári, þ. e. 160 millj. kr. Í nýlegu bréfi rn. til stjórnar Lánasjóðsins er sagt að tryggt sé að 100 millj. kr. verði til ráðstöfunar strax í jan. n. k. En ég tek algjörlega undir orð síðasta ræðumanns, að námsmenn lifa ekki í dag á því fé sem þeir kunna að fá til ráðstöfunar í janúar.

Ég veit ekki hvort þm. almennt hafa gert sér ljóst hvernig útreikningi haustlána almennt hefur verið hagað og hvernig nú er ætlunin að haga þeim. Það hefur gilt sú regla, að 7/12 hlutum árlegs námsláns hefur verið úthlutað á haustin, en 5/12 hlutum sem vorláni. En þeirri starfsreglu hefur verið fylgt að allar sumartekjur námsmanna hafa komið til frádráttar við úthlutun haustlánanna einna. Það er þess vegna sem lækkun á hlutfallinu 7/12 ofan í 5/12 er í raun og veru hlutfallslega miklu meiri lækkun en svarar til lækkunar hlutfallsins 7/12:5/12. Því veldur sú staðreynd hvernig framkvæmd er háttað varðandi útreikning haustlánaupphæðarinnar, þá er tekið tillit til sumarteknanna, að þau mundu lækka svo gífurlega að þessu sinni að að meðaltali mun það svara sem næst helmingi. Auðvitað hefði stjórnvöldum átt að vera kunnugt um það, hvernig þessari framkvæmd hefur verið hagað um margra ára bil, og því gera sér grein fyrir því að jafnvel lítil lækkun á hlutfallinu á milli haustlána og vorlána margfaldast í meðförunum gagnvart lánþegunum, gagnvart námsmönnunum.

Í aths. eða grg. fjárl. er á það bent, sem rétt er, að nú starfi n. að endurskoðun námslánalaganna. En hún hefur aðallega fjallað um hvernig auka megi tekjur sjóðsins í framtíðinni. Störf hennar hafa ekki miðast við að námsaðstoðin sjálf hafi verið skert. Það hefur engin rödd heyrst í endurskoðunarnefndinni að fært sé að skerða námsaðstoðina sjálfa, og þess vegna geta störf hennar engin áhrif haft á raunverulega fjárþörf sjóðsins.

Mér er líka til efs að alþm. almennt sé ljóst hvernig fjár hefur yfirleitt verið aflað undanfarið til námskostnaðar. Meðaltalstölur fyrir nokkur undanfarin ár leiða í ljós að tekjur námsmanna hafa nægt til þess að greiða um 40% námskostnaðar. Námsmenn sjálfir greiða um 40% af námskostnaði sínum með vinnu á sumrum og vetrum. Námsaðstoð Lánasjóðsins hefur numið ca. 50%, það er allt og sumt. Hún hefur numið ca. 50% af því sem námskostnaður raunverulega nemur. Aðrar tekjur, tekjur sjóðsins sjálfs, endurgreiðslur og því um líkt, hafa numið 10%. Umframfjárþörfin hefur því verið ca. 60% af kostnaðinum. Þessi umframfjárþörf hefur verið veitt með námslánum, sem hafa numið hlutfallslega eins og ég gat um áðan, og talan fyrir s. l. ár var komin upp í 83%. En ég endurtek það, að ef tölur fjárlagafrv. eru teknar alvarlega, þá þýðir það að þetta hlutfall, 83%, sem í fyrra var yfir allt árið, mundi nú hrapa niður í 48%. Lánsfjárgeta, sem í fyrra svaraði til 83% af umframfjárþörfinni, mundi nú verða 48% af lánsfjárþörfinni eins reiknaðri ef tölur fjárlagafrv. eru teknar alvarlega og hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. breyta ekki þeim ákvörðununum sem þeir tóku fyrir nokkrum dögum. Þetta mundi vera minna en átti sér stað 1968–1969, þ. e. a. s. á fyrsta starfsári Lánasjóðsins. M, ö. o. það væri stigið spor næstum hellan áratug aftur á bak. Því, sem áunnist hefur með lánasjóðslögunum, sem voru stórt framfaraspor á sínum tíma, mundi öllu vera kastað á glæ. Það mundi allt saman vera tekið aftur ef þessar fyrirætlanir, sem nú eru á döfinni, ná fram að ganga.

Síðustu orð mín skulu vera þau — og þau eru mælt af mikilli alvöru í garð hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh., að ég vara við því að halda fast við þessa stefnu, — vara alvarlega við því. Hún er ranglát. Það felst í henni ranglát kjaraskerðing, og það er ekkert spaug að særa réttlætistilfinningu ungs fólks og það alveg sérstaklega þess unga fólks sem leggur það á sig að eyða mörgum árum ævi sinnar í að afla sér menntunar, auðvitað til þess að þjóna þjóð sinni vel og dyggilega á eftir. Ég segi aftur: Það er ekkert spaug að særa réttlætistilfinningu þessa hóps íslensku þjóðarinnar.

Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni hófu námsmenn nám sitt í haust í góðri trú á að haldið yrði áfram að framkvæma stefnu 2. gr. gildandi laga. Menn hafa því lagt út í nám, en standa skyndilega frammi fyrir því að ekki er einu sinni staðið við það sem var í fyrra, ekki einu sinni óbreytt fjárframlög, heldur á að skerða þau. Þetta hlýtur að valda ekki aðeins vonbrigðum, heldur valda mörgum alvarlegum erfiðleikum. Enginn ber á móti því að endurskoðun laganna sjálfra sé eðlileg og eigi að sjálfsögðu að fara fram. Þá á ég ekki síst við reglurnar um endurgreiðslu á lánum. Það hefur enginn á móti því. En það snertir ekki vandann sem hvílir á herðum námsmanna nú á þessu hausti. Það verður að fylgja áfram stefnu gildandi laga, þeirri stefnu sem ég hef margvilnað til og felst í 2. gr. laganna. Og það er ekki nóg að biða afgreiðslu fjárl. Á það legg ég sérstaka áherslu. Það er ekki nóg, eins og hæstv. fjmrh. hefur látið orð liggja að við fulltrúa námsmannanna, að þetta muni verða athugað nánar og athugað með velvild við afgreiðslu fjárl. Það er ekki nóg, því að það leysir ekki vanda fólksins. Það leysir ekki vanda þessa mánaðar sem nú er senn liðinn. Það, sem þarf að gera, er að útvega strax viðbótarlán til þess að hægt sé að veita 7/12 árslánanna sem haustlán og taka síðan tillit til nauðsynjar á endurgreiðslu þessarar víðbótarlánveitingar við afgreiðslu fjárlaganna í desember.

Þetta vil ég undirstrika sérstaklega, að það ber nauðsyn til tafarlausra ráðstafana. Það er enginn tími til þess, það er ekki hægt að bíða. Ég geri mér ljóst að í ríkissjóði er ekki fé til að inna af hendi greiðslur í þessu efni. En þá er ekkert annað að gera en að afla lánsfjár, það hlýtur að vera hægt, og taka síðan tillit til þess við endanlega afgreiðslu fjárlaga.

Allra síðustu orð mín skulu vera þau að endurtaka það, að ég vara ríkisstj. mjög eindregið við því að taka ekki tillit til þeirra óska sem nú eru fram við hana bornar af hálfu námsmanna og staðfestar voru á fjölmennum útifundi hér fyrir utan Alþingishúsið nú áðan. Íslenskir námsmenn eiga allt annað skilið en að hagur þeirra sé skertur og að réttlætistilfinning þeirra sé særð.