19.12.1975
Efri deild: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Þetta frv. mun hingað til okkar komið aftur vegna mjög slæmra formgalla, sem á því voru frá upphafi, og sannar náttúrlega vel þá hörðu gagnrýni á vinnubrögð öll hér á Alþ. þessa síðustu daga. Mér skilst að hvort tveggja hafi gerst, að vitnað hafi verið í vitlaus lög, og einnig hitt, að lögin hafi aldrei átt að öðlast gildi.

Engir hafa orðað þessa gagnrýni harðar en hv. þm. Steingrímur Hermannsson, og það er hægt að taka fyllilega undir það sem hann sagði hér í gærkvöld um þessi vinnubrögð. Ég játa það nú, að ég hafði raunar tekið eftir þessu um lagagildið, en ég hugði það bara í samræmi við frv. í heild.

Hitt var svo einnig mjög eðlilegt, að vitnað væri í vitlaus lög, svo óviturleg sem lagasetning þessi er, þótt það sé reyndar af miklu fleira að taka hér á þessum dögum. En um leið og ég hlýt að ítreka enn mótmæli mín gegn þessum vinnubrögðum, þá langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að orða þetta á þennan veg varðandi þessi tvö atriði sem valda því að frv. er komið aftur til okkar:

Illa kunna öll sín fög,

eins er keimlík frumvarpsgerð.

Vitnað er í vitlaus lög

þó verri séu hér á ferð.

Annmarki þar einhver fylgdi,

allt var gert í tímapressu,

lögin aldrei öðlast gildi.

Ætli færi ei best á þessu?