19.12.1975
Neðri deild: 39. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Það var gerð ítarleg grein fyrir þessu máli í dag, þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. mælti fyrir því. Ég tel því enga þörf á að rekja einstök atriði í einstökum greinum frv., get því látið mér duga að segja að eftir að við höfðum rætt málið í nefnd var alveg ljóst að meiri hl. lagði til að frv. yrði samþ. óbreytt og minni hl. skilar séráliti.

Ég vil gjarnan taka það fram að samþykki okkar við þetta frv. þýðir ekki að við séum mjög ánægð með öll þau efnisatriði sem í því eru. Hins vegar gerum við okkur ljóst að stundum er ill nauðsyn að gera ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir, og það var alveg ljóst að annaðhvort varð að fara þá leið að afla nýrra tekna til að standa undir stórauknum kostnaði trygginganna eða þá að skerða mjög réttindi þeirra sem tryggingabóta njóta. Við höfum komið okkur saman um þær leiðir sem við töldum að öllu samanlögðu vera skástar af þeim sem til greina kæmu. Þess vegna höfum við ákveðið að standa saman um þær breytingar sem ríkisstj. hefur lagt til í þessu frv.