19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

102. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda 1976

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. það er skoðun mín að á fáum sviðum efnahagsmála séu opinberar umr. jafnyfirborðskenndar og einmitt þegar verið er að ræða um erlendar lántökur þjóðarinnar. Við heyrum oft uppi hafðar fullyrðingar um að lántökur þjóðarinnar séu nú orðnar svo miklar að þar megi engu við bæta og greiðslubyrðin svo gífurleg að stórhætta sé á ferðum. Eins heyrum við hitt, að vel sé hægt að framkvæma þetta eða hitt vegna þess að hægt sé að fá erlend lán til slíkra framkvæmda. En yfirleitt rekast menn ekki á neinar rökstuddar grg. af hálfu Seðlabanka eða Efnahagsstofnunar eða Þjóðhagsstofnunar, eða hvað þær nú heita allar þessar stofnanir, um það, hvað talist geti hámark erlendra skulda eða hvenær þjóðin fari sem sagt að reka sig upp undir og megi alls ekki lengra ganga. Menn virðast bara fullyrða eitthvað út í bláinn, vegna þess að þeir hafa ekkert við að miða. Mér virðist að okkur vanti alveg inn í þessar umr. miklu glöggari grg. af hálfu hagfræðilega menntaðra manna, — manna sem við leitum ráða hjá, og eins er nauðsynlegt í þessu sambandi að fá einhvern samanburð á því hvernig mál standa hjá íslendingum í dag og svo hvernig mál standa hjá nálægum þjóðum. Um þetta væri æskilegt að fá upplýsingar, og ég hef m. a. óskað eftir því í hv. fjh.- og viðskn. að fá slíkar upplýsingar, en þær hafa enn ekki fengist.

Í tíð fyrri stjórnar, vinstri stjórnarinnar, var altítt að talsmenn Sjálfstfl. hefðu uppi mikil hróp að stjórninni fyrir það, hve erlendar lántökur væru orðnar ískyggilega miklar. Talsmenn Sjálfstfl. héldu því fram að vinstri stjórnin væri að kollsigla öllu með þessum miklu lántökum. Því var að sjálfsögðu svarað með því, að um væri að ræða lántökur til mjög brýnna og nauðsynlegra framkvæmda sem þyldu ekki neina bið og ættu eftir að skila þjóðinni miklum arði. Það er því harla fróðlegt að sjá hver breyting hefur á orðið eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum.

Í nál. minni hl. fjh: og viðskn. Nd. er gerð grein fyrir því, hver skuldaaukning hefur orðið á síðustu tveimur árum og er komist að þeirri niðurstöðu, að áætluð erlend langtímalán verði í árslok 1976 um 65 milljarðar. Ég vil strax taka fram að þessi útreikningur er ekki eins nákvæmur og vera þyrfti, og eftir að ég hef litið á hann sýnist mér að hann þurfi lagfæringar við. Það vill nefnilega svo til að í þessu yfirliti, sem er á þskj. 214, eru langtímalán í árslok 1974 færð upp á gengi þess tíma og eru því talin vera rúmlega 41 milljarður. Réttara hefði verið að miða við núverandi gengi, og ef öll lánin eru færð upp á sama gengi, þ. e. a. s. genginu sem var í sept. s. l., 164.5 kr. fyrir hvern dollar, þá kemur dæmið út á nokkuð annan veg. Erlend langtímalán voru í árslok 1974 57 milljarðar 626 millj. Síðan bætast við samkv. þeim tölum, sem fram koma í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1976, nettóaukningin 1975, 13 milljarðar 140 millj., og nettóaukningin 1976, 10 milljarðar 145 millj., þannig að hin rétta tala virðist vera í árslok 1976 ekki 64 milljarðar, eins og áður höfðu verið nefndir, heldur 80 milljarðar 911 millj. kr. Ef litið er á um hve mikla aukningu hér er að ræða, kemur í ljós að lánin aukast um rúm 40% á árunum 1975 og 1976, árinn sem nú er að liða og næsta ári, eftir því sem gert er ráð fyrir í nýfenginni skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun. Ég held að fátt afhjúpi betur skrum og áróðursblekkingar Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu en að einmitt eftir að sá flokkur tekur við stjórnarforustu hefur orðið meiri hækkun á erlendum skuldum en nokkru sinni fyrr.

Hér er um að ræða erlendar lántökur sem nema 6655 millj. kr. Þegar Alþ. er beðið um svo mikla lánsfjárheimild væri að sjálfsögðu eðlilegast að listi fylgdi um það til hvaða framkvæmda þessi lán eiga að ganga. En svo er ekki í þessu tilviki. Í grg. frv. fylgir enginn listi af þessu tagi. Í framsöguræðu ráðh. kom ekki fram nein sundurliðun á þessari tölu, og í nefnd eða í framsöguræðu meiri hl. n. komu ekki fram neinar ákveðnar upplýsingar um það, hvernig ætti að verja þessu fé. Til þess að þm. geti áttað sig á því verða þeir að liggja hér alllengi yfir svonefndri skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun og tína til tölur úr ýmsum áttum til þess að átta sig á til hverra hluta ætlunin er að verja þessu fé. Þar sem hæstv. fjmrh. hefur ekki séð sóma sinn í því að birta þennan lista um leið og hann gerði grein fyrir þessari lánsfjáráætlun, þá þykir mér rétt að taka að mér það hlutverk, þar sem enginn annar hefur tekið það að sér. Listinn er þá á þessa leið :

Til sveitarafvæðingar munu ætlaðar 150 millj., til norðurlínu 578 millj., til Kröfluvirkjunar, þar af í stöðvarhús og vélar 1694 millj., borholur og aðveitukerfi 600 millj., línu til Akureyrar og aðveitustöð 571 millj. og til Jarðborana ríkisins 10 millj. Samanlagt eru þetta 3633 millj. Þetta er að vísu 13 millj. kr. hærri upphæð en virðist vera þörf á til þessara framkvæmda, en það skýrist einfaldlega af því, eftir því sem séð verður á bls. 14 í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun, að þessar 13 millj. komi af innlendu fé, þannig að samanlagt sé hér um að ræða 3620 millj. kr.

Vörukaupalán eru: Kröfluvirkjun 644 millj., lína til Akureyrar vegna Kröfluvirkjunar 84 millj., aðveitustöð á Akureyri 130 millj., Rafmagnsveitur ríkisins 132 millj., samtals 990 millj., og síðan lán til Framkvæmdasjóðs vegna fjárfestingarsjóða atvinnuveganna 2045 millj.

Ég vona að menn skilji það, að ég get ekki tekið afstöðu til lánsfjárheimildar upp á 6655 millj. kr. án þess að vita til hvaða framkvæmda á að verja því fé. En svo er að sjá að hv. stjórnarþm. geti samþykkt hvað sem er, þeir spyrja ekki einu sinni til hvaða hluta og til hvaða framkvæmda þessi lán eiga að ganga, og hæstv. ráðh. og frsm. n. virðast ekki telja neinu skipta til hvaða framkvæmda þetta eigi að ganga. Það er eins og þm. hafi innbyggða einhverja sjálfvirkni í handleggnum á sér, þannig að þeir geti rétt upp höndina og samþ. hvað sem er ef ríkisstj. ber það fram. Þetta vil ég átelja og tei alveg fráleit vinnubrögð.

Með hliðsjón af þeim framkvæmdum, sem ég hef hér talið upp, hef ég tekið afstöðu til þess, hvort ég geti staðið að því að samþykkja þessar lánsheimildir. Það er skoðun mín að hér sé um að ræða nauðsynlegar og óhjákvæmilegar framkvæmdir. Ég tel að sá hraði, sem er á uppbyggingu Kröfluvirkjunar, sé óhjákvæmilegur og öll þau lán, sem ætluð eru til þeirrar virkjunar, 4301 millj., eigi fyllsta rétt á sér. Ég get því ekki annað en stutt þetta frv. sem gerir ráð fyrir svo miklum lánsfjárheimildum til Kröfluvirkjunar. Afgangur þessarar upphæðar er að mestu lán til Framkvæmdasjóðs, samtals 2045 millj. kr., og eftir að hafa yfirfarið um hvaða sjóði er hér að ræða, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þessar lánsfjárheimildir séu óhjákvæmilegar. Þá er búið að telja upp megnið af þessum lánum. Eftir eru aðeins um 300 millj. sem fara til sveitarafvæðingar, til Jarðborana ríkisins og til Rafmagnsveitna ríkisins, allt bráðnauðsynlegar framkvæmdir.

Ég hefði talið að við umr. í þinginu hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að gera grein fyrir því, hvernig ætlunin er að Framkvæmdasjóður ráðstrafi þessum lánum. Ég tel að þm. eigi rétt á að vita það. En úr því að hæstv. fjmrh. og aðrir þeir, sem gert hafa grein fyrir þessum málum í þinginu, hafa ekki séð sóma sinn í að gefa skýrslu um það hér, þá tel ég mig til neyddan að gera sjálfur grein fyrir því.

Fjáröflun Framkvæmdasjóðs er samtals 4535 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir því að eigið ráðstöfunarfé sjóðsins sé 150 millj., að hann geti tekið lán úr innlendum bönkum sem nemi 900 millj., en það er tvöföld sú upphæð sem hann fékk að láni 1975, og að hann fái lán úr lífeyrissjóðum að upphæð 1440 millj., en það er hvorki meira né minna en sjöföld sú upphæð sem sjóðurinn fékk að láni hjá lífeyrissjóðum á s. l. ári. Virðist því gæta þar talsvert mikillar bjartsýni. Áætlunin hvað snertir lántökur úr lífeyrissjóðum á s. l. ári var upp á 600 millj., en í reynd fengust ekki nema 200 millj., svo að nú er gert ráð fyrir eð hér verði um að ræða 1440 millj. kr. lántöku. Sjá því allir að hér er um að ræða mjög mikla viðbót úr lífeyrissjóðunum og ef ekki tekst að ná þessu fjármagni úr lífeyrissjóðum hlýtur afleiðingin að verða sú, að um enn meiri erlendar lántökur verði að ræða en hér er gert ráð fyrir, en þær eru, eins og áður er fram komið 2045 millj.

Stjórn Framkvæmdasjóðs ríkisins hefur nýlega tekið ákvörðun um hvernig þessu fjármagni verði varið, og vil ég nú gera grein fyrir því, þar sem það hefur ekki áður komið fram í þessum umr. Sú útlánaáætlun er á þessa leið:

Til Stofnlánadeildar landbúnaðarins er lán að upphæð 950 millj. Að því fengnu er gert ráð fyrir að Stofnlánadeildin geti veitt lán á komandi ári sem nemi 1200 millj. kr. Til samanburðar má geta þess, að áætluð útlán á yfirstandandi ári eru 1370 millj. kr. Ég fæ því ekki séð að hér sé um of háa lánsfjárhæð að ræða úr Framkvæmdasjóði, þar sem lán úr Stofnlánadeildinni virðast munu minnka frá árinu 1975 til ársins 1976. Ég spái því, að þvert á móti muni þetta tæpast hrökkva til að deildin geti sinnt þeim verkefnum sem talin verða brýnust. Það skal að sjálfsögðu tekið fram, að útlánaóskir Stofnlánadeildarinnar eru talsvert meiri, og vil ég upplýsa hér að Stofnlánadeildin telur fjárþörf sína vera 1960 millj. kr. á árinu 1976. En það er sem sagt ekki ætlunin samkv. þessari útlánaáætlun að Stofnlánadeildin láni út nema 1200 millj. kr. Sýnist mér því að sú lánsfjáröflun, sem hér er reiknað með, megi ekki minna vera.

Veðdeild Búnaðarbanka Íslands fær úr Framkvæmdasjóði 20 millj. kr. og mun hafa til lánveitinga 22 millj. Þetta mun einhverjum þykja einkennilegt, að hún skuli ekki geta lánað af eigin fé. Enn einkennilegra reynist þetta vera þegar haft er í huga að hér er gert ráð fyrir að veðdeildin fái lán úr lífeyrissjóðnum sem nemi 50 millj. kr. Hljóta menn þá að spyrja: Hvað verður um þær 50 millj.? Sannleikurinn er sá, að eigin ráðstöfunarfé veðdeildarinnar er neikvætt um 48 millj. Það er sem sé gert ráð fyrir að veðdeildin tapi á komandi ári 48 millj., og allt það fé er síðan tekið að láni hjá lífeyrissjóðum, þannig að deildin sé ekki gerð upp sem gjaldþrota. Þetta er að sjálfsögðu mjög einkennilegur fjárhagur hjá einum af stofnfjársjóðum þjóðarinnar, og satt að segja er ég löngu hættur að botna í því, hvernig rekstri veðdeildarinnar er háttað. Virðist alveg augljóst mál að þar þurfi að eiga sér stað veruleg breyting frá því sem nú er og að fjárhagur deildarinnar sé styrktur með útvegun eigin fjár.

Um Fiskveiðasjóð Íslands er það að segja, að lán Framkvæmdasjóðs eru áætluð 2600 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi til útlána 3990 millj. Til samanburðar er rétt að geta þess, að stjórn Fiskveiðasjóðs hefur upplýst að til þess að anna lánsumsóknum með venjulegum hætti þurfi sjóðurinn 4780 millj. kr. Sjóðsstjórnin bendir á að sjóðurinn sé að verulegu leyti bundinn lánsloforðum að beinum skuldbindingum við erlenda aðila og innlendar skipasmíðastöðvar. Sjóðurinn gerir ráð fyrir að þurfa að hafa til erlendra skipakaupa 1480 millj., til tækja og viðgerðar 500 millj., til vinnslustöðva 1000 millj. og til innlendrar skipasmiði 1800 millj., samtals 4780 millj. Þessi áætlun hefur sem sagt verið skorin niður í 3990 millj. Hv. alþm. til fróðleiks skal þess getið að niðurskurðurinn mun fyrst og fremst bitna á innlendri skipasmíði, því að lækkunin þar verður úr 1800 millj., sem talið er af sjóðsstjórninni lágmark, niður í 1310 millj. Það er því bersýnilegt að ekki má sníða lánsfjárútvegun til Fiskveiðasjóðs þrengri stakk en gert er. Virðist mér það satt að segja harla ískyggilegt hvað Fiskveiðasjóði er ætlað lítið fjármagn miðað við þarfirnar, enda er staðreyndin sú að Fiskveiðasjóður mun samkv. þessari áætlun ekki lána á árinu nema 145 millj. kr. meira en á s. l. ári, þegar hann lánaði 3875 millj. Það er næstum að segja status quo í lánveitingum Fiskveiðasjóðs enda þótt við höfum lifað um það bil 50% verðbólgu á þessu eina ári sem liðið er.

Um Iðnlánasjóð er það að segja,að honum eru ætlaðar af þessu fé 250 millj. kr. þannig að hann hafi til lánveitinga 673 millj. Útlánaóskir Iðnlánasjóðs eru hins vegar allmiklu meiri. Sjóðurinn gerir ráð fyrir því, að eðlilegt væri að hann lánaði út 1450 millj. af lánsumsóknum sem nema 2080 millj. Sem sagt, hér er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn láni út nema svo sem eins og 40% af því sem stjórn sjóðsins telur vera nauðsynlegt og æskilegt. Ég tel, að engum sjóði í þessari útlánaáætlun sé sniðinn jafnþröngur stakkur og Iðnlánasjóði og það sé satt að segja mjög varhugavert að ætla honum svo lítið fjármagn til útlána, ekki síst með hliðsjón af þeirri þörf sem á því er að iðnþróun hér á Íslandi verði örari en verið hefur nú um skeið, og með hliðsjón af þeim erfiðleikum, sem nú við blasa í sjávarútveginum. Ef Iðnlánasjóður lánaði út í einhverju hlutfalli við þá verðbólguaukningu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu, þá væri eðlilegt að útlán hans næmu um 770 millj., en hann hefur sem sagt ekki til lánveitinga nema 673 millj.

Lánasjóður sveitarfélaga fær hins vegar talsvert aukið fé til ráðstöfunar frá því sem áður var, og er það góðs viti. Honum eru ætluð lán úr Framkvæmdasjóði sem nema 250 millj. kr., þannig að hann hafi til lánveitinga 508 millj. Til samanburðar má geta þess, að hann hafði 310 millj. á árinu 1975. Hins vegar er rétt að geta þess, að sú áætlun, sem sjóðsstjórnin hefur sett upp um brýnar framkvæmdir, sem sjóðurinn þurfi að lána til, sú upphæð nemur rúmum 1000 millj. kr. Er því ljóst að sá sjóður hefur raunverulega verið skorinn niður um helming.

Verslunarlánasjóður fær síðan 40 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði og hefur því til lánveitinga 151 millj. Stofnlánadeild samvinnufélaganna fær 40 millj. kr. og hefur því til lánveitinga 70 millj. Og Ferðamálasjóður fær 40 millj. kr. og hefur til lánveitinga 40 millj. Auk þess er gert ráð fyrir að hafnarbótasjóður fái 165 millj. sem allar verði til lánveitinga og að bein lán úr Framkvæmdasjóði nemi 180 millj.

Þá er upp talið allt ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs, 4535 millj. kr.

Eins og hér hefur komið fram er um að ræða heimild til erlendrar lántöku sem nemur 6655 millj. kr. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um það frekar, að eins og ég hef hér rakið og eins og ég hef hér rökstutt, þá er hér um að ræða nauðsynlegar og óhjákvæmilegar framkvæmdir. Ég mun því ekki standa gegn samþykkt þessa frv.