18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli hv. þm. Helga F. Seljans að við nm. félmn. vorum þakklátir formanni n. hve ítarlega hann fór í frv. á nefndarfundi í morgun og kallaði þar til ýmsa okkur til leiðbeiningar. Samkvæmt þeim viðræðum, sem þar fóru fram, virtist mér ljóst að ekki væri um umtalsverða andstöðu stjórnarmanna Sambands ísl. sveitarfélaga að ræða gegn frv. ef treysta mætti því að tilteknum skilyrðum yrði fullnægt, og hafa þau skilyrði hér verið tilgreind bæði af frsm. meiri hl. n. og minni hl. n. og ég fer ekki út í það. Andstaða mín við þetta frv. byggist þess vegna ekki svo mjög á því að ég sé mótfallinn gleggri skiptingu á verkefnum milli ríkis og sveitarfélaga, nema síður sé, heldur er það fyrst og fremst sú stefnumörkun sem felst í 5. gr. frv. og fjallar um byggingu og rekstur dvalarheimila aldraðra. Atkvæðin eru núna þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„7. gr. Nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkvæmt lögum þessum, og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“

Þessi liður á samkv. frv. alveg að falla niður. M. ö. o.: það á að losa ríkið við framlög til byggingar og búnaðar á elliheimilum. Það er þetta sem ég er algerlega andvígur. Þetta mál tel ég svo viðamikið að sveitarfélög geti aldrei leyst það vel af hendi ein, heldur verði aðstoð ríkisins að koma til. Það er að vísu rétt sem frsm. meiri hl. n. benti á, að þátttaka ríkisins hvað upphæð snertir er ekki tekin fram í lögunum, en það er þá aðeins hlutur sem þyrfti að búa betur í stakk heldur en enn hefur verið gert, en ekki að fella þátttöku ríkisins niður eins og ætlað er með þessu frv. Að minni skoðun er aðbúðin að öldruðu fólki nátengd þjónustugrein við sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og dagvistunarheimili. Í stofnkostnaði og búnaði þeirra tekur ríkið stóran þátt, og það á ekki og má ekki skjóta sér undan því að taka þátt í aðbúnaði aldraðs fólks.

Eins og við vitum vel hafa þjóðfélagslegar breytingar valdið því að aðbúnaður aldraðs fólks og öryrkja hefur flust og hlýtur að flytjast æ meir frá heimilum til samfélagsins. Samfélagið þarf, ef vel á að vera, að búa þeim þegnum heimilishjálp sumum, öðrum dagvistunarheimili vegna þess að heimili standa mannlaus allan daginn þar sem allir, sem geta unnið, vinna úti og það þarf að byggja íbúðir sem henta öldruðum og öryrkjum. Það þarf einnig að byggja dvalarheimili fyrir stóran hóp aldraðs fólks og öryrkja sem ekkert framannefnt hentar. Ég verð alveg sérstaklega að gera þetta ofurlítið að umtalsefni vegna þess að ég hef heyrt þeirri skoðun haldið talsvert á lofti nú í seinni tíð að það sé röng stefna að byggja dvalarheimili fyrir aldrað fólk, það eigi að hlúa meira að heimilisaðstoð og byggja hentugar íbúðir fyrir aldrað fólk. Ég er því algjörlega fylgjandi, en við komumst ekki hjá að byggja líka dvalarheimili, því að margt aldrað fólk er þannig sett að það getur hvorki notað sér heimilishjálpina né litlu íbúðirnar. Þetta er risavaxið verkefni sem óefað leggst með auknum þunga á samfélagið um næstu framtíð vegna breyttra þjóðfélagshátta, eins og ég sagði áðan, en líka vegna hækkaðs aldurs fólks vegna bættrar heilbrigðisþjónustu og aukinnar læknishjálpar. Af þessum sökum öllum tel ég ofætlun og raunar fráleitt að leggja þessi verkefni einhliða á sveitarfélögin, sum getulítil, önnur kannske undir stjórn skilningstregra manna á þessi vandamál. Hér tel ég afdráttarlaust að ríkið eigi að bera sinn hluta, m. a. vegna þess hve aldrað fólk leitar af eðlilegum ástæðum til þéttbýlisstaðanna að loknu ævistarfi, og verði þjónustan við það eingöngu lögð á herðar sveitarfélaganna hlýtur þungi þeirrar þjónustu að koma fyrst og fremst niður á stærstu kaupstöðunum.

Vegna framangreindra ástæðna allra, eins og ég hef rakið þær hér, er ég á móti þessu frv. eins og það liggur fyrir og hlýt að greiða atkvæði gegn því.