18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

121. mál, almannatryggingar

Gils Guðmundason:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að bæta mjög mörgu við það sem þegar hefur komið fram við þessa 1. umr. málsins, en vil þó leggja hér fáein orð í belg.

Þegar hæstv. fjmrh. boðaði það í fjárlagaræðu sinni í haust að ætlunin væri að spara 2 milljarða kr. á almannatryggingunum þá hugsaði ég þegar að vafalaust væri það svo um fjárlagalið sem orðinn er svo geysihár eins og allar almannatryggingarnar að trúlega væri hægt með endurskoðun, alvarlegri endurskoðun á þeim málum öllum að spara verulega án þess að það kæmi alvarlega við þá sem þessar tryggingar eiga sérstaklega að koma til góða, þ. e. a, s. þá sem trygginganna þurfa og eiga að réttu lagi að njóta. Ég gat vel trúað því að það væri hægt að spara þarna verulega, e. t. v. 2 milljarða, án þess að skerða svo mjög þetta meginmarkmið með tryggingunum. Það var eðlilegt að mínum dómi að að því yrði unnið kappsamlega, og þetta mál er þannig vaxið að það var ekkert eðlilegra en stjórnarandstaðan ætti þar fullan hlut að máli og fengi að fylgjast með og fengi að vita um hvaða valkostir væru taldir vera fyrir hendi og gæti þegar á umræðustigi lagt sitt af mörkum til þess að skynsamlegir valkostir yrðu niðurstaða þessarar athugunar.

Nú er komið í ljós hvað hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar hafa getað orðið sammála um í þessu efni og er búið að lýsa því allítarlega hér af öðrum, og hv. 3. þm. Reykv. hefur þegar gert glögga grein fyrir afstöðu okkar alþb.- manna til þessa máls. Við teljum það að sjálfsögðu mjög illa farið að þessu máli skuli vera fleygt inn í þingið svo flausturslega og illa undirbúnu eins og raun ber vitni. Við teljum það mjög illa farið að það skuli í fyrsta lagi vera sjúklingarnir sem eiga að taka á sig þarna töluverðar byrðar og síðan allur almenningur, allir þeir sem borga útsvar til sveitarfélaga. Ég er engan veginn að segja með þessari afstöðu að öll sú lyfjanotkun, öll þau lyf, sem læknar landsins fallast á og sjúklingar sumir sækja mjög í, séu sérstaklega þörf eða nauðsynleg. Ég hefði vel getað hugsað mér að það yrði að nýju gerð rækileg könnun á því hvaða lyf eru nauðsynleg og hver eru miður nauðsynleg og þarna verði gerður verulegur munur á og e. t. v. eitthvað sparað í sambandi við slíka lyfjanotkun. En það er ekkert slíkt sem liggur þarna að baki, því að eins og fram kemur í frv. er þar almennt um að ræða að það eru bæði greiðslur vegna sérfræðiþjónustu og vegna lyfja, sem fólk notar beinlínis að læknisráði, sem eru hækkaðar.

En það, sem ég vildi koma hér á framfæri, var, að ég vil leyfa mér að ítreka það, sem þegar hefur komið fram í sambandi við þá furðulegu aðferð við innheimtu á mestum hluta þessa sparnaðar, að þessi svokallaði sparnaður kemur að mestum hluta fram í því að í stað þess að ríkið greiði það sem um er að ræða, þá eiga nú skattborgararnir að gera það með því að það er lagt sérstakt 1% gjald ofan á gjaldstofn útsvara, þ. e. a. s. það er um að ræða að útsvörin eru í rauninni hækkuð um 10–11% í þessu skyni. Þetta er nú allur sparnaðurinn sem hæstv. fjmrh. boðaði í sambandi við sjúkratryggingagjöldin, þ. e. a. s. annars vegar eiga sjúklingar að borga lítils háttar af þessu og hins vegar eiga svo allir útsvarsgreiðendur í landinu að borga mestallan hlutann.

Ef niðurstaða af könnun var á þá leið að nauðsynlegt væri til þess að halda uppi eðlilegum og þörfum tryggingum að afla nýrra tekna, þá átti að ræða það mál og reyna að komast að niðurstöðu um eðlilegan og skynsamlegan hátt þar á, og að sjálfsögðu átti ríkið að eiga þar hlut að máli, en fráleitt að fara að demba því yfir á sveitarfélögin eins og gert er með þeim furðulega hætti sem hér er á hafður. Hér er í rauninni ekki um annað að ræða en það, að sparnaðurinn er fólginn í því að það, sem áður var greitt úr hægri vasanum, skal nú greiðast úr vinstri vasa. Og þegar á það er nú litið að útsvarsskattlagningin er af öllum talin ekki sérstaklega réttlát skattlagning, þegar það liggur fyrir að þar er fyrst og fremst og nær eingöngu um launamannaskatt að ræða, þá verð ég að segja það, að þessi háttur sparnaðar, sem þeir hæstv. fjmrh. og hæstv, heilbrrh. virðast hafa komið sér saman um, er næsta furðulegur. Hæstv. heilbrrh. er vestfirðingur, ég er líka vestfirðingur, og vestfirðingar hafa löngum fengið orð fyrir að tala nokkuð tæpitungulaust. Og þegar ég var að alast upp á Vestfjörðum, þá held ég að svona aðferð eins og hæstv. heilbrrh. er að beita hér og nú hafi verið kölluð „hundakúnstir“ á Vestfjörðum, og ég held að það muni vera svo enn í dag.

Það hefur verið á það minnst hér eðlilega að þeir menn, sem eru í forustu fyrir Sambandi ísl. sveitarfélaga, hafa verið harðorðir um það að nú eigi enn að leggja þetta aukna erfiði og þessa innheimtubyrði á sveitarfélögin, eins og þau standa nú að vígi mörg hver. Og ég er ekkert hissa á því þótt þeir menn séu harðorðir þar um.

Í dag fengum við, að ég hygg allir þm. Reykn., símskeyti sem ég vil leyfa mér að koma hér á framfæri. Ég held að það sé í rauninni nokkur vottur þess hvernig sveitarstjórnarmenn hugsa til þess að þurfa nú ofan á annað, sem þeir standa í um þessar mundir t þessu verðbólguþjóðfélagi okkar, að taka að sér þessa innheimtu, eins og hún verður nú auðveld og hér hefur áður verið lýst. En í dag kom saman á fund Samstarfsnefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum, þ. e. a. s. allir bæjarstjórar, sveitarstjórar og oddvitar sveitarfélaga á Suðurnesjum, og þar var gerð eftirfarandi samþykkt sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi í Samstarfsnefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem haldinn var 18. des. 1975, var eftirfarandi samþykkt gerð:

Lagt hefur verið fram á Alþ. stjfrv. um breytingar á almannatryggingarlögunum sem felur í sér að sveitarfélögum er falið að innheimta 1% álag á gjaldstofn útsvars, þ. e. brúttótekjur gjaldenda. Skal fé þessu varið til að standa undir rekstrarútgjöldum sjúkratrygginganna. Samstarfsnefnd sveitarfélaga á Suðurnesjum mótmælir harðlega fram komnu frv. sem gengur í þveröfuga átt við stefnu sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum sem telja að ríkið eigi að taka að sér tryggingarnar að fullu. Skorar nefndin á alþm. að fella frv. og beita sér í staðinn fyrir því að 10% þátttaka sveitarfélaganna í sjúkratryggingunum verði lögð niður og ríkissjóði falin sú fjármögnun og einnig viðbótarfjármögnun til þessa málaflokks ef nauðsyn krefur.“

Undir þetta símskeyti rita Guðmundur Hauksson sveitarstjóri Vatnsleysustrandarhreppi, Jóhann Einvarðsson bæjarstjóri Keflavík, Eiríkur Alexandersson bæjarstjóri Grindavík, Alfreð Alfreðsson sveitarstjóri Sandgerði, Albert K. Sanders sveitarstjóri Njarðvíkurhreppi, Jósep Borgarsson oddviti Hafnáhreppi og Finnbogi Björnsson oddviti Gerðahreppi.

Ég vildi við þessa 1. umr. málsins koma þessu á framfæri og ég vil aðeins bæta því við að ég hygg að þessir oddvitar sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum mæli hér fyrir munn flestra, ef ekki allra sveitarstjórnarmanna á landinu í þessu sambandi. Ef hæstv. heilbrrh. væri í dag ekki heilbrrh. heldur bæjarfulltrúi á Ísafirði, þá býst ég við að hann tæki nokkuð stórt upp í sig í sambandi við slíkan tillöguflutning eins og hér er um að ræða.