19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

105. mál, söluskattur

Fram. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Um þetta mál er ekki þörf að orðlengja. Hér hafa verið á ferðinni allmörg mál sem snerta aukna tekjuöflun í ríkissjóð, hvert skattaálögumálið af öðru. Í þeim umr. hefur gefist kostur á að ræða einnig um þetta mál, þ. e. a. s. hækkun söluskatts um 2 stig í kjölfar þess að tekjuöflun til Viðlagasjóðs fellur niður.

Það er skoðun okkar alþb.- manna að hyggilegra hefði verið frá efnahagslegu sjónarmiði að lækka allt verðlag í landinu með því að láta þessi söluskattsstig falla niður með öllu. Á því hefði verið brýn þörf einmitt nú, þegar verðbólgan er jafnískyggileg og raun ber vitni. En hæstv. ríkisstj. hefur valið aðra leið, þ. e. a. s. að hækka sjálfan söluskattinn um 2%. Við alþb.- menn erum eindregið mótfallnir þessari auknu skattheimtu og munum því greiða atkv. gegn frv.