18.12.1975
Neðri deild: 36. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

101. mál, verðjöfnunargjald raforku

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Ég veitti því athygli að hv. 1. þm. Suðurl., sem á þó að teljast allvanur þingstörfum eða ætti að vera búinn að læra þau eftir mjög langa þingsetu, tók að sér að ræða hér um nál. annars þm. áður en hann fékk tækifæri til að gera grein fyrir sínu nál. Þetta flokkast undir ókurteisi, en hv. 1. þm. Suðurl. telur sig víst hafa aðstöðu til þess að siða þá sem ekki hafa setið eins lengi á þingi og hann.

Hann fór einnig fram á, að það yrði gerð hér grein fyrir því hver hefði verið stefna m. a. vinstri stjórnarinnar í sambandi við samtengingu raforkukerfanna í landinu og þóttist þar ekkert vita um. Það mætti kannske benda honum á að það var í tíð vinstri stjórnarinnar sem samþ. var að leggja byggðalínuna margumtöluðu eða tengja saman Suður- og Norðurlandið. Það var auðvitað hafist handa um lagningu þessarar línu þó að það hafi staðið allverulega í núv. hæstv. ríkisstj. að koma henni í samband. Það hafði verið byrjað á þessari línu býsna myndarlega frá báðum endum, bæði frá Akureyri og vestur á bóginn og síðan aftur að sunnan og norður. En um þetta veit auðvitað hv. 1. þm. Suðurl. ekki nokkurn skapaðan hlut.

Hv. 1. þm. Suðurl. hefur auðvitað ekki heldur heyrt um það getið að það hafi verið samþ. hér yfirlýsing á Alþ. um að það var fyrst veitt heimild til þess að tengja saman Norðurland og Austurland með línu frá Kröflu og austur. En hann hefur auðvitað ekki heyrt neitt um þetta heldur.

Ég geri ráð fyrir að hv. 1. þm. Suðurl. hafi með því, sem hann sagði hér um þessi mál, óskað eftir því að hér gætu upphafist allmyndarlegar umr., m. a. af því að það er nægur tími til nú, um raforkumál og hvað gert hafi verið í þeim á undanförnum árum. Ég vil segja honum það, að ég hef nógan tíma til þess að ræða við hann um þessi mál og skal hreint ekki spara tímann ef hann vill vera með í þessum umr. En ég vil hins vegar undirstrika það að framkoma af því tagi, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. í þessum efnum í sambandi við þá afstöðu sem fulltrúi Alþb. í iðnn. hafði tekið í þessu máli, er býsna fágæt.

Það er rétt að við í Alþb. stóðum að því að verðjöfnunargjald var lagt á raforkusölu í landinu, m. a. til þess að tryggja að ekki þyrfti að verða meiri munur en verið hefur á raforkuverði á hinum ýmsu stöðum í landinu. En það kom skýrt fram hjá okkur að við töldum þetta vera bráðabirgðalausn og ætti að vinna að því að leysa þessi mál með öðrum hætti. Það var því fyllilega tímabært af fulltrúa Alþb. nú að minna á þessa yfirlýsingu okkar og benda á að tíminn hefur ekki verið notaður eins og ætlað var til þess að hyggja að því hvernig þessi mál yrðu leyst á bestan hátt.

Það er auðvitað enginn vafi á því að eina leiðin til þess að tryggja jafnt raforkuverð með eðlilegum hætti hvar sem er á landinu er að tengja saman hin mörgu og dreifðu raforkukerfi sem nú vinna yfirleitt hvert fyrir sig mjög sjálfstætt. Það er engin leið að leysa þessi mál svo að vel sé nema unnið sé að þessari stefnu. En það skipulag, sem m. a. hv. 1. þm. Suðurl. á kannske mestan þátt í að tekið var upp með setningu laga um Landsvirkjun, hefur beinlínis unnið gegn því að litið væri á landið sem heild í raforkumálum. Við vitum að skipulag Landsvirkjunar er með þeim hætti að þar er ákveðinn hluti landsins tekinn út úr, sá hluti landsins sem stóð best að vígi í raforkumálum, og gerður að sérstöku raforkusvæði, viðskila við önnur raforkusvæði í landinu, og m. a. af því að þetta skipulag var tekið upp stöndum við frammi fyrir þeim margvíslegu vandamálum sem við stöndum frammi fyrir nú þegar rætt er um framkvæmdir í raforkumálum og þegar rætt er um það hvernig á að tryggja öllum landshlutum sömu aðstöðu til raforku og sams konar verð.

Það hefur verið minnt á það að undanförnu að nú eru margir aðilar sem standa að undirbúningi í sambandi við ný raforkuver og verður ekki séð að þeir hafi nema mjög takmarkað samband sín á milli. Það er enginn vafi á því að það skipulag, sem tekið var upp með landsvirkjunarlögunum, er mjög óheppilegt þegar lítið er á þessi mál í heild. Og það er ótrúlegt að það skipulag fái staðist lengi eftir að samtenging hefur átt sér stað á milli helstu raforkuframleiðslusvæðanna í landinu. En það væri ákaflega fróðlegt að heyra það hér hjá hv. 1. þm. Suðurl., sem á löngu tímabili var ráðh. raforkumála, hvaða hugmyndir hann hefur í þessum efnum, að hverju hann vill stefna varðandi uppbyggingu raforkumálanna í landinu, m. a. til þess að tryggja jafnt raforkuverð. Vill hann hafa sölusvæðin mörg og framleiðslusvæðin mörg, rekin af mörgum aðilum og mismunandi aðilum, og fara svo þá leið að leggja á sérstakt verðjöfnunargjald til þess að reyna að ná því marki að landsmenn geti búið við svipað raforkuverð, eða vill hann hverfa frá slíku verðjöfnunargjaldi með því að breyta skipulagi Landsvirkjunar þannig að Landsvirkjun standi undir nafni, hún verði virkjunarsvæði fyrir allt landið, það verði hennar verkefni að leysa raforkumál í öllum landshlutum og tryggja mönnum þar bæði næga raforku og raforku með hliðstæðu verði? Þetta er vissulega ágætt efni til þess að ræða hér um þegar nægur tími er til að halda hér uppi umr.

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að eðlilegasta skipulagið í raforkumálum okkar væri að við lítum á landið sem eitt raforkuframleiðslusvæði og ynnum skipulega að því að tengja svæðin saman, miðuðum svo okkar virkjunarframkvæmdir við það, sem hagstæðast er á hverjum tíma, og tryggðum öllum landsmönnum raforku við sama verði. En til þess að ná þessu marki þarf tvímælalaust að breyta lögum um Landsvirkjun og það þarf að breyta þeirri stefnu sem hér hefur verið tekin upp. Og þá á auðvitað að breyta því hlálega fyrirkomulagi sem gildir í sambandi við Landsvirkjun að þar séu íslenska ríkið og Reykjavíkurborg lögð algerlega að jöfnu sem jafnréttháir aðilar að því mannvirki og að þeirri stofnun. En eins og kunnugt er, þá er það skipulag ríkjandi í sambandi við Landsvirkjun að íslenska ríkið annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar eru nákvæmlega jafnréttháir aðilar og hefur þar hvor fyrir sig neitunarvald ef því er að skipta, bæði varðandi stækkun starfssvæðisins og annað sem varðar rekstur raforkumála á vegum Landsvirkjunar. Jafnræðið er svo mikið samkv. lögunum að þegar velja átti oddamann í stjórn Landsvirkjunar, þá átti auðvitað hvorugur þessara aðila að hafa rétt til þess að tilnefna oddamanninn, hvorki íslenska ríkið né Reykjavíkurborg, heldur var ákveðið í lögunum að það skyldi vera Hæstiréttur sem tilnefndi oddamann. Þetta var það skipulag sem hv. 1. þm. Suðurl. stóð hér sérstaklega fyrir að koma á með svo þeirri reynslu sem við höfum fengið af þessu skipulagi.

Það er svo auðvitað í samræmi við þetta, að þegar við nú í dag erum að fá upplýsingar frá ríkisstj. um fyrirhugaðar lántökur á næsta ári erlendar lántökur, þá er gerð glögg grein fyrir því til hvers íslenska ríkið ætlar að taka lán og í hvað það fjármagn á að fara, í hverja einstaka framkvæmd, en svo er sagt í einu lagi og með smáu letri neðanmáls: Þar að auki er svo Landsvirkjun — hitt ríkið — og hún ætlar auðvitað að taka lán upp á talsvert mikið á fjórða milljarð og þarf ekki að gera neinum reikningsskap fyrir því.

Ég held að þessu skipulagi þurfi að breyta og það sé í rauninni eina leiðin til þess að hægt sé að komast út úr verðjöfnunargjaldsfyrirkomulaginu og að raunveruleg Landsvirkjun taki svo að sér það verkefni að tengja saman hin ýmsu raforkusvæði í landinu og líti á það sem verkefni sitt í heild að tryggja landinu öllu næga raforku og raforku með jöfnu verðlagi.

Af því að ég hef mikla löngun að heyra í hv. 1. þm. Suðurl. um þessi mál, þá skal ég ekki ræða þetta mál meira í bili. En eins og ég hef sagt honum og mér fannst hann gefa tilefni til með þeirri einkennilegu ræðu, sem hann flutti í sambandi við þetta mál sem við héldum að væri samkomulag um, þá er ég sem sagt mjög viljugur til þess að taka hér upp langar viðræður við hann um skipulag rafmagnsmála og allt sem þessum málum tilheyrir. Og nú bíð ég aðeins eftir því að fá að heyra ræðu hans næst.