19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 79 frá 6. des. 1974, um fjáröflun til vegagerðar. Frv. þetta felur það í sér að bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en bensín, skuli frá og með árinu 1976 greiða árlega þungaskatt til ríkissjóðs svo sem nánar segir í 1. gr., þ. e. af bifreiðum, sem eru allt að 2000 kg að eigin þyngd, skuli greiða 70 þús. kr. og af bifreiðum, sem ekið er gegn gjaldi, skuli gjaldið vera 30% hærra eða 91 þús. kr.

Nefndin er sammála um að mæla með því að frv. verði samþ. eins og það er komið frá hv. Ed. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason var fjarverandi afgreiðslu málsins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson skrifar undir nál. með fyrirvara.