18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

121. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Ég sagði í Ed. í gær að stjórnarandstæðingar hefðu þau fríðindi, þegar tími væri naumur, að leyfa sér að tala nokkurn veginn ótakmarkað, eins og hefur komið fram bæði hér í dag og á liðnum árum, hverjir sem hafa verið í stjórn. Hins vegar verða þeir aftur, sem í stjórn eru, að sætta sig við það að geta ekki svarað nema mjög takmörkuðu af því sem fram kemur. Og þó að ég hafi mjög mikla löngun til þess að flytja langa ræðu núna til þess að svara þeim eindæma firrum og vitleysum sem fram hafa komið í ræðum þriggja síðustu ræðumanna þá ætla ég að stikla á aðeins örfáum atriðum.

Síðustu ræðu, þessari hundakúnstaræðu hv. 3. þm. Reykn., er fljótsvarað. Nú berst hann mjög fyrir bæjarstjóra og oddvita í Reykjaneskjördæmi til þess að sýna hvað hann er fljótur að taka við sér þegar hann fær símskeyti frá kjósendum úr kjördæminu. Hann gerir þeirra orð að sínum og vill nú berjast hetjulegri baráttu gegn því ófrelsi sem lagt sé á sveitarfélögin í landinu. Ég veit ekki betur en sú kvöð hafi verið lögð á einstaklinga og félög, sem atvinnurekstur hafa, að innheimta söluskatt og skatta og m. a. s. útsvör fyrir sveitarfélögin áratugum saman fyrir ekki neitt og hafi fengið það aftur í staðinn að þau stælu af þessu oft á tíðum. Þeir, sem saklausir eru, sem er auðvitað yfirgnæfandi meiri hl. hafa þurft að liggja undir þessu í sambandi við þessa innheimtu. Ég spyr: Hvernig stendur á því að þessar kvaðir eru lagðar á einstaklingana? Ef einstaklingarnir á Suðurnesjum sem núna verða að innheimta bæði útsvör og skatta — skatta til ríkisins og útsvör til sveitarfélaganna — senda nú Gils Guðmundssyni skeyti og biðja hann að koma því til leiðar að hætta þessu, ætlar hann þá að standa upp og krefjast þess að nú hætti sveitarfélögin að nota þá, sem atvinnurekstur stunda, til þess að innheimta útsvör fyrir ekki neitt, það er það minnsta að þau borgi eitthvað fyrir það, og ríkið hætti sömuleiðis? Nei, þetta eru furðulegar hundakúnstir sem hv. þm. hefur hér í frammi.

Hv. 8. landsk. þm. flutti hér langa ræðu, og mér var sagt að hann hefði hrópað mikið á mig í byrjun ræðunnar, ég hefði ekki verið kominn. Ég þurfti að sinna allmörgum störfum þennan rúma klukkutíma sem ég hafði og ég leyfði mér þann munað að fá mér eina máltíð í dag án þess að spyrja hv. 8. landsk. þm., og ég ætla ekki heldur að spyrja hann að því næst þegar ég borða. En það hefði ekkert gert til þótt ég hefði misst töluverðan hluta af þessari ræðu því að hún var full af gorgeir. Hið eina, sem ég get bent honum á, var þegar hann lýsti áhyggjum sínum hvernig væri að fara fyrir bretum í sambandi við sjúkratryggingar, en þar ráða kratar, — ég skal gefa honum eitt hollt ráð: Það er að segja þessum flokksbræðrum hans, sem ráða núna í Bretlandi, að kalla herskipaflotann heim og dráttarskipin og spara þar og bæta sjúkrakerfið, biðja hann að gera svo vel að snúa sér að Wilson flokksbróður sínum og Crosland og öðrum þeim náungum sem nú herja helst á þetta litla ríki. Það væri þarft verk að þm. tæki það sér fyrir hendur og bresku kratarnir gætu eitthvað numið af þeirri miklu visku sem hann hefur fram að færa í tryggingamálum.

Ég ætla líka að bæta því við fyrir þennan hv. þm., að þær greiðslur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að samlagsmenn greiði bæði vegna sérfræðingahjálpar og í lyfjakostnaði, eru, þó að þetta frv. nái fram að ganga, sennilega helmingi lægri en þegar Alþfl. fór með heilbrigðismál. Þetta vil ég biðja hann líka að athuga, og næst þegar hann flytur svona kennsluræðu yfir okkur, að hann fræði okkur eitthvað í þessum efnum, hvernig á þessu hafi staðið á meðan Alþfl. gat látið ljós sitt skína og fór með heilbrigðismál árum saman og m. a. s. meðan hv. 9. þm. Reykv. var í ríkisstj„ ekki árum saman, heldur allt að því áratugum saman. Þetta hefur ekki komist enn þá svo neðarlega sem þá og á langt í land. Þetta ætla ég að segja þessum miklu baráttumönnum fólksins í Alþfl. á meðan flokkurinn er enn þá lifandi.

En ég ætla líka að bæta því við að það var stórkostlegur munur á talsmanni Alþfl. í þessari hv. deild eða í hv. Ed. Þar var talsmaður Alþfl. hv. 4. landsk. þm., eldri alþfl.- maður sem hefur barist mjög fyrir tryggingamálum allt sitt líf. Hann sagði í sinni ræðu: Ég tel ekkert óeðlilegt við það að þeir, sem njóta þessarar sérfræðiþjónustu, þeir, sem kaupa lyfin, borgi ákveðna hlutdeild í því. Ég tel ekkert óeðlilegt við það. — Svo bætti hann við: „Ég tel ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélögin greiði meira til sjúkratrygginganna en þau gera. En ég er algjörlega á móti þessari leið sem farin er í þessu frv.“

Þetta er málefnaleg afstaða, sem hann tók, og og um þetta má auðvitað deila. En sá hrokagikksháttur, sem kom fram í ræðu talsmanna flokksins hér í Nd., er varla svaraverður og ég ætla að láta staðar numið við þetta.

En þó vil ég aðeins taka fram til þess að fyrirbyggja misskilning hjá öðrum, þegar hann spyr hvort þetta 1% geti haft áhrif á ellefta prósentið hjá sveitarfélögunum, að ég hélt að hver einasti þm. skildi það að gjaldstofn sveitarfélaganna er markaður í sérstakri löggjöf, tekjustofnalöggjöf sveitarfélaga. Það er engin minnsta breyting gerð á tekjustofnalögunum. Þau sveitarfélög, sem hafa nú heimild til þess að leggja 10% á og ég tók það m. a. s. fram í ræðunni, en það hefur farið fram hjá þm. — þau hafa auðvitað leyfi til þess að bæta þessu 1% við. Ef heimilt er að bæta því prósenti við þann gjaldstofn sem er í lögum, þá er það auðvitað tólfta prósentið, ef það verður leyft og ef þau sveitarfélög, sem þess æskja, sækja um það. Þetta hefur engin áhrif á tekjustofnalögin, og ég hélt að það skildi hver og einn einasti maður.

Sumir ræðumanna hafa talað um að sveitarfélögin hafi engin áhrif á rekstur sjúkrahúsanna. Það er alveg rétt. Þau sveitarfélög, sem ekkert sjúkrahús eiga, ekkert sjúkrahús reka og ekki koma nálægt neinum sjúkrahúsarekstri, hafa ekki aðild að rekstri sjúkrahúsanna. En það eru um eða yfir 10% af sjúkrahúsarekstrinum í höndum sveitarfélaganna og það eru tæp 20% í höndum einkaaðila eða félagasamtaka, þannig að það eru 60% af rekstri sjúkrahúsa í höndum sveitarstjórna og annarra samtaka, en 40% eru í rekstri ríkisins.

Sveitarfélögin ráða algjörlega rekstrinum. Þau gera auðvitað ekki samninga við lækna og það er byggt á sömu samningum og verið hafa í gildi áður en þessi ríkisstj. tók við. En ef hækkun á sjúkratryggingunni hefur orðið meiri en hækkun á ellitryggingu þá skil ég ekki í því að fólk skuli furða sig á því. Í sjúkratryggingunni eða sjúkrahúsarekstrinum er launakostnaður um 70%. Það eru eiginlega engir liðir sem eru jafntengdir laununum og sjúkrahúsin og sjúkrahúsareksturinn í heild vegna þess að hér er um stofnanir að ræða sem eru reknar allan sólarhringinn árið um kring. Þess vegna er eðlilegt að þar verði hækkunin hlutfallslega meiri en alls staðar annars staðar. Þar við bætist, sem ég einnig gat um í dag, að nú seint á þessu hausti og fram til áramóta verður bætt við í ríkissjúkrahúsunum yfir 100 sjúkrarúmum. Þetta hlýtur að kalla á aukin útgjöld, en það gerir um leið fleirum fært að fá umönnun og hjúkrun. Það er stórt atriði og mjög mikilvægt.

Samhliða þessu vil ég upplýsa og þá ekki síst hv. 3. landsk. þm. um það að sjúkrahúsin eru í hraðri uppbyggingu. Það voru samþ. lög um heilbrigðisþjónustu á valdatíma fyrrv. ríkisstj. Þau lög voru lítið komin til framkvæmda þegar núv. ríkisstj. tók við, en þau lög gera ráð fyrir svo stórkostlegri útgjaldaaukningu í sjúkratryggingakerfinu að það eitt gerir það að verkum að hér verður um óhjákvæmilegar hækkanir að ræða. Ég hélt að fyrrv. ráðh. í fyrri ríkisstj. mundi eftir þessum lögum og gerði sér grein fyrir því að þar væri um stórfellda aukningu á kostnaði að ræða. Þessi kostnaðaraukning fer ekki minnkandi með árunum, hún fer stórvaxandi hvað þetta snertir. Fyrsta heilsugæslustöðin er núna að taka til starfa, heilsugæslustöðin í Borgarnesi sem byrjað var að veita fé til áður en núv. ríkisstj. kom til valda og var svo haldið áfram eðlilega ásamt mörgum öðrum heilsugæslustöðvum og stækkun sjúkrahúsa. Þessi starfræksla öll kemur til með að hafa stóraukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Þessu hélt ég að allir þm. hefðu gert sér grein fyrir þegar þessi lög voru samþykkt. Og ríkisstj., sem þá var, stóð ekki ein að samþykkt þessara laga. Við greiddum velflestir aðrir atkv. með þessum lögum af því að við töldum að þau væru mjög veigamikið og merkilegt spor í framfaraátt. En kostnaðurinn er ekki að koma í ljós fyrr en núna. Ég vona að það hafi eitthvað glaðnað til í kollinum á sumum þm. við að fá þessar upplýsingar sem minna á hvað gerst hafði og hvað er að gerast.

Ég vil líka minna á það, að á síðustu dögum fyrrv. ríkisstj. var gerð breyting á almannatryggingalögunum þess efnis að sjúkrasamlög greiða að hálfu þá tannlæknaþjónustu sem veitt er af heilsugæslustöðvum, hjá skólatannlæknum eða á stofum tannlækna sem Tryggingastofnun ríkisins semur við um þjónustu í þágu sjúkratrygginga. Meðan uppbygging tannlæknaþjónustu á heilsugæslustöðvum samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu stendur yfir skulu ákvæði þessarar 1. mgr. aðeins gilda fyrir tiltekna þjónustu og tiltekna hópa fólks. Svo segir í þessum lögum: „Frá 1. sept. 1974 skulu ákvæði 1. mgr. gilda fyrir börn og unglinga 6–15 ára, enda leggi sveitarfélög 50% á móti.“ Takið eftir: „sveitarfélög 50% á móti.“ Þá var það í lagi. „Greiða skal alla þjónustu sem þessum aldursflokkum er veitt hjá skólatannlækni eða á heilsugæslustöð. Sé ekki kostur á slíkri þjónustu á vegum viðkomandi sveitarfélags er heimilt að greiða þjónustu fyrir þessa aldursflokka hjá hverjum þeim tannlækni sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samið við.“ Nú vil ég bæta því við að ég varð heilbr.- og trmrh. 28. ágúst 1974, eða þremur dögum áður en þessi lög eiga að koma til framkvæmda. Þá stendur þannig á að það er ekki farið að hefja neina samninga við þessa hroðalegu stétt, tannlæknastéttina, sem var verið að lýsa hér áðan í einni ræðunni og það hefur tekið marga mánuði, og það er ekkert óskiljanlegt að það taki langan tíma að brjóta ísinn í fyrsta skipti þegar á að semja við tannlækna. Það kom oft fyrir, ég man ekki hvað oft, en mjög oft, að það slitnaði upp úr samningum. En það voru til menn innan þessa starfshóps sem vildu semja, en þó voru til aðrir sem vildu ekki semja.

Þannig var nú þetta mál undirbúið. Og svo vil ég bæta því við: Þessi breyting, sem ekki var komin til framkvæmda, kostar ríkissjóð eða sjúkratryggingarnar stórfé. En það er ekki hægt í öðru orðinu að segja: Þeir, sem þurfa að njóta trygginganna, eiga að sleppa við að borga, tryggingarnar eru orðnar allt of dýrar, það á að skera þær stórkostlega niður, en í hinu orðinu: Það á samt að bæta alltaf nýju á þær. — Það eru kúnstir sem ég skil ekki. Þess vegna er um það að ræða núna að gera heildarendurskoðun sem er ekki neitt flýtisverk, því að tryggingafræðingurinn, sem ég nefndi áðan, hefur unnið að því mánuðum saman og er nú langt kominn með sínar athuganir og þær koma til með að liggja fyrir þessari nefnd sem einu sinni hefur komið saman, og ég hef talað við formann nefndarinnar um að það verði haldið áfram störfum þar alveg miskunnarlaust til að koma hér á mjög mikilvægum breytingum.

En út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði varðandi bætur almannatrygginga, vil ég upplýsa þm. um það, að frá 1. okt. 1974, eða rúmum mánuði eftir að núv. ríkisstj. tók við, hækkuðu bætur almannatrygginga, 1. des. hækkuðu þær aftur, þær hækkuðu 1. okt. upp í 155 400 kr., einstaklingsbæturnar, tveimur mánuðum siðar hækka þær upp í 160 068 kr., 1. apríl eða fjórum mánuðum siðar hækka þær upp í 174 480 kr. og 1. júlí á þessu ári upp í 179 760 kr. Og ég vil hugga þennan hv. þm. með því að bætur almannatrygginga í tíð núv. ríkisstj. hafa hækkað alveg á sama tíma og alveg hlutfallslega og bætur hækkuðu frá því að núv. almannatryggingalöggjöf var sett. Þar við bætist að þessar bætur hafa komið mánuði fyrr til útborgunar en var í tíð fyrrv. ríkisstj.

Ég held að í minni framsögu hafi ég komið inn á flesta liði sem máli skipta. Ég endurtek hér að þetta gjald, sem sveitarfélögin eiga að innheimta, er lagt ú eftir brúttótekjum. Ég nefndi áðan að það gæti líka komið til greina nefskattur ef menn hafa heldur viljað það. Kannske hefur Alþfl. heldur viljað nefskatt en leggja á brúttótekjur. En þegar hann talar um álögur á atvinnureksturinn í landinu, þá skiptir ekki máli hvað skattarnir heita, og það er ekki venjulegur talsmáti og hugsunarháttur að segja að atvinnureksturinn beri enga skatta. Á atvinnureksturinn hafa verið lagðir fjölmargir skattar. Launaskatturinn, sem atvinnureksturinn greiðir, er ekkert smáræði. Aðstöðugjöldin til sveitarfélaganna eru ekkert smáræði. Það er ekki lagður skattur á tekjur, heldur á veltu í báðum þessum tilfellum, annars vegar á laun og hins vegar á öll rekstrargjöld. En þetta eru skattar sem lagðir eru á hvort sem fyrirtækin tapa eða græða svo að menn mega ekki, þótt þeir séu komnir í stjórnarandstöðu, einblína eingöngu á tekjuskattinn og taka það alltaf fram að atvinnureksturinn greiði lítinn hluta af tekjuskattinum. Það verður að taka heildarskattkerfið fyrir þegar rætt er um skattlagningu atvinnurekstrarins í landinu. Og þetta veit ég að jafngreindur og glöggur maður og hv. 9. þm. Reykv. veit vel. Hann sagði t. d. þá reginfirru og vitleysu hér fyrir örfáum dögum að atvinnureksturinn greiddi engan söluskatt. Ég veit ekki hvar prófessorinn var staddur í veröldinni þegar hann sagði þessa vitleysu. (GÞG: Um söluskattinn?) Já, þú sagðir þetta í ræðunni um söluskattinn um daginn, við skulum bara fara í ræðuna seinna. En svona mega menn ekki tala. Menn mega ekki hlaupa svona á sig þegar þeir tala um skattlagningu á atvinnureksturinn. Atvinnureksturinn leggur sjúkratryggingunum mikið til og þeir, sem hafa gluggað í þessa ágætu bók fjmrh., hljóta að hafa séð það.

En ég sagði áðan að ég yrði að stilla mig um að verða ekki of langorður þó að ég hefði haft mikla löngun til þess að nota nótlina til umr. um þessi mál og í ýmis önnur sem borið hefur á góma.