18.12.1975
Neðri deild: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 204 var flutt frv. til l. um breyt. á l. um fjáröflun til vegagerðar. Við meðferð málsins í hv. Ed. varð niðurstaðan sú að hv. fjh.- og viðskn. flutti nýtt frv. í samkomulagi og í samráði við mig. Það frv. er á þskj. 204 og er hér til 1. umr. Í því frv. felst að breytt er einni gr. í lögum um fjáröflun til vegagerðar, þar sem þungaskatti greiddum til ríkissjóðs er breytt og grunntalan færð úr 42 þús. í 70 þús. kr. Gert er ráð fyrir að hækkun sé fyrir hver 200 kg fram yfir 2 tonn og enn fremur að af bifreiðum, sem ekið er gegn gjaldi, sé greitt hærra gjald sem nemur 30%.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. Það er fyrst og fremst verið að breyta þungaskatti greiddum til ríkissjóðs. Í frv. því, sem flutt var í Ed., var lagt til að gjaldið yrði örlítið hærra, en eins og ég gat um áðan varð samkomulag á milli mín og hv. fjh.- og viðskn. Ed. að nefndin flytti það frv. sem hér er til umr.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.