23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hinn 5. nóv. fyrir einu ári flutti Geir Hallgrímsson forsrh. stefnuræðu sína hér á Alþingi í fyrsta sinn. Forsrh. varð tíðrætt um þau vandamál efnahagslífsins sem glíma þyrfti við, og hann var ekkert að skera utan af því að stjórn hans mundi kippa málum í lag á komandi mánuðum. Hann lofaði auknu efnahagsjafnvægi, minnkandi verðbólgu og styrkari fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Spá hans var sú að á árinu 1975 yrði verulega hægt á verðbólgunni og hann nefndi 15% verðbólgu á ársgrundvelli sem raunhæft markmið. Hann hafði fullan vara á því að árangur efnahagsaðgerðanna yrði takmarkaður á árinu 1974, enda langt á árið liðið, og mætti því ætla að nettó-gjaldeyriseign landsmanna yrði aðeins um 2 þús. millj. kr. í árslok 1974, en hann bætti við að jöfnuður í greiðslum við útlönd gæti orðið á árinu 1975.

Nú er liðið eitt ár síðan ríkisstj. hans kom til valda og hóf aðgerðir sínar gegn verðbólgu og vondu efnahagsástandi, og enn höfum við hlýtt á forsrh. ræða ástand og horfur í efnahagsmálum. Hvað hefur nú gerst á þessu eina ári? Sýnist mönnum eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðh. að ástandið hafi í raun og veru batnað?

Margir munu með sanni segja að lýsing forsrh. á ástandi efnahagsmála sé harla lík þeirri lýsingu sem hann gaf í fyrra. Sumir eru jafnvel vísir til að segja að ráðherrann hafi haldið sömu ræðuna aftur. Vandamálin, sem hann lýsti hér áðan, eru öll hin sömu og áður og þá ekki síður hin frómu áform.

En sé nánar að gáð verður ljóst að munurinn er fyrst og fremst sá að vandamálin, sem núv. ríkisstj. tók við, hafa verulega vaxið og þrútnað á rúmu einu ári. Efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafa verkað eins og olía á eld og efnahagsástandið er því stórum lakara en það var fyrir rúmum 12 mánuðum.

Í fyrsta lagi hefur verðbólgan aldrei verið meiri. Í októberhefti tímarits Seðlabankans um hagtölur mánaðarins má lesa að verðlagsvísitala vöru og þjónustu hafi hækkað um 60% á s. l. 12 mánuðum. En jafnframt er flett upp í októberhefti sama rits frá árinu 1974 kemur í ljós að verð á vöru og þjónustu hafði þá hækkað á undangengnum 12 mánuðum um 37.3%. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem lofaði að hægja á verðbólgunni og koma henni niður í 15%, hefur sem sagt staðið fyrir meiri verðbólguhraða en nokkur önnur stjórn á Íslandi í meira en hálfa öld.

Í öðru lagi : Hvað um gjaldeyrissjóðinn, sem forsrh. taldi hættulega þunnan í fyrra og áætlaði um síðustu áramót 2 þús. millj kr.? Hann er nú algerlega horfinn og meira en það, eins og forsrh. var rétt að enda við að viðurkenna.

Í þriðja lagi er það ríkissjóður. Eða sýnist mönnum ekki að fjárhagsstaða ríkissjóðs sé nú styrkari, eins og Geir Hallgrímsson hét þjóðinni fyrir einu ári? Svarið er, að ríkissjóður hefur sjaldan staðið eins illa að vígi og einmitt nú, Samkvæmt septemberhefti Hagtíðinda var staða ríkissjóðs og ríkisstofnana gagnvart Seðlabankanum neikvæð í ágúst um 8 675 millj. kr., en það er meira en tvöfalt lakari staða en á sama tíma í fyrra. Þetta þýðir að sjálfsögðu á mæltu máli að Seðlabankinn heldur ríkissjóði á floti með því að prenta nýja og nýja seðla. Þannig er stjórnin á ríkissjóði.

Í fjórða lagi eru það fjárfestingarsjóðirnir. Það var einmitt eftirlætisslagorð Morgunblaðsins á tímum vinstri stjórnarinnar, að nú væru allir sjóðir orðnir tómir, og þessi glósa glumdi ár eftir ár. En hvaða orð í tungunni eigum við að nota um ástand sjóðakerfisins, eins og það er nú undir forustu hægri stjórnar? Nú er útlit fyrir að húsnæðismálastjórn geti ekki veitt lán á þessu ári til þeirra sem gerðu hús sín fokheld í haust, og er þetta í fyrsta skipti, síðan Byggingarsjóður ríkisins var settur á stofn, að sjóðurinn kemst í þvílík þrot.

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru veitt lán úr Byggðasjóði jafnt og þétt allan ársins hring, eftir því sem þarfir kölluðu. Nú hefur ekki verið samþykkt eitt einasta lán úr sjóðnum í 4 mánuði, enda er ráðstöfunarfé sjóðsins hlutfallslega talsvert minna á þessu ári, miðað við hækkað verðlag, en það var á s. l. ári, þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar núv. stjórnar um eflingu Byggðasjóðs. Þetta eru aðeins tvö dæmi um fjárskort sjóðakerfisins.

Þannig er fjármálastjórnin á öllum sviðum. Mennirnir, sem komust til valda fyrir einu ári með því að úthrópa vinstri menn sem lélega stjórnendur fjármála, hafa sýnt það og sannað á ótrúlega skömmum tíma að þeir eru einhverjir verstu stjórnendur efnahagsmála sem landsmenn hafa fengið yfir sig um margra áratuga skeið, og eru þeir þó ýmsu vanir.

Ekki er nóg með að ástandið sé eins og það er í verðlags- og gjaldeyrismálum eða ríkisfjármálum. Á sama tíma hafa lífskjör almennings versnað svo ört og svo stórlega að þess eru fá eða engin dæmi í Evrópulandi síðan í stríðslok. Forsrh. hélt því fram hér áðan að kauplækkunin næmi 16–17% frá fyrra ári. Ég skal ekkert segja um þennan útreikning, hann segir okkur ekki mikið, því þegar á s. l. ári var hin mikla kjaraskerðing hafin. Hitt er víst, að lífskjör fólks hafa almennt versnað um 30–40% síðan í tíð vinstri stjórnar, og verst er meðferðin á öryrkjum og öldruðum, því að þeir máttu síst við því að kjör þeirra væru skert.

Sá, sem ekki hefur aðrar tekjur að lifa af en greiðslur almannatrygginga, fékk 18 900 kr. í apríl 1974. Ef greiðslan fylgdi breytingum á vísitölu vöru og þjónustu ætti hann nú að fá rúmar 37 700 kr. í mánaðarlegan lífeyri, en hann fær aðeins rúmar 29 200 kr. Hann ætti sem sagt að fá tæplega 30% hærri lífeyri en hann fær ef hann byggi við sömu kjör undir hægri stjórn og hann bjó við undir vinstri stjórn.

Ráðamenn þjóðarinnar reyna óspart að telja fólki trú um að ástand mála hér á landi sé aðallega af erlendum uppruna og stafi af minnkandi þjóðartekjum. Þessu trúa áreiðanlega margir. En þetta er ekki rétt. Þetta er vísvitandi blekking.

Samkvæmt skýrslum Þjóðhagsstofnunar er áætlað að þjóðartekjur hafi staðið í stað árið 1974 miðað við árið á undan sem var einstakt metár hvað þjóðartekjur snertir. Og rétt áðan vitnaði forsrh. í seinustu spár sem hann sagði gera ráð fyrir að þjóðartekjur á mann rýrnuðu um 9% á þessu ári. Berum svo þessar tölur saman við hina gífurlegu kjaraskerðingu sem fólk hefur almennt mátt þola á rúmu einu ári og nemur 30–40%. Hljóta ekki allir, sem skoða þessar tölur, að gera sér ljóst að kjaraskerðingin er aðeins að óverulegu leyti af erlendum uppruna? Það eru innlendir aðilar sem mismuninn gleypa.

Þessi sannindi verða enn ljósari þegar haft er í huga að skv. opinberum skýrslum eru heildartekjur norðmanna, dana og íslendinga mjög svipaðar ef miðað er við íbúafjölda, en samt sem áður eru almenn laun orðin helmingi lægri hér á landi eftir gengisfellingar núv. stjórnar. Þessari grundvallarstaðreynd vilja talsmenn ríkisstj. helst gleyma. En hún verður ekki umflúin hversu mjög sem menn loka augunum, eins og best sést á því að daginn sem Alþingi var sett birti einn af þingmönnum ríkisstj., Jón Skaftason, grein í Tímanum undir fyrirsögninni: „Hvers vegna?“ Og í greininni spyr Jón, eins og margir aðrir hafa spurt: „Hvernig stendur á því, að laun eru almennt lægri hér en t. d. á Norðurlöndum þótt þjóðartekjur séu svipaðar á mann?“ Jón lætur sér að vísu nægja að spyrja. Hann veit að svarið er ekki beinlínis meðmæli með íhaldsstefnu núv. stjórnar. En hann spyr og það er þó fyrsta skrefið.

Eins mættu menn spyrja: Hvað er stór hluti af verðbólgunni, alvarlegasta meini íslenskra efnahagsmála, af innlendum toga sprottinn og hvað er aðflutt? Þeir, sem hafa sundurgreint orsakir 60% verðbólgu á einu ári, eru vafalaust sammála um þá niðurstöðu að innan við 1/10 hluti þessarar verðbólgu er af erlendum toga sprottinn.

Það er sem sagt alrangt að unnt sé að afsaka 60% verðbólgu og 30–40% kjaraskerðingu með því að vísa til erlendra verðhækkana eða minnkandi þjóðartekna. Það er ekki skýring sem dugar.

En hver er þá skýringin á því að í heilt ár hefur ríkisstj. glímt við vandamál verðbólgunnar og afleiðingin hefur orðið 60% verðbólga?

Orsakirnar eru margvíslegar eins og oft áður, en þyngst á metunum er vafalaust það að fyrir einu ári komu þeir menn til valda í íslenskum stjórnmálum sem ætluðu sér að gjörbreyta tekjuskiptingunni innan þjóðfélagsins og nota til þess gengisfellingarvopnið. Oftrú þessara manna á töframátt gengisfellinganna er með ólíkindum og þeir hafa því vafalaust trúað því í einlægni að með nógu kröftugum gengisfellingum og með því að leggja byrðarnar á hinn almenna mann af algeru miskunnarleysi, þá væru þeir um leið að leysa vandann. Þess vegna hefur dollarinn hækkað í verði um 68% á aðeins 13 mánuðum. Þessi aðgerð ríkisstj. ásamt hækkun söluskatts, tollvörugjaldi, stórhækkun á verði hvers konar opinberrar þjónustu, að meðtalinni hávaxtastefnu Seðlabankans, á sannarlega sök á tveimur þriðju hlutum þeirrar verðbólgu sem gengið hefur yfir.

Þetta einstæða verðbólguflóð hefur magnað þá efnahagslegu ringulreið sem fyrir var. Rekstrarfjárskortur atvinnuveganna hefur aukist gífurlega, og hjá fjölmörgum fyrirtækjum slagar vaxtakostnaður hátt upp í samanlagðar launagreiðslur. Sjóðir eyðast og gegna ekki lengur hlutverki sínu, en talsverður hluti þjóðartekna yfirfærist í dulinn verðbólgugróða. Þannig hefur ríkisstj. skapað miklu stærri vandamál en þau sem hún tók að sér að leysa fyrir einu ári er á hana rann þetta sannkallaða gengislækkunaræði.

Hún tók eina heljarmikla kollsteypu, einhverja þá glannalegustu sem tekin hefur verið, og er nú komin hringinn. Flest er komið í sama farið aftur, nema þá helst það að langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar er þrotið. Almennt hljóta menn að viðurkenna — og það gerði jafnvel forsrh. hér rétt áðan — að verkalýðshreyfingin hefur sýnt mikla hófsemi þrátt fyrir síversnandi kjör.

En svo má brýna deigt járn að bíti. Þegar samningar renna út um næstu áramót mun verkalýðshreyfingin fylgja kröfum sínum eftir af fyllsta þunga. Opinberir starfsmenn, sem þó hafa ekki verkfallsrétt að lögum, hafa ákveðið að una ekki lengur þessu ástandi. Fjölmennt kjararáð þeirra, skipað mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum, hefur einróma samþykkt að undangenginni viðtækri skoðanakönnun að samtök opinberra starfsmanna segi sig úr kjararáði og kjaradómi og stofni verkfallsnefnd. Þetta hefur aldrei áður gerst, en hlaut að gerast.

Og nú seinast hafa sjómenn siglt fiskveiðiflotanum í land og krefjast leiðréttingar á fiskverði og aflahlut. Þetta hlaut einnig að gerast fyrr eða síðar. Ríkisstj. hefur skert aflahlut sjómanna aftur og aftur með því að taka stórar fúlgur af óskiptum afla og setja í ýmiss konar sjóði. Við Alþb.-menn höfum barist gegn þessum aðgerðum og varað við þeim, enda augljóst að þetta er fyrst og fremst gert til að snuða sjómenn. Það eru þessar aðgerðir ríkisstj. sem nú hafa komið öllu í hnút.

Það getur því engum dulist að nú eru illar blikur á lofti hvert sem litið er og harðvítug átök í vændum ef ekkert er að gert. Hvað er til ráða? hljóta menn að spyrja. Hvað er það sem gera þarf í þeim vanda sem við blasir ef þjóðin á ekki að ganga í gegnum enn eina efnahagslega kollsteypu á komandi vetri?

Ég nefni ekki grundvallarbreytingar á efnahagskerfi landsmanna, sem þó væru nauðsynlegar, vegna þess að þær taka sinn tíma.

Það, sem þörf er á hér og nú, eru skjót úrræði. Það verður að framkvæma samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum með endurnýjuðu samstarfi ríkisvalds og verkalýðshreyfingar.

Það þarf að minnka gjaldeyriseyðslu, ekki með verðbólguhvetjandi aðgerðum eins og gengislækkunum, heldur með tímabundinni innflutningsstöðvun nokkurra vörutegunda sem íslendingar geta framleitt sjálfir jafngóðar og með öðrum þeim ráðstöfunum sem beina eftirspurninni inn á við.

Það verður að hætta að beita gengislækkunarvopninu í innlendum kjaraátökum til að knýja fram tekjuskiptingu sem ekki verður við unað.

Það þarf að leiðrétta kjör fólksins svo að þau verði í viðunandi samræmi við sannanlegar tekjur þjóðarinnar og um leið að lækka vexti á rekstrarlánum til að auðvelda atvinnurekstrinum að greiða hærra kaup.

Það verður að hækka verulega lífeyrisgreiðslur til öryrkja og aldraðra, en vegna fjárhagsstöðu ríkissjóðs þarf til þess nýjan tekjustofn. Með því að greiða það fé jafnóðum út sem inn kemur er unnt að veita öllum lífeyrisþegum stórlega bætt kjör nú þegar, í stað þess að safna í sjóði sem brenna upp í eldi verðbólgunnar á fáum árum. Með þessu væri fyrsta skrefið stígið til að koma á fullkomnu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Það þarf að lækka verðlag á ýmsum sviðum með heinum ákvörðunum stjórnvalda til að stöðva dýrtíðarskriðuna. Það þarf að lækka söluskatt og afnema tollvörugjald.

En jafnframt þarf ríkissjóður miklar tekjur á móti til að standa undir þessum aðgerðum. Þeirra verður að afla með því að skattleggja að nokkru þann mikla hagnað sem nú er ekki skattlagður.

Ég nefni verðbólgugróðann. Við eigum að leggja nokkurn skatt á allar stóreignir sem bundnar eru lánum úr opinberum lánastofnunum. Það yrði réttlátur skattur á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég nefni afskriftarreglurnar. Hve margar eru ekki þær milljónir sem ríkið missir af á þessu ári vegna þess að eignir fyrirtækja eru ekki afskrifaðar með venjulegum hætti í samræmi við endingartíma sinn, heldur yfir 30% á hverju ári, þannig að samanlagðar afskriftir geta orðið mörg hundruð prósent á lengri tíma ef eigendaskipti verða. Upphæðin nemur vafalaust nokkrum þúsundum millj. kr., og skal ég nú rök styðja það nánar.

Á s. l. vetri fluttum við Alþb: menn tillögu hér á Alþingi um hreytingu á núgildandi fyrningarreglum. Tillagan var byggð á rannsókn sem gerð var á tekjuskattgreiðslum fyrirtækja í Reykjavík á s. l. ári. Gerð var skrá yfir félög sem ekki borguðu neinn tekjuskatt. Í þessu úrtaki voru aðeins fyrirtæki sem rekin voru í félagsformi, en ekki rekstur í nafni einstaklinga, og meðtalin voru aðeins félög sem höfðu nokkur umsvif og áttu aðsetur í Reykjavík.

Samkvæmt þessari könnun kom í ljós að hvorki meira né minna en 240 fyrirtæki sluppu algjörlega við að greiða tekjuskatt, þ. á m. mörg stærstu fyrirtæki landsins. Samanlögð velta þessara félaga var áætluð rúmlega 10 þús. millj. kr. Í umræðum, sem fram fóru um þessa tillögu, bentum við á að á þessu ári mundu enn fleiri fyrirtæki sleppa algjörlega við að greiða tekjuskatt vegna lagaákvæða um svonefndan fyrningarstuðul. Samt sem áður fengust stjórnarflokkarnir ekki til að sinna þessum ábendingum nema að óverulegu leyti, og því gat hámarksfyrning orðið hæst 28.5% við álagningu tekjuskatts á þessu ári.

Nú í sumar, eftir að skattskrár voru lagðar fram, hafa borist hávær mótmæli viða að, frá ýmsum, sem lýsa undrun sinni og hneykslun á því hvernig háttað er álagningu tekjuskatts á fyrirtæki og einstaklinga sem einhvern rekstur hafa með höndum.

Svo kröftug hafa þessi mótmæli verið að talsmenn stjórnarflokkanna hafa ekki komist hjá því að svara þeim, m. a. í ritstjórnargreinum stjórnarblaðanna. Og þá er ekki að sökum að spyrja: Talsmenn stjórnarflokkanna þykjast koma af fjöllum. Þetta þarf að athuga nánar, segja þeir við þjóðina með sakleysissvip, líkt og þeir hafi aldrei áður heyrt á þetta minnst. Það er bæði sanngirnismál og og réttlætiskrafa, segir Morgunblaðið í ritstjórnargrein 8. þ. m.

En til þess að menn skilji, að þetta mikla skattahneyksli er ekki aðeins spurning um réttlæti og ranglæti, heldur einnig stórfellt áfall fyrir fjárhagsafkomu ríkissjóðs á þessu ári, vil ég benda mönnum á að ef þeir fletta upp í skattskrá Reykjavikur fyrir þetta ár munu þeir sjá að fjöldi þeirra fyrirtækja, sem ekki greiða neinn tekjuskatt, hefur vaxið verulega á þessu ári. Í fyrra voru tekjuskattslaus félög í Reykjavík með ákveðna lágmarksveltu 240, í ár eru þau 416. Með hliðsjón af álögðum aðstöðugjöldum má áætla að samanlögð velta þessara 416 félaga sé yfir 20 þús. millj. kr.

Ég minni á að þetta er aðeins úrtak. Ótalin eru þau fyrirtæki sem rekin eru á ábyrgð einstaklinga, þau sem eru utan Reykjavíkur, fyrir utan þau mörgu fyrirtæki sem borga aðeins lítinn tekjuskatt, en þó einhvern.

Með þetta í huga og með hliðsjón af öðrum opinberum upplýsingum hef ég leyft mér að fullyrða að tap ríkissjóðs vegna þessara fáránlegu skattaákvæða nemi nokkrum þús. millj. kr., líklega ekki langt frá 4 þús. millj. kr., en til samanburðar má nefna að allir einstaklingar í landinu greiða samtals um 4 400 millj. kr. í tekjuskatt á þessu ári.

Fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, boðar nú stórfelldan niðurskurð á framlögum ríkisins til ýmissa brýnna mála. Algerum nauðsynjamálum, sem ekki þola bið, eins og viða gildir um byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, á nú að slá á frest, og fjmrh. telur sig ekki einu sinni hafa efni á að veita námsmönnum lán frá ríkinu til greiðslu námskostnaðar, a. m. k. ekki í sama mæli og verið hefur. Svo langt er gengið, að fyrirhugað er að skerða greiðslur til aldraðra og öryrkja og ráðast þar með enn einu sinni á garðinn þar sem hann er lægstur. En á sama tíma og þetta gerist neita stjórnarflokkarnir að skattleggja tekjur sem fram eru taldar og fyrir liggja og nema þúsundum milljóna króna. Þá er ekki verið að horfa í það þótt nokkrar milljónir eða milljónatugir verði eftir svona hér og þar í þjóðfélaginu, enda hefur víst gengið að sama skapi vel, eins og öllum er kunnugt, að safna fjárframlögum í flokkshús Sjálfstfl.

Ég ítreka það, sem við Alþb.-menn höfum oft áður sagt, að fyrningarreglunum verður að breyta aftur í fyrra horf, þannig að afskriftir miðist við eðlilegan endingartíma eigna, eins og var fyrir aðeins fáum árum.

Það þarf að endurskoða ýmsa frádráttarliði skattalaga, t. d. að koma í veg fyrir að menn geti gert sig skattlausa með gífurlegum frádrætti vegna vaxtakostnaðar. Og jafnframt verður að tryggja að þeir einstaklingar, sem reka fyrirtæki á eigin ábyrgð, komist ekki upp með að fela tekjur sínar á bak við einkarekstur sem bókhaldslega stendur á sléttu. Það verður að áætla laun slíkra manna og ganga út frá því sem gefnu að menn lifi ekki á loftinu einu saman.

Herra forseti. Í dag eru tveir íslenskir ráðherrar staddir í Lundúnum í þeim tilgangi að reyna að semja við breta um landhelgismálið. Áður en þeir fóru vissu þó fæstir um hvað þeir ætluðu að semja, og á því leikur einnig nokkur vafi hvort þeir vissu það sjálfir. Hitt vissu landsmenn almennt þegar ráðherrarnir yfirgáfu landið að mikið er í húfi að ekki verði gerður nýr samningur við breta um áframhaldandi undanþágur til veiða innan íslenskrar landhelgi. Fyrir fáum dögum sendi Hafrannsóknastofnunin frá sér skýrslu þar sem færð eru rök að því að þorskstofninn á Íslandsmiðum geti brunið niður á fáum árum ef ekki verður stórlega dregið úr sókn veiðiskipa í stofninn. Stofnunin leggur því til að hámark þorskaflans á Íslandsmiðum verði 230 þús. lestir á næsta ári, en það jafngildir því að veiði íslenskra skipa vaxi ekki frá því sem var á þessu ári, heldur haldist óbreytt, en veiði erlendra skipa sé algjörlega stöðvuð. Sérhverjar undanþágur til erlendra skipa munu því kosta íslendinga samsvarandi aflaminnkun, nema menn vilji taka þá áhættu að líkt fari með þorskinn eins og með síldina — hann hverfi af miðunum á næstu árum.

Fólkið í landinu hefur skilið það rétt, eins g fram hefur komið í fjölmörgum samþykktum á undanförnum mánuðum, að okkur er það lífsnauðsyn að beita öllu afli okkar til að stöðva veiðar útlendinga á miðunum umhverfis landið og þá sérstaklega innan 60 mílna markanna þar sem um það bil 98% af þorskafla innlendra og erlendra skipa er fenginn.

Flest bendir til þess að við getum stöðvað þessar veiðar eða því sem næst ef við einbeitum okkur að því af alefli, og þjóðin hefur ekki heyrt nein þau rök sem knýja okkur til að gera nýja undanþágusamninga. Bretar og vesturþjóðverjar hafa fengið nægan umþóttunartíma til að laga sig að nýjum aðstæðum því að meira en 4 ár eru nú liðin síðan þessum ríkjum og öðrum var tilkynnt um útfærsluna í 50 mílur.

Góðir hlustendur. Tími minn er á þrotum. Ég hef leitt að því rök að þau vandamál sem við er að glíma: þröng fjárhagsstaða ríkissjóðs, gjaldeyrisskortur, einstæð verðbólga, allsherjarverkfali sjómanna og yfirvofandi aðgerðir opinberra starfsmanna og flestallra verkalýðsfélaga í landinu — allt er þetta eðlileg og rökrétt afleiðing af rangri stjórnarstefnu. Ríkisstj. er að sigla öllu í strand. Ráðleysi hennar er með eindæmum og afleiðingarnar blasa hvarvetna við.

Svo ætlar þessi ríkisstj. að leyfa sér ofan á allt annað að fara að semja við breta um áframhaldandi fiskveiðiréttindi í íslenskri landhelgi þrátt fyrir hina ískyggilegu skýrslu Hafrannsóknastofnunar og þveröfugt við augljósan vilja þjóðarinnar sem komið hefur fram í fjöldamörgum samþykktum manna úr öllum stjórnmálaflokkum.

Þessi ríkisstj. er búin að ofbjóða þjóðinni. Hún hefur þegar sýnt að hún er óhæf til að leysa úr aðsteðjandi vanda. Hún á að víkja, því fyrr, því betra.

Þjóðin þarf vinnufrið. Hún þarf aðra stefnu í efnahagsmálum, — vinstri stefnu. Hún þarf nýja og djarfa forustu í landhelgismálum. Hún þarf nýja vinstri stjórn.