22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr., enda hafa allir málavextir komið skýrt fram.

Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir aðalefni ræðu hans sem var jákvætt í garð málstaðar námsmanna, og ég met það þeim mun meir sem það er alkunna að hann er áhrifamikill stuðningsmaður núv. hæstv. ríkisstj.

Varðandi ummæli hans um nauðsyn þess að endurskoða gildandi lög og reglur um Lánasjóðinn, þá vil ég aðeins ítreka það, sem áður hefur komið fram í umr., að námsmenn sjálfir hafa lagt áherslu á að sú endurskoðun fari fram og henni verði lokið sem fyrst.

En aðalerindi mitt í ræðustólinn var að láta í ljós mikil vonbrigði yfir ræðu hæstv. menntmrh. Hann varð því miður ekki við óskum okkar þriggja þm., sem talað höfðum á undan honum, um að gefa jákvæða yfirlýsingu um að gerð yrði úrslitatilraun til að rétta hag námsmanna og bæta úr þeim rangindum sem verið er að fremja gagnvart þeim. Því miður gaf hann ekkert fyrirheit um það í sinni ræðu, að slíkt mundi verða gert. Þótt undarlega kunni að hljóma, er það hið eina jákvæða við þessar umr., að því er varðar hæstv. ríkisstj., að hæstv. fjmrh. skuli hafa þagað, og það vona ég þrátt fyrir allt að þýði að endanlegt nei sé ekki upp kveðið við fullkomlega réttmætum óskum námsmanna.