19.12.1975
Neðri deild: 41. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. félmn. sem skoðað hefur þetta frv. og lagt fram nál. sitt á þessum fundi. Hef ég í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem þar kemur fram, að ég styð þetta frv. Hins vegar vildi ég gefa á því nokkrar skýringar og gera grein fyrir því hvernig ég skil ákveðið atriði í sambandi við meðferð þessa máls.

Þegar um er að ræða breytingu á kostnaðarskiptingu, eins og hér á sér stað, þá er alltaf nokkurt vandamál hvernig og hvar eigi að skera á og hvernig með eigi að fara ýmsan þann kostnað sem þegar hefur komið fram. Samkv. þeirri till., sem frsm. n. hefur væntanlega gert grein fyrir, verður bætt inn ákvæði um að lögin taki gildi 1. jan. 1976. Það hafði fallið niður. Ef það verður samþykkt tekur þetta nýja fyrirkomulag gildi frá og með áramótunum. Þá mátti hugsanlega skilja þessa breytingu svo, að sá hluti kostnaðar, sem fallið hefði í hlut ríkissjóðs vegna rekstrar og viðhalds á árinu 1975, yrði gerður upp við gildistöku þessara laga og síðan mundu þær tekjur, sem hljótast af söluskattshlutdeildinni, mæta þeim útgjöldum sem sveitarfélögin þurfa að taka á sig á næsta ári, þannig að það kæmu jafnóðum tekjur til þeirra útgjalda sem stofnað væri til. Nú hefur mér skilist að þetta sé ekki þannig hugsað, heldur sé ætlunin að söluskattshlutdeildin, sem innheimtist á árinu 1976, sé hugsuð til að mæta þeim kostnaðarhluta sem ríkissjóður hefði ella þurft að taka á sig vegna viðhalds og rekstrar árið 1975.

Við skulum aðeins glöggva okkur á þessu betur. Samkv. skýrslum, sem ég hef fengið frá borgarsjóði Reykjavíkur, var kostnaðarhluti ríkissjóðs í þeim verkefnum, sem eru færð á árið 1976, 133 millj. kr., og gert er ráð fyrir því, miðað við áætlanir sem liggja fyrir um árið 1976, að þá hefði kostnaðarhluti ríkissjóðs af þessum sömu verkefnum numið 209 millj. árið 1976. Mun vera áætlað að hlutdeild borgarsjóðs í söluskattsprósentunni sé um 180 millj. á næsta ári. Þá vil ég skilja það svo og ég samþykki frv. með þeim skilningi að söluskattshlutdeildin, sem innheimtist á næsta ári, sé upp í þann kostnað sem ríkissjóður ella hefði haft af sínum hluta fyrir árið 1975, en ekki þannig, að þetta falli niður, 130 millj., sem inn komu árið 1975, hér sé sem sagt um það að ræða að söluskatturinn sé greiddur eftir á, eins og reyndar hefur verið gert hingað til.

Þetta vildi ég láta koma fram, þennan skilning minn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að enginn sé í vafa um hvernig þetta skuli framkvæmt, ég hef orðið var við að nokkurs misskilnings og uggs hefur gætt hjá vissum sveitarstjórnarmönnum vegna þessa atriðis og því vildi ég árétta þann skilning minn, sem ég held að sé jafnframt skilningur þeirra sem leggja fram frv. og hafa hér mælt fyrir því. Fleiri athugasemdir hef ég ekki að gera, en ítreka stuðning minn við þetta frv.