18.12.1975
Efri deild: 38. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., a. m. k. ekki á þessu stigi, en hefði e. t. v. sagt nokkur orð á morgun við lokaafgreiðslu fjárlaga um þessi atriði. En ég finn mig til knúinn vegna endurtekinna ummæla hv. 2. þm. Vestf. um þann ójöfnuð sem kann að myndast milli stórra og lítilla sveitarfélaga og mér skilst að hann óttist að minni sveitarfélög séu þar í einhverri sérstakri hættu fram yfir þau stærri. Ég leyfði mér að segja við hann, þegar hann kom úr ræðustól hér í gær um þetta mál, að hann hefði talað eins og hann væri að gefa til kynna að næsta skref hans væri að koma með tillögu um að einhver smærri sveitarfélög, sem hefðu 500 íbúa eða færri, yrðu sett á nokkurs konar framfæri þeirra stærri, og þá hefur hann eflaust átt við Reykjavíkurborg eins og oft áður. En mér skilst að hann vilji jafna á milli sveitarfélaga. Samkvæmt því, sem hann sagði hér í ræðustól áðan, þá reikna ég með að hann vilji jafna á milli þeirra sveitarfélaga, sem standa í miklum framkvæmdum, og þeirra, sem standa í minni eða engum framkvæmdum, úr Jöfnunarsjóði. Ég vona að hv. 2. þm. Vestf. gefist ekki upp, hvorki á vinnubrögðum ríkisstj.Alþ., og haldi áfram af sama krafti og streymdi frá honum áðan.

Verkefnaskipting ríkis og sveitarfélaga er nauðsynleg og allir sveitarstjórnarmenn eru sammála um það. En það er kannske á öðru sviði sem ég hefði gjarnan viljað sjá hér breytingu á í verkefnaskiptingu eða ákvörðunum til handa sveitarfélögum um sín eigin málefni, og á ég þá fyrst og fremst við ákvarðanir um gjaldskrár þjónustufyrirtækja og stofnana. Ég vil gjarnan fá fram breytingar í þá átt að komið sé í veg fyrir að kjörnum fulltrúum fólksins á hverjum stað, sveitarstjórnarmönnum, sé fjarstýrt af ríkisstj. eða úr stjórnarráðunum í sambandi við gjaldskrárákvarðanir. Slíkum fjarstýringum álít ég að þurfi að hætta. Ég skal ekki koma með það mál inn í þessar umr. frekar. Það er nýtt atriði í málinu sem gerir ekkert annað en að tefja.

Ef miðað er við tekjuáætlun af söluskatti, eins og hún hefur legið fyrir, þá er gert ráð fyrir samkv. grg. með frv. að tekjuaukning sveitarfélaganna af þessari breytingu verði um það bil 600 milli. kr. á árinu 1976. Það var gerð athugasemd við það, og tekjuáætlunin, eins og hún liggur fyrir, hefur verið réttari, skilst mér, 570 millj. en 600, og þar af má draga skerðingu sem er 12%: 5% til Lánasjóðs sveitarfélaga, 5% í varasjóð, 1% til Sambands ísl. sveitarfélaga og 1% til landshlutasamtaka sveitarfélaganna, áður en til úthlutunar kemur. Úthlutunarfé er þar af leiðandi ekki 600 millj., heldur 504 millj. Til upplýsingar get ég upplýst að hlutur borgarsjóðs, til þess að taka þá þann stærsta, yrði um 196 millj., miðað við 8% af 6 söluskattsstigum. Nú er þetta breytt og í staðinn fyrir 6 söluskattsstig eru 8% tekin af söluskattsstigum. Þetta þýðir að Reykjavíkurborg yrði, án þess að ég fari að rekja hér lið fyrir lið þá kafla sem frv. getur um, að taka á sig viðbótargjöld sem svara 209.3 millj., en tekjuauki borgarsjóðs yrði 178.9 millj. kr. Þarna er 30.4 millj. kr. mismunur.

Ég ætla ekki að rekja þetta neitt lengra, en bara með þessum fáu orðum vil ég svara hv. 2. þm. Vestf. því, að Reykjavíkurborg sem einn af þeim stóru, sem hann óttast að fari best út úr þessu og komi kannske ríkari en eðlilegt væri út úr þessari uppstokkun, er ekki aflögufær, og ég gæti trúað að eins væri með önnur stærri sveitarfélög.