19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

105. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Vegna aðstæðna nú í þinglok fyrir jólafrí sé ég ekki ástæðu til að eyða löngu máli að þessu frv. um breytingu á söluskatti, en ef aðstæður hefðu verið á annan veg hefði verið réttmætt og eðlilegt að taka alllangan tíma í þessar umr.

Blessaður söluskatturinn hefur nú fikrað sig upp eftir talnaröðinni úr fáum stigum upp í 20 stig, og jafnan þegar viðkomandi ríkisstj. hefur lagt til að hann hafi hækkað, átti það að vera til bráðabirgða. Svo sem mönnum er kunnugt ríkir svo mikið tregðulögmál í skattakerfinu að þegar einn skattur er kominn á virðist afar erfitt að afnema hann. Svo er eins um þessi 2 viðbótarstig sem nú á að lögfesta og láta halda gildi sínu um óákveðinn tíma. Eitt söluskattsstig mun nú, þegar vörugjaldið er orðið staðreynd út næsta ár, gefa sennilega hátt í 1200 millj. kr., svo að hér er um verulegar skattaálögur að ræða.

Hugmynd okkar í Alþfl. var að koma með nýtt kerfi og þurfa ekki að halda áfram aukningu á sköttum sem sífellt var lofað að afnema. En til þess að mæta hugmynd um að fella niður beinan tekjuskatt á alla einstaklinga gat verið réttmætt að gera samtímis breytingu, koma sér niður á fast söluskattsstig og nota það til útjöfnunar á milli fólks í sambandi við almannatryggingakerfið og taka með því nægilega innheimtu í ríkissjóð í gegnum eyðslu. Þótt beinn tekjuskattur gefi af sér allverulega upphæð í ríkissjóð, þá er það mál manna og fer ekki á milli mála að margir sleppa billega í gegnum það kerfi, og er því réttmætt að þeir borgi í gegnum eyðslu sina í ríkissjóð. Einnig er á það að líta að mikið kostar að innheimta tekjuskattinn, og hafa mörg samtök launþega um allt land ályktað í þá átt að réttmætt sé að stokka nú upp í þessum efnum og fella beinan tekjuskatt niður, en koma sér niður á fasta söluskattsprósentu. Hvort hún yrði 18, 19 eða 20 stig yrði þá samkomulag um þegar — ég segi: þegar er komið svo að beinn tekjuskattur er felldur niður. En við erum andvígir því í Alþfl. að auka söluskattinn og halda við óbreyttri beinni tekjuskattsinnheimtu.

Þetta er mikið mál, og því hefur verið lofað af hæstv. ríkisstj. — og í því hafa starfað n. og það fleiri en ein —- að koma fram með nýjar hugmyndir í skattkerfi landsmanna. Það verður ekki lengur undan því vikist, svo almenn óánægja ríkir hér á landi með núgildandi skattalög. En það hefur verið veikleiki margra ríkisstj. að lappa jafnan upp á skattalögin, en taka þau ekki gaumgæfilega til meðferðar og bæta úr og hafa skattheimtuna einfaldari og auðskildari hverjum manni. Í staðinn er leitað að smálagfæringu og heildarlagabálkurinn orðinn svo flókinn að það er ekki nema fyrir fáa útvalda að botna í þeim frumskógi.

Við í Alþfl. viljum nú stokka þetta allt upp, fella niður beinan tekjuskatt, en í staðinn gætum við verið til umræðu um að fara með söluskattinn hærra og jafnvel allt upp í 20 stig. En við erum mótfallnir því að hækka nú söluskattinn án þess að gera bragarbót á annarri tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þess vegna leggjum við til. herra forseti, að þetta frv. verði fellt.