18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég sagði við 1. umr. um þetta mál að flutningur verkefna milli sveitarfélaga er margþættur. Áhrifin eru ýmis önnur en eingöngu þau að lækka fjárlög ríkissjóðs um nokkrar krónur. Í raun er stigið ákaflega alvarlegt spor í þróun sem er margra ára hér hjá okkur, að reyna að jafna mun á milli þeirra, sem eru stórir og sterkir, og þeirra, sem eru litlir og veikir. Ég varaði við þessu og ég taldi að í því frv., sem nú liggur fyrir, væri þessa ekki gætt eins og skyldi. Ég lagði fram ýmsar spurningar til ráðh., og ég sagði að afstaða mín til þessa máls mundi ráðast af svörum við þeim spurningum. Hæstv. ráðh. svaraði mörgum þessum spurningum vel og ég kann honum þakkir fyrir. Í morgun var fundur í félmn. Þar voru mættir gestir, m. a. framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég lagði svipaðar spurningar fyrir hann. Hann svaraði þeim einnig af bestu samvisku og bestu þekkingu.

Ein af mínum spurningum til ráðh. og einnig til framkvæmdastjórans var sú, hvort niðurstöður lægju fyrir um áhrif þessa flutnings á verkefnum á hin ýmsu sveitarfélög af mismunandi stærð og við mismunandi aðstöðu. Svarið var það, því miður, að það væri ekki. Þetta urðu mér sannarlega vonbrigði.

Ég spurði einnig um Jöfnunarsjóð og hvort framkvæmdastjórinn teldi að Jöfnunarsjóður gæti jafnað þann hlutfallslega ójöfnuð sem kann að hljótast af þessum flutningi, því að ég viðurkenni að ég er ekki nógu dómbær á það. Ég hef ekki fengið að sjá þennan samanburð, hann er víst ekki til. Framkvæmdastjórinn telur að svo sé. Hann telur að Jöfnunarsjóður fái um 125 millj. kr. í þessu skyni og það eigi að nægja. Hins vegar lýsti hann mikilli óánægju með framkvæmd á slíkum jöfnuði til þessa og telur að yfirleitt hafi slíkt fjármagn runnið til fárra sveitarfélaga. Ég þekki þetta raunar af eigin reynslu. Ég hef leitað til Jöfnunarsjóðs fyrir lítil sveitarfélög, og ég hef fundið að þar eru ótrúlega mörg ljón í veginum. Þar er t. d. þess krafist að sveitarfélagið nýti alla sína álagningarmöguleika til hins ítrasta. Þetta er kannske ekki óeðlileg krafa. En þess ber þó að gæta, að til eru þau lítil sveitarfélög, litlir sveitahreppar, sem alls ekki veita þá þjónustu sem bæjarfélögin veita, þau leggja ekki vatnsveitur, leggja ekki götur, þau hirða ekki sorpið og margt fleira og hafa þess vegna enga ástæðu til þess að leggja á full gjöld og varla hægt að krefja þau um það, fyrst þau veita ekki sömu þjónustu. Það er því ljóst að þessi sveitarfélög, ef þessi regla á að gilda, nytu ekki framlags úr Jöfnunarsjóði vegna þessara tilflutninga nema þau leggi á full gjöld. Þau eru þar með krafin þess að fara til sinna íbúa og krefja þá um greiðslu fyrir viðhald skóla og fleira sem ríkið hefur til þessa greitt. Nú kann einhver að segja að vitanlega eigi þessi sveitarfélög að nota sínar heimildir til hins ítrasta, en ég bið þá hina sömu að huga að því að þessi sveitarfélög, eins og ég sagði, veita alls ekki sömu þjónustu.

Einnig hef ég fundið að gerðar eru mjög ákveðnar kröfur um það að í reikningum sveitarfélaga séu ekki gjaldaliðir sem eru tengdir framkvæmdum, þeir eru dregnir þá frá, og ég get vel séð í huga mér að í því sambandi skapast ýmsir erfiðleikar.

Ég spurði einnig framkvæmdastjórann að því, hvort hann teldi liggja mikið á þessu. Ég var satt að segja svolítið hissa að hann sagði nei, hann teldi lítið liggja á þessu. Hins vegar kom fram að um þetta eru skiptar skoðanir hjá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, sumir telja liggja mikið á þessu, aðrir telja það ekki, en þetta virtist mér vera skoðun framkvæmdastjórans.

Ég hef rakið þessi svör og ætla nú að koma að öðrum þáttum, m. a. að því sem er nú komið inn í þetta nál. En ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég sakna ráðh., því að ég vil gjarnan fá að leggja fyrir hann nokkrar spurningar í þessu sambandi. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að ráðh. gangi í salinn.) Þá mun ég bíða á meðan.

Já, hæstv. ráðh. er genginn í salinn. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég hef sagt. Þó vil ég skýra hæstv. ráðh. frá því að ég lagði fram svipaðar spurningar við framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og ég gerði við 1. umr. um þetta mál, og ég vil skýra hæstv. ráðh. frá því að framkvæmdastjórinn upplýsti að samanburður væri ekki til á áhrifum þessa flutnings á einstök sveitarfélög. Sömuleiðis kom fram hjá framkvæmdastjóranum að hann teldi að aðrar reglur yrðu að gilda um framlög úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna en nú gilda. Það kom einnig fram, að hann teldi að meiri jöfnuður væri nauðsynlegur með auknu hlutfalli tekna sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði heldur en nú er. Og ég vil einnig skýra hæstv. ráðh. frá því, að þarna kom fram að mjög margir sveitarstjórnarmenn telja, að ekkert liggi á þessu, og setja í raun og veru traust sitt frekar á þá nefnd sem hæstv. ráðh. hefur lýst yfir að hann muni skipa, og þeir fagna því. Allt er þetta að mínu mati neikvætt fyrir þetta mál og raunar styður að því að standa ekki að framgangi þess.

Ég get líka bætt því við, og það vildi ég fyrst og fremst að hæstv. ráðh. hlustaði á, að ég er ákaflega óánægður með þá málsmeðferð sem hér hefur komið fram, ekki f þessu einu, heldur fjölmörgum málum. Ég verð því miður að taka undir með stjórnarandstöðunni um það. Það er bókstaflega óverjandi að fá hér inn á hv. Alþ. mál eftir mál á síðustu stundu, verr og verr undirbúin með hverju ári, — stórmál, tilfinningamál, mál sem eru viðkvæm fyrir fjölmarga aðila í þessu landi, og eiga að flaustra þeim af á örfáum dögum. Þetta er bókstaflega óverjandi, og ég verð að lýsa því yfir að ég er bókstaflega að gefast upp á þessu. Ég vænti þess að breytt og betri vinnubrögð verði upp tekin. E. t. v. hefur þetta meiri áhrif á afstöðu mína til mála en jafnvel nokkuð annað. Þó er ég að leitast við og menn leitast við í þessu máli að taka málefnalega afstöðu. En þetta er algjörlega ófært. Hver er ástæðan fyrir því að ekki er unnt að leggja svona mál fram þegar í okt.? Og það eru fjölmörg fleiri mál hér sem koma á síðustu stundu. Hvers vegna er ekki hægt að leggja þau fram með góðum fyrirvara? Hvað eru starfsmenn stjórnarráðanna að gera? Var ekki ljóst þegar í vor að herða þyrfti að í fjárlagagerð? Var ekki ljóst þá þegar að flytja þyrfti ýmsa lagabálka? Kom það ekki fram í ræðu hæstv. fjmrh.? Ég kann ekki við slík vinnubrögð, og ég vil að það komi hér fram.

Um þetta mál vil ég segja að síðan ég sá þetta mál fyrst fyrir e. t. v. tveimur vikum eða svo, þá hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar, breytingar stórlega til bóta sem hins vegar lýsa lélegum undirbúningi málsins fyrir. Menn hafa hér unnið að því að bæta þetta mál. T. d. hefur stofnkostnaður dagvistunarheimila verið tekinn út, það mega menn gjarnan vita, akstur skólabarna verið tekinn út. Þetta er hvort tveggja í mínum huga mikilvægir bættir. Ég var sannfærður um það, þegar ég sá málið í upphafi, að hér væri stefnt að stórlega auknum ójöfnuði á milli sveitarfélaga, ákaflega hættulegum ójöfnuði á milli sveitarfélaga. Ég gat reiknað það út fyrir ýmis sveitarfélög sem ég þekki að svo var. Hins vegar skal ég viðurkenna að eftir þær breytingar sem nú hafa verið gerðar fyrir áhrif ýmissa manna hér á þingi, er mér þetta ekki eins ljóst. Ég held að málið hafi stórlega batnað að þessu leyti. Ég held að það sé nær jöfnuði. Og ég vil virða þær breytingar sem þarna hafa verið gerðar á síðustu stundu.

Ég er sérstaklega óánægður með að fá ekki þann samanburð sem ég bað um. Ég taldi hins vegar að e. t. v. mætti laga þetta með því að setja inn í frv. sjálft ákvæði til bráðabirgða þess efnis að sú hlutfallslega byrði, sem á sveitarfélögin leggst af þessum flutningi, yrði jöfnuð með framlagi úr Jöfnunarsjóði að fengnum till. stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Og ég vil tala hér í fullri hreinskilni að um það náðist ekki samkomulag. Það er af þeirri ástæðu að ýmsir menn töldu þess ekki þörf. Þeir telja að í lögum um Jöfnunarsjóð séu ákvæði sem tryggi þetta. Ég lýsti áðan minni reynslu af því. Ég er efins um það.

Ég vil segja það einnig hér, að ég var ákveðinn í að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Ég vildi ekki setja fótinn fyrir það, vegna þess að ég veit að sveitarfélögin — ég vil taka það fram að ég hef rætt við marga sveitarstjórnarmenn og ég heyri það á ýmsum — þann vilja að fá þessa breytingu. Ég heyri það á ýmsum sem ég hef rætt við um þetta í síma, því að ákaflega fáir hafa haft tækifæri til þess að skoða þetta, að þeir telja að þetta sé í þá átt sem þeir hafa samþykkt. Ég hef áður lýst því yfir að ég tel hreinni verkaskiptingu á milli sveitarfélaga og ríkisvalds nauðsynlega. Það er allt of óljóst eins og er. Eins og hæstv. ráðh. hefur réttilega sagt, þarf þar að fylgja ábyrgð hverri framkvæmd. Að þessu finnst mér stefnt með þessu frv., og þrátt fyrir þá annmarka, sem ég sé á þessu máli, og þrátt fyrir þær athugasemdir, sem ég hef nú gert, og þegar ég reyni að meta þetta mál eingöngu frá málefninu sjálfu og án tillits til undirbúnings og annars, sem ég hef hér gagnrýnt, þá fagna ég sérstaklega tvennu: fyrst og fremst því, sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðh., að hann mun skipa samstarfsnefnd til þess að vinna að frekari athugun á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingu og skiptingu verkefna, og auk þess hef ég sérstaklega undirstrikað það, sem ég sé að nú er komið inn í nál. Félmrh. hefur lýst því yfir, að einstökum sveitarfélögum, sem kynnu að bíða fjárhagslegt tjón af ákvæðum þessara lagabreytinga, verði veitt aukaframlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að fengnum tillögum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta er nánast orðrétt það sem ég var með í huga og þótt ég hefði heldur viljað fá þetta inn í frv. sjálft, þá þekki ég hæstv. ráðh. að því að standa við orð sín, og mér finnst ég ekki geta lagst gegn þessu að fenginni þessari yfirlýsingu. Mér finnst að með því væri ég að segja að hæstv. ráðh. sé ekki treystandi til að framkvæma það sem ég hef beðið um. Ég mun með tilliti til þessa greiða atkv. með þessu frv., en legg ríka áherslu á að sú endurskoðun, sem fram á að fara af þeirri nefnd sem skipa á, verði hraðað.