22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Það er ekki nema sjálfsagt að svara máli þeirra hv. þm., sem nú hafa kvatt sér hljóðs utan dagskrár, og svara því hér og nú eftir því sem við verður komið, enda er hér vissulega um að ræða mál sem miklu varðar að leyst verði á viðunandi hátt. Jafnframt eða um leið og ég leitast við að svara máli hv. ræðumanna vil ég fara örfáum orðum um málið almennt.

Öflun fjár til Lánasjóðs ísl. námsmanna er orðin æðistór þáttur í gerð fjárl. Á fjárl. þessa árs er framlag til sjóðsins 680 millj. kr. og 100 millj. kr. lántökuheimild í fjárlagafrv. nú 807 millj. kr. lántökuheimild, í fjárlagafrv. nú 807 námsmenn telja að tvöfalda þurfi framlagið hið minnsta. Hér er við ærinn vanda að fást, annars vegar þarfir námsmanna, hins vegar fjáröflunarvandann, hvort tveggja örðugra en fyrr vegna vaxandi verðbólgu og minnkunar þjóðartekna. Má því eðlilegt kallast að vakið sé máls á þessum viðfangsefnum einmitt utan dagskrár á hv. Alþingi.

Ég vil fyrst víkja að þeim þættinum sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, þ. e. a. s. afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár.

Í frv. er fjárveiting til lánasjóðs röskar 800 millj. kr., eins og ég áðan sagði. Við gerð þessa fjárlagafrv. gætti mjög viðleitni til aðhalds almennt. Varðandi þennan lið var sérstaklega haft í huga að löggjöf og þar með tilhögun lánveitinga hefur verið og er í endurskoðun og stefnt að því að koma á breytingu á fyrri hluta þessa þings. Einn meginþáttur lagabreytinganna yrði væntanlega varðandi endurgreiðslu lánanna. Svo fráleitar eru þessar endurgreiðslureglur nú að lánasjóðnum, sem þegar hefur fengið um 1400 millj. kr. samtals úr ríkissjóði og lánað út ámóta háa upphæð, eru einungis áætlaðar tekjur af vöxtum 3 millj. kr. og innheimtar afborganir 12 millj. kr. á fjárl. ársins 1975. Og í fjárlagafrv. 1976 eru þessar upphæðir samtals áætlaðar um 18 millj. kr.

Það er í rauninni langt síðan mönnum varð ljóst að hér var þörf á endurskoðun. Það kom m. a. í ljós við afgreiðslu fjárl. 1971. N. var skipuð og frv. samið, en það hlaut ekki afgreiðslu. S. l. vetur var svo málið tekið upp að nýju, eins og ég sagði áðan, þá er stefnt að því að afgreiða lagabreytingar á Alþ. nú fyrir jólin. Ég hygg að það sé óhætt að segja að allir séu sammála um að hér sé breytinga þörf, og hafa námsmenn vissulega sýnt fullan skilning á þessu atriði, sbr. nýlega gerðar samþykktir þeirra um þetta efni á fundum nú fyrir skömmu og einnig afstöðu þeirra þegar um þetta mál var rætt á s. l. vetri.

Nú dettur mér auðvitað ekki í hug að gera því skóna að fyrirhugaðar lagabreytingar minnki fjárþörf sjóðsins á næsta ári eða næstu árum. En verðtrygging og breytt tilhögun á endurgreiðslum mundu tvímælalaust treysta stöðu sjóðsins til frambúðar, bæði með auknum tekjum af endurgreiðslum og svo með því að draga úr eftirspurn eftir lánsfé frá því sem nú er, þegar í raun er um að ræða beinan styrk að mjög verulegu leyti vegna þess hvernig endurgreiðsluákvæðunum er fyrir komið. Með þá þróun fram undan, sem við það sæi hilla undir, yrði áreiðanlega auðveldara að brúa bilið, komast yfir erfiðustu árin, þangað til sjóðnum fara að berast tekjur af eigin fé, með þá háum fjárveitingum í fá ár eða e. t. v. með lánsfjáröflun að einhverjum hluta. Þetta verður allt skoðað vandlega við meðferð fjárlagafrv. næstu vikur, svo sem raunar hefur verið venja og þurft að gera á hverju ári að undanförnu, því að það er ekki nýtt að hér hafi þurft að endurskoða þá tölu sem sett er fram í fjárlagafrv.

Þá vil ég víkja að haustlánunum svokölluðu sem eru, eins og kunnugt er, aðeins fyrsta greiðsla af heildarláni á viðkomandi skólaári. Mér finnst rétt til samanburðar að rifja upp með örfáum orðum hvernig afgreiðslu haustlánanna hefur verið háttað að undanförnu. Að því er afgreiðslutímann snertir hef ég fengið upplýst að árið 1971 fór afgreiðsla fram í okt.nóv.-mánuði, 1972 í nóv., 1973 síðast í sept. og s. l. ár í nóv.-mánuði. Nú hefst afgreiðsla upp úr miðjum okt., eins og kunnugt er, því að hún er þegar hafin og mér er tjáð að sjóðsstjórnin fari langt með að afgreiða frá sér í þessari viku, en síðan kemur til bankanna. Dráttur á afgreiðslu haustlánanna nú er því í sjálfu sér ekki óvenjulegur og alls ekki einstakur, en hann er vissulega jafn óæskilegur fyrir því.

Hér finnst mér rétt að geta þess að stjórn Lánasjóðsins hefur unnið að því, m. a. með samtölum við fjmrh. í sumar, að reyna að koma fastari tímasetningu á umsóknir og afgreiðslur og þar með útgreiðslur úr ríkissjóði til Lánasjóðsins. Það mundi verða til ótvíræðs hagræðis fyrir alla aðila auðvitað, lántakendur, sjóðsstjórn og ríkissjóðs, að koma fastari skipan á að þessu leyti heldur en orðið hefur, og að því verður unnið áfram.

Varðandi fjárhæð haustlánanna núna er þess að geta, að tryggt er, svona nokkurn veginn skulum við segja, nægilegt fjármagn miðað við venju, þó þannig að hluti haustlána kemur til útborgunar strax, en nokkuð ekki fyrr en í byrjun næsta árs. Það, sem veldur þrengri stöðu nú en áður, er auðvitað allt í senn, verðbólguhraðinn, meiri fjölgun umsókna en gert var ráð fyrir, því að umsóknum hefur fjölgað mjög mikið á þessu ári og það er í raun og veru eðlileg afleiðing af fjölgun stúdenta, en það er þó öllu meira en gert var ráð fyrir, og svo í einni setningu sagt þröng staða hjá ríkissjóði og hjá lánastofnunum.

Nánar tilgreint er afgreiðsla haustlána venjulega byggð á því að reiknaður er framfærslukostnaður í 7 mánuði af 12 og tekjur námsmanns eru dregnar frá. Haustlán nú, sem afgreidd verða fyrir áramót samkv. þeirri vinnu sem nú fer fram hjá sjóðsstjórninni, geta aðeins numið 5.25/12 í stað 7/12 áður, en 1.75/12 yrðu þá greiddir strax eftir áramótin. Meðaltalslánsfjárhæð, sem greidd yrði nú þegar, er mér tjáð að sé liðlega 60 þús. að því er varðar innlenda námsmenn og tæplega 120 þús. til námsmanna erlendis. Greiðsla á 1/4 hluta haustlánanna kæmi þá í ársbyrjun, eins og ég áðan sagði.

Út af ummælum hv. 3. landsk. þm. um þetta atriði vil ég benda á að síðari lánsúthlutun, úthlutun að vori, fer venjulega fram, að mér er tjáð, í febr.- mars, svo að mér sýnist að þær eftirstöðvar haustlána, þ. e. ca. 1/4 af þeim, sem ráðgert er að greiða í ársbyrjun, sá hluti kæmi þó til nota á þeim mánuðum sem þá eru eftir af því tímabili sem haustlánunum er ætlað að brúa, fram til afgreiðslu vorlána. En hér er sem sagt um að ræða seinkun á útborgun á hluta af haustlánum, á það dreg ég enga dul. Hver verður aftur endanlegur fjárhlutur Lánasjóðsins á nýbyrjuðu skólaári, það ræðst ekki að fullu fyrr en við afgreiðslu fjárl. eins og kunnugt er og hér hefur áður komið fram.

Það er vitanlega ekki unnt að skoða, svo að rétt sé, málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna eða nokkra aðra einstaka þætti alveg án tengsla við önnur fjármál ríkisins. Varðandi fjárveitingar til Lánasjóðsins á fjárl. 1975 og meðferð þeirra fjárveitinga vil ég þess vegna rifja upp eftirfarandi til upplýsingar og skal fara fljótt yfir sögu: Veitt fé 680 millj. + 100 millj. kr. lánsheimildin, eins og ég áðan greindi. Allmargar fjárveitingar á fjárl. þess árs, er nú stendur yfir, hafa verið lækkaðar, skornar niður, eins og það er kallað, vegna fyrirsjáanlegs hallarekstrar ríkissjóðs. Fjárveiting til Lánasjóðsins hefur ekki sætt þeirri meðferð, heldur er hún greidd að fullu. Ákveðið var að greiða Lánasjóðnum 40 millj. kr. til viðbótar vegna gengisbreytinga á árinu, og hygg ég að það sé í samræmi við fyrri meðferð undir líkum kringumstæðum. Ríkisstj. tryggði Lánasjóðnum full not af 100 millj. kr. lántökuheimildinni, og ríkisstj. hefur heitið á fyrsta mánuði næsta árs 100 millj. kr. greiðslu af framlagi þess árs til þess að bæta upp haustlánin, en eins og ég sagði áðan hefur svo aftur úthlutun síðari hlutans farið fram á öðrum og þriðja mánuði ársins. Mér finnst rétt og nauðsynlegt að þetta komi fram, því að á sama tíma hafa margir aðrir, er greiðslu fá úr ríkissjóði, orðið að búa við skertar fjárveitingar í samræmi við heimildarákvæði í lögum.

Úthlutun haustlána á þessum grundvelli, sem ég þegar hef lýst, er nú í fullum gangi, eins og áður segir, er raunar að verða lokið, en heildarlánin, hver þau verða, hversu æskilegt sem það er að fá það upplýst strax, þá verður ekki unnt nú fremur en áður að slá því algerlega föstu fyrr en afgreiðslu fjárl. er lokið.

Vegna ummæla hv. 3. landsk. þm. vil ég láta það koma fram, að ég tel, að afskipti menntmrh. af málum Lánasjóðsins nú í haust hafi verið með ósköp venjulegum hætti. Leitað var samþykkis fyrir 100 millj. kr. lántökunni, þegar að því kom að fara að nýta hana og fá samþykki ríkisstj. fyrir því samkv. venju, og ríkisstj. afgreiddi það mál samdægurs á ríkisstjórnarfundi. Síðan skrifaði rn. lánastofnunum bréf, eins og líka hefur verið venja, en stjórn Lánasjóðsins tekur hins vegar lánin sjálf. Það fengust aðeins 50 millj. kr. á þennan hátt, og þá gekk hæstv. fjmrh. í það að tryggja afganginn og hét jafnframt 100 millj. kr. til greiðslu strax eftir áramótin, eins og ég hef raunar margtekið fram. Þetta tók allt sinn tíma, eins og við vill brenna í okkar margumtalaða kerfi, og það því fremur þá sem fé liggur nú enn siður á lausu, bæði hjá ríkissjóði og lánastofnunum, heldur en oft áður, því miður. En samt sem áður, ekki var lengra komið en fram í miðjan okt. þegar hægt var að hefja afgreiðslu lánanna.

Í þessu sambandi er einnig rétt að það komi fram, að fulltrúar námsmanna sögðu sig úr stjórn Lánasjóðsins þegar róðurinn þyngdist. Það er raunar þegar búið að geta um það áður á þessum fundi, en fulltrúar kjarabaráttunefndar hafa einu sinni komið á minn fund í haust að ræða þessi mál. Ég verð að segja það, að mér þykir það lítið í hlutfalli við þau fundáhöld námsmanna, sem fram hafa farið á sama tíma, og lítið miðað við allar aðstæður eins og þær eru í dag.

Ég vil svo að lokum aðeins segja þetta, herra forseti: Ég skal manna síðastur verða til að gera lítið úr erfiðleikum íslenskra námsmanna margra. Ég hef nokkuð kynnst högum þeirra í gegnum aðstöðu eigin barna og annarra skyldmenna sem hafa verið í langskólanámi á undanförnum áratugum. En það gagnar ekki heldur að líta fram hjá þeim örðugleikum sem nú eru á öflun fjármagns þegar saman fer hallarekstur hjá ríkissjóði og stórfelld skuldasöfnun erlendis. Framhjá þessu þýðir ekkert að líta. Ég vil því segja að við skulum sameinast um að leita lausnar á vandanum, bæði óhjákvæmilegri fjáröflun til starfsemi Lánasjóðsins á yfirstandandi skólaári og svo um að koma fram þeim lagabreytingum er tryggi stöðu Lánasjóðsins til frambúðar. Það er gífurlega mikið atriði, og það er okkur áreiðanlega öllum jafnljúft og skylt að stuðla að því að starfsemi Lánasjóðsins og allrar annarrar námshjálpar til íslenskra námsmanna geti náð þeim megintilgangi að tryggja efnahagslegt jafnrétti til náms, eins og stóð á sumum kröfuspjöldunum hérna úti á velli, því að þetta er það, sem allir vita að er meginverkefni þessarar námshjálpar, hvort sem hún er veitt á vegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þá í lánsformi ellegar hún er veitt á annan hátt, eftir annarri löggjöf.

Það er jafnan hollt að ræða vandamálin, og fsp.-tími Alþ. gefur að vísu takmarkaða möguleika til þess að brjóta mál til mergjar, þó að unnt sé að vekja athygli á áriðandi dagskrármálum og veita nokkrar upplýsingar um leið. En hér þarf auðvitað meira til en umr. í einum fsp.-tíma, svo að eðlilegt samstarf haldist með námsmönnum og stjórnvöldum. Mér líst ágætlega á þá hugmynd, sem fulltrúar námsmanna höfðu hreyft í gær við hæstv. fjmrh., hugmynd um að koma á opnum fundi um þessi mál með námsmönnum og þeim ráðh. sem einkum hljóta um þau að fjalla. Mér líst ágætlega á þessa hugmynd. En vitanlega þarf einnig og ekki síður og jafnframt að ræða málin nánar í þrengri hópum.

En það varðar mestu, segi ég aftur og enn, að þegar tveir eða fleiri, hér skulum við segja fjárveitingavaldið og námsmenn, standa andspænis stóru vandamáli, þá glími þeir við það í sameiningu og skiptist á upplýsingum og skoðunum.

Ljóst er af allra síðustu fréttum, sem við vorum m. a. að heyra í gær í fjölmiðlum og áður í þessari viku, um ríkisbúskap, um gjaldeyrisstöðu, um ástand fiskstofna, að það er ekki bjart fram undan í efnahagsmálum íslendinga og það eru því miður áreiðanlega litlar líkur til þess, að hver og einn fái óskir sínar uppfylltar til fulls. En því fremur ber okkur að leita allra leiða til þess að finna viðunandi lausn á hverjum vanda, svo í þessu máli sem öðrum vandamálum, sem að höndum ber.