18.12.1975
Efri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Svo mikið liggur á að koma þessu máli í gegn að það er búið að boða okkur á fund strax á eftir í fjh.- og viðskn., áður en búið er að vísa málinu til okkar. Ég var að undirstrika það rétt áðan í ræðu minni, er viðkom öðru máli, að æskilegt væri að vinnubrögð hæstv. ríkisstj. skánuðu lítils háttar, og undirstrikaði það einnig, að svo langt væri orðið gengið í þessu að einn af oddvitum í stuðningsliði ríkisstj. ávítaði hæstv. félmrh. fyrir lélegan undirbúning mála og allan framgang hér á Alþ.

En þeir láta sér ekki segjast, þessir ágætu herrar, svo að það væri langréttast að tala hér í nokkra klukkutíma um efnahagsmálin og framvindu hjá hæstv. ríkisstj. og flýta sér hvergi í því efni, vita hvort menn vildu ekki eilítið taka tillit til stjórnarandstöðunnar.

Hér kom bókstaflega ekki neitt fram í sambandi við þessi mál í framsöguræðu hæstv. fjmrh. sem máli skiptir, og engin leið er að fá það fram á nefndarfundi um miðja nótt — ekki nokkur minnsti möguleiki. Það er ekki hægt að kalla til nokkurn embættismann á einn eða annan veg.

Ég þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann, en ég man eftir því að hæstv. forsrh., sem er nú ekki viðlátinn í d., hélt hér langa ræðu í tíð vinstri stjórnar og taldi það ósvinnu mikla er hann fann það út að stefnt væri að um 13% byrði vegna erlendrar lántöku sem hún ætlaði að stofna til — talaði um það langt mál.

Það væri nú ekkert úr vegi í sambandi við svona mikla lántöku að hv. Ed. a. m. k. fengi hugmynd um hvað þetta þýddi á næsta ári í greiðslubyrði í hlutfalli af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og nánari sundurliðun, því að eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. var skýrsla um þessi mál lögð fyrir okkur hér á Alþ. í dag. Þó höfðum við fáeinir menn séð hana ljósritaða með mjög smækkuðu letri, og var það hliðstætt við annað gengissig í landinu að letrið var svo smátt að jafnvel held ég að sumir hafi gefist upp við að reyna að lesa það nema þá í gegnum stækkunargler.

Hér eru engin smámál á ferðinni. Það þarf að taka á annan tug milljarða að láni. Því var lofað að lánsfjáráætlun skyldi lögð fyrir Alþ. fyrir lok fjárlagaafgreiðslu ár hvert og er það lofsvert út af fyrir sig. En það stendur rétt á endum, að verið er að afgreiða fjárlög og þessi mál eru tekin fyrir um miðja nótt. Það má segja að staðið sé við loforð, en naumt er það og skellur hurð nærri hælum í því efni. Þó hafa ýmsir stórir fjallað hér um og samið þessa skýrslu. En það virðist hafa tekið þá langan tíma að komast að niðurstöðu sem við hv. alþm., a. m. k. stjórnarandstaðan, fengjum að sjá og fylgjast með í því efni. Það er gott út af fyrir sig að sjá þetta í heilu lagi og er sérstakt átak sem ber að þakka og virða. En svo mikið er nú orðið um stofnanir er fást við athugun á framgangi mála, reikningsheila og allt það dót, að varla ætti það að undra þó að heilleg niðurstaða lægi nú loksins fyrir um fjármál ríkisins og lántökur og fjármagnsþarfir, hreyfingu og greiðslubyrði og skyldi ekki þurfa að þakka neinum það sérstaklega.

Í II. kafla í þessari skýrslu segir:

„Helstu markmið ríkisstj. í efnahagsmálum á næstunni eru, eins og fram kom í stefnuræðu forsrh.: 1) Að draga verulega úr viðskiptahallanum við útlönd strax á næsta ári. 2) Að hægja mikið á verðbólguhraðanum frá því sem verið hefur á þessu ári.“

Í fyrstu ræðu sinni boðaði hann stefnumarkið 1.5%. Nú er líklega fokið yfir það á haustmánuðum þó að ekki séu miklir snjóar og það týnt og grafið. En vonandi grefst það upp með vorinu og sést þá hversu haldgóð loforðin eru.

Í þriðja lagi segir: „Að tryggja fulla atvinnu.“ Hvernig er nú hægt að standa við það eins og ástandið er nú og boðskapurinn í þessu öllu er feikilega aðhaldssöm fjármálastefna. Það er þó staðreynd að ekki hefur ríkt skynsamlegt mat í því efni, hvernig því skorna fjármagni, sem til er hefur verið úthlutað, og dæmi ég það eftir því að mjög mörg atvinnufyrirtæki í frumstarfsemi eru á heljarþröminni með greiðslu vinnulauna. Nú erum við komin fram á föstudag 19. des. anno domini 1975 og mér segir svo hugur um, að á morgun berjist margir forsvarsmenn atvinnufyrirtækja nærri vonlausri baráttu til þess að tryggja að þeir geti borgað vinnulaunin út kl. 3:34 á morgun. Það kom nýlega fram hjá stórum samtökum, er þjóna undirstöðuatvinnuvegi hér, þ. e. a. s. sjávarútvegi og fiskvinnslu, að skuld þessara aðila við þessa einu þjónustugrein var um 1.3 milljarðar kr., og hér skiptir litlu máli þó að grimmsterkt fyrirtæki eigi í hlut. Þeir fá ekki keyptan víxil jafnvel upp á 100–200 þús. kr., og það er næstum því að mennirnir eigi að borga starfsfólkinu af engu eða taka féð úr loftinu.

Frá Fiskveiðasjóði hefur komið sá boðskapur að draga verði verulega úr fyrra hlutfalli í sambandi við nýsmiði og margt annað. Það getur vel verið að í þessari skýrslu komi rækilega fram það sem Fiskveiðasjóður áformar sér á næstunni í því efni, en ekkert svigrúm hefur unnist til þess að fara gaumgæfilega í gegnum það. En hitt veit ég og margir þm. hafa séð að forsvarsmenn skipasmiðaiðnaðarins hafa verið bæði hér í þingsölum og ég hef heyrt af því að þeir hafi verið annars staðar einnig og sótt mjög fast á að hér væri sett upp eitthvert ákveðið skipulag, en ekki tilkynnt skyndilega eftir einn fund í stjórn Fiskveiðasjóðs að niður væri skorið um fast að helming frá því sem verið hafði áður, því að slík ákvörðun, ef við hana er haldið, þýðir rothögg fyrir marga aðila — ekkert annað, og þeir skafa ekkert utan af því. Það er hreint rothögg og þess vegna er tilgangslaust að koma með svona samþykkt ef á að halda við eitt af grundvallarsjónarmiðum þessarar ríkisstj. að hafa fulla atvinnu í landinu.

Þrátt fyrir mikil áform um stórkastlegar lántökur, bæði erlendis og innanlands, kemur í ljós að óskir fjárfestingarsjóðanna eru langt umfram það sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það hefur jafnan verið svo að óskir manna um fjármagn hafa verið langt ofan við það sem hægt er að fullnægja og standa við, og kannske ekki heldur æskilegt að láta undan öllum óskum til þess að halda jafnvægi á efnahagssviðinu.

Eitt er athyglisvert í sambandi við þessi mál og því ber að fagna að nú hefur ráðstöfunarbært fé frá lífeyrissjóðunum aukist og því er gert ráð fyrir að þeir muni lána hærra hlutfall en verið hefur í mörg ár. Tel ég það rétt og mætti stefna að enn hærra hlutfalli, allt að annarri hverri krónu, í gegnum þessa lánasjóði. Ég tel að það væri mikil bót til þess að hafa jafnvægi í efnahagsmálum okkar og koma málum betur fyrir með þeim hætti.

Frv. sjálfu fylgir engin grg. þótt um stóra tölu sé að ræða svo að við verðum að líta á sundurliðun í sambandi við þessa lántöku í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 197-6. Hæstv. fjmrh. sagði að hún yrði rædd eða grein fyrir henni yrði gerð við 3. umr. fjárlaga á morgun. En þá verður tíminn naumur til einhvers á morgun ef ræða á þessi mál þá einnig.

Ég vildi mega óska eftir því að heyra það nú af hálfu hæstv. fjmrh. hver greiðslubyrði ríkissjóðs hafi verið í ár af erlendum lántökum, vöxtum og afborgunum, og að hverju er stefnt á næsta ári. Ég vona að einhver stuðningsmaður hæstv. ráðh. komi þessu til skila, því að ég fer nú ekki að stöðva ræðu mína og óska eftir því að einhver ráðh. virði okkur svo mikils í stjórnarandstöðunni að hlusta á okkur. Þeir hafa ekki sýnt okkur þann heiður undanfarna klukkutíma og vart hægt búast við að þeir geri það um miðjar nætur. En fari svo að þeir nenni ekki að hlusta á þessi orð né svara mér, þá stig ég aftur í stólinn og þá lengjast aðeins umr. allverulega að nýju.

Það er áætlað að inn komi löng erlend lán sem nemi 18 milljörðum 725 millj. kr. árið 1976, en afborgun af eldri lánum verði samkals 8.5 milljarðar, þannig að nettóaukning erlendra lána verði um 10.1 milljarður kr., samanborið þó við 13.1 milljarð nettóaukningu á yfirstandandi ári, svo að hér er stefnt að með meiri gát þrátt fyrir að stórvirkjanir séu í gangi. Enn liggur ekki fyrir hvað skeður varðandi Grundartanga. Það mál er allt í athugun og við vitum ekkert um það enn þá hvað það þýðir. Sagt er að erlendar lántökur fjárfestingarlánasjóðanna árið 1976 séu áætlaðar rúmlega 2 milljarðar, en munu hafa verið á þessu ári 2.2 milljarðar, svo að hér um 10% lægri tölu að ræða. Þetta á að sanna það að heldur varlega sé farið í sakirnar varðandi næsta ár. Þó er svo komið, eftir því sem ég best veit, að heildarskuldir ríkisins muni vera rúmlega 55 milljarðar, en fjárlögin núna tognuðu upp fyrir 60 milljarða síðla dags er fjvn. hætti störfum. Þetta hljóta að vera óheyrilega háar skuldir miðað við ríkisfjárlög. Ekkert liggur fyrir hvernig þetta er í hlutfalli við önnur Norðurlönd eða önnur lönd sem við höfum efnahagssamstarf við, en fróðlegt væri að hafa um þetta nokkurn samanburð svo að við gætum séð að hverju við stefnum hér.

Mér segir svo hugur um að fast að fimmta hver króna fari nú í vexti og afborganir af þeim gjaldeyriskrónum sem við öflum. Þetta hlutfall tel ég langt umfram eðlilegt, og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar sagði núv. hæstv. forsrh. að í óefni stefndi hjá vinstri stjórninni þegar reikna mætti með allt að 11–13% greiðslubyrði vegna erlendrar lántöku hjá henni. Forsvarsmaður vinstri stjórnarinnar, form. Alþb„ las þá upp langan lista er hann hafði látið útbúa um greiðslubyrði í tíð viðreisnarstjórnarinnar og hallaðist ekki mikið á. Síðan hafa viðhorf kannske breyst og við höfum átt sæmilega tíma og þolað að taka aukin erlend lán. En hér er komið að markinu að því er ég tel og nauðsynlegt að móta nýja stefnu og ný viðhorf í þessu efni.

Það er ósk mín að það komi fram við þessar umr. að hverju stefnir í þessu efni svo að ég fái það staðfest af hæstv. fjmrh. eða forsvarsmönnum ríkisstj. og sé ekki sjálfur með ágiskanir einar. Ef starfa á hér á nefndarfundum og afgreiða mál um miðjar nætur, þá er það algjör vanvirða við okkur í stjórnarandstöðunni og eigum við varla annars úrkosta en að taka upp skipulagt málþóf, ekki aðeins í þessu máli, heldur mörgum fleiri. Ég óska því eindregið eftir því að málið sé rætt við eðlilegar aðstæður og það gefist smásvigrúm til að athuga þetta mál. Ef svo er ekki, þá er látið skeika sköpuðu með það, en ég áskil mér þá allan rétt að fjalla um þessi mál og almenna efnahagsstefnu í sambandi við þessi mál, því að þetta tvinnast sannarlega saman.