19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Forseti. Þetta frv. fjallar um breytingar á lögum vegna nokkurra verkefna sveitarfélaga og kostnaðar við þau. Það var lagt fyrir Ed. og hefur verið afgreitt þaðan.

Í aths. með fjárlagafrv. fyrir 1976 er gert ráð fyrir nokkurri tilfærslu á verkefnum og kostnaði við þau frá ríkissjóði til sveitarfélaga. Þetta frv. er flutt í framhaldi af því.

Gert er ráð fyrir því, eins og hefur komið fram í frv. um söluskatt sem nýlega var rætt í þessari hv. d., að sveitarfélögin eða Jöfnunarsjóður þeirra fái aukna hlutdeild í söluskatti, þannig að í stað þess að nú fá þau 8% af 13% söluskatti fái þau 8% af 18% söluskatti. Á móti þessum auknu tekjum færast ýmsir kostnaðarliðir yfir til sveitarfélaganna eins og greinir í þessu frv.

Það er í fyrsta lagi, eins og segir í I. kafla, að kostnaður við heimilishjálp í viðlögum, sem nú er að 1/3 greiddur af ríkissjóði, skuli greiddur að öllu leyti af sveitarfélögunum.

II kafli fjallar um vinnumiðlun og þar eru sömu ákvæði, að 1/3 hluti kostnaðar, sem greiðist nú úr ríkissjóði, færist við þetta yfir til sveitarsjóða.

IIII. kafli fjallar um orlof húsmæðra. í gildandi lögum er ákveðið að ríkissjóður greiði árlega upphæð sem svarar minnst 100 kr. fyrir hverja húsmóður í landinu og sveitarfélög greiði eigi minna en 50% á móti framlagi ríkissjóðs. Í stað þessara ákvæða kemur samkv. þessu frv. ákvæði um að sveitarsjóður greiði árlega upphæð sem svarar til minnst 150 kr. fyrir hverja húsmóður.

IV. kafli fjallar um dvalarheimili aldraðra og er þar um flutning á kostnaði að ræða frá ríkinu, sem nú er gert ráð fyrir að greiði 1/3 hluta kostnaðar, yfir til sveitarfélaga.

Þá er í V. kafla fjallað um lög um grunnskóla og gerð sú breyting á að viðhaldskostnaður húsa og lóða, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar greiðist af sveitarfélögunum.

Í VI. kafla frv. er fjallað um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila. Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að sveitarfélögin taki að sér rekstrarkostnað þessara stofnana að fullu. En í gildandi lögum er svo ákveðið að ríkið greiði af rekstrarkostnaði dagheimila og skólaheimila allt að 30%, en leikskóla allt að 20%.

VII. kafli fjallar um almenningsbókasöfn. Nú er gert ráð fyrir í lögum að söfnin njóti styrks úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun í fjárlögum. Hér er gert ráð fyrir að þetta ákvæði falli niður.

Þetta eru meginbreytingarnar sem gerðar eru með þessu frv. Felur frv. í sér einstakar breytingar aðrar á viðkomandi lögum sem leiðir af þessum meginatriðum.

Í grg.frv. er gerð nokkur grein fyrir kostnaði af þessum 7 liðum sem hér hafa verið raktir. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að þessir líðir sem þannig ættu að færast yfir, næmu samtals 392 millj., en við endurmat á þeim fjárhæðum eru það nú 458 millj. kr. Er gert ráð fyrir því að sá tekjuauki, sem Jöfnunarsjóður fái, verði um 250 millj. á næsta ári, eftir því sem nú er áætlað. Af þessari upphæð munu um 12% ganga til sérstakra verkefna samkv. lögum, svo sem framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga, til varasjóðs, framlag til Sambands ísl. sveitarfélaga og til landshlutasamtaka. Þegar það hefur verið dregið frá verða eftir 458 millj. sem ætlaðar eru til þeirra verkefna sem greinir frá í frv.

Þetta frv. felur í sér breytingar varðandi einstök atriði og er aðeins einn hluti af stóru vandamáli sem er verkaskipting ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnar sveitarfélaganna. Þar er um stórmál að ræða sem lengi hefur verið um fjallað. Samtök sveitarfélaganna hafa lagt í það mikla vinnu að kanna það mál, og m. a. birti Samband ísl. sveitarfélaga fyrir tveimur árum ítarlega grg. um þessi mál og lauk grg. með 100 tillögum um helstu atriði sem til greina kemur að flytja frá ríkinu til sveitarfélaganna. Að undanförnu hafa þessi mál verið til rækilegrar athugunar í félmrn. m. a., og sérstaklega hafa þessar till., sem Samband ísl. sveitarfélaga lagði fram á sínum tíma, verið kannaðar og skoðaðar.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur nú farið þess á leit að nú þegar verði skipuð samstarfsnefnd ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga er hafi það verkefni að undirbúa fyrir reglulegt Alþ. 1976 tillögur um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Er ákveðið að verða við þessari ósk sambandsins og mun þessari nefnd komið á fót fyrir lok þessa árs. Ég vænti þess að góður árangur geti orðið af starfi þessarar væntanlegu samstarfsnefndar.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.