19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var, eins og hér hefur komið fram, fyrir alllöngu ljóst að hæstv. ríkisstj. hafði í hyggju að gera breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Slík breyting er boðuð í því fjárlagafrv. sem hér er nú senn til lokaafgreiðslu.

Í sjálfu sér er ekkert nema gott um það að segja. Það hefur lengi verið ósk sveitarstjórnarmanna að gera hreinni skiptingu milli verkefna ríkis og sveitarfélaga á þann veg að sveitarstjórnir eða sveitarfélög fengju frekari verkefni, en jafnframt yrði séð fyrir nægilegum tekjustofnunum til framkvæmda á slíkum verkefnum.

Það frv. sem hér er nú til umræðu, er að því er mér sýnist hvorki fugl né fiskur hvað snertir það sem óskir sveitarstjórnarmanna hafa verið um nokkuð lengi. Það kom hér fram við umræður um breytingu í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að nú þegar væri tekjustofnum sveitarfélaga svo komið að þau þyrftu að fá til þess að framkvæma þau verkefni, sem þau nú hafa á sínum snærum, allverulega aukna tekjustofna til þess að geta séð þar fyrir. Það, sem er verið að gera með þessu frv., er að mínu viti það, að hér er verið að tína út eftir happa- og glappareglu verkefni tvist og bast til þess að geta nefnt slíkt frv. sem þetta því nafni að hér sé verið að færa hinum ýmsu sveitarfélögum aukin verkefni og jafnframt aukna tekjustofna.

Þetta frv. er eitt af mörgum sem sýna hvað best hver óstjórn er í sambandi við málsmeðferð, undirbúning mála og allan málatilbúnað hér á hv. Alþ. undir handleiðslu núv. hæstv. ríkisstj. Mér er ekki kunnugt um að þeir aðilar sem mest hafa um þessi mál fjallað á undanförnum árum — þar á ég við þann aðila, stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem er samnefnari fyrir sveitarstjórnir í landinu — mér er tjáð eftir bestu heimildum að sá aðili hafi ekki fjallað um þetta frv. í því formi sem það nú er, og má það þó teljast furðulegt ef satt er og rétt.

Eins og kom fram áðan er þetta mál búið að vera á dagskrá alveg frá því í okt. í haust að Alþ. kom saman, en ekkert áþreifanlegt hefur gerst, a. m. k. sem við stjórnarandstæðingar höfum fengið að sjá, fyrr en nú nokkrum dögum áður en þing fer í jólaleyfi.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv., en ég vil þó segja það, að ég er hlynntur því að sveitarfélög fái aukin verkefni til umfjöllunar, en ég tel að slíka ákvörðun verði að taka að vel athuguðu máli og að þau verkefni, sem sveitarfélögunum eru í hendur fengin, séu ákvörðuð að vel yfirveguðu ráði.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem kom fram áðan hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Ég er þeirrar skoðunar í sambandi við uppbyggingu dvalarheimila fyrir aldraða, að það eigi að vera verkefni ríkisins sjálfs, það eigi ekki að færast yfir á sveitarfélögin. Hér er um svo stórt verkefni að ræða að það er full hætta á því og raunar sýnt, að ef ríkisvaldið er ekki stór aðili að slíkum framkvæmdum þá verður um svo mikla mismunun að ræða að ógerlegt má teljast að fólk geti við unað.

Ég vil líka benda á það, að með slíkri breytingu eins og hér er verið að gera, þá er óséð hvern ójöfnuð er verið að leiða yfir hin ýmsu sveitarfélög í landinu. Í sumum tilvikum er búið með tilstyrk ríkisins og af hálfu ríkissjóðs að greiða framkvæmdir að vissu marki, sem búið er að vinna að í nokkurn tíma, með fjárframlögum úr ríkissjóði, en með þeirri breytingu, sem hér er verið að gera, er verið að færa slíkt eingöngu yfir á sveitarfélög, og gefur því auga leið að hér verður í reynd, verði ekki einhverjar sérstakar reglur upp teknar til jöfnunar, um geysilega mikinn ójöfnuð að ræða milli hinna ýmsu sveitarfélaga.

Mér er ekki um það kunnugt hvort hugmyndir eru uppi um það á hversu hátt þetta eigi að jafna út, en mér sýnist alveg augljóst að hér geti komið til mikill ójöfnuður milli sveitarfélaga, auðvitað verður að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.

Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að þau verkefni, sem sveitarfélögunum yrðu fengin, næmu upphæðum sem væru á bilinu frá 700–750 millj. kr. Nú hefur þetta breyst og verið tekið út úr verkefni sem hæstv. ríkisstj. hefur þá haft í huga að færa yfir. Nú er enginn vafi á því, að það er ekki samdóma álit sveitarstjórnarmanna hver þessi upphæð muni verða í sambandi við þá breytingu sem hér er verið að gera. Það hafa heyrst ýmsar útgáfur á tölum á þeirri upphæð. Ég fyrir mitt leyti hef ekki haft tækifæri til þess að kynna mér það mál, og ég hygg að það sé vafamál að hægt sé með neinni vissu að gera sér grein fyrir hversu mikil verkefni hér eru á ferðinni nema því aðeins að nægur tími gefist til þess að skoða þetta mál. Það er af og frá að mínu viti að slíkur tími gefist ef það er ætlun hæstv. ríkisstj. að keyra þetta mál í gegnum þingið nú fyrir jólaleyfi.

Sumt í þessu frv. er þess eðlis að allt bendir til að ekki yrði um mikinn ágreining að ræða. En það eru í því nokkur atriði, stórir þættir, sem ég tel að nauðsynlega þurfi að skoða betur áður en ákvörðun er um það tekin, að með það skuli farið eins og hér er gert ráð fyrir. Ég get sérstaklega bent á dvalarheimili aldraðra. Það eru fleiri ákvæði sem hér eru allvafasöm, vægast sagt, en þetta eitt nægir til þess að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv., þó að ýmislegt fleira mætti tína til og benda á sem er neikvætt við það sem hér er lagt til.

Ég skal ekki að þessu sinni a. m. k. fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Mér finnst það vægast sagt allharkalega keyrt af hæstv. ríkisstj., ekki síst með hliðsjón af því hvernig hún hefur staðið sjálf að málatilbúnaði hér á Alþ., ef hún ætlar sér að keyra í gegn hér á Alþ. á tveimur til þremur dögum svo veigamikið mál sem hér er um að ræða.