19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

128. mál, frestun á fundum Alþingis

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við þm. Alþfl. styðjum það að þessari till. verði ekki vísað til n. og munum greiða atkv. með henni, enda till. flutt að höfðu samráði við form. þingflokkanna, eins og hæstv. forsrh. tók fram. En ég vek sérstaka athygli á því, eins og raunar hv. fyrri ræðumaður gerði einnig, að með afgreiðslu till. er Alþ. að veita hæstv. ríkisstj. heimild — formlega heimild, réttarlega heimild — til útgáfu brbl. Samþykki okkar við þessa málsmeðferð, samþykki okkar við till. er því háð þeirri forsendu, ef ég má taka svo til orða, að heimild til útgáfu brbl. verði ekki notuð nema að höfðu samráði við stjórnarandstöðuna. Mæli ég þetta vegna þess, sem raunar þegar hefur verið á bent, en ég vil bara ítreka frekar, að fyrir dyrum standa samningar við nær öll launþegasamtök í landinu. Ef von á að vera til þess að samningar takist fyrir þann síðasta frest sem veittur er fyrir Alþ. til að koma saman í till. þessari, þá má ganga út frá því sem vísu að ríkisstj. þurfi að eiga þar einhvers konar aðild að. Þess vegna legg ég á það sérstaka áherslu og tek það fram að í samþykki okkar þm. Alþfl. við þessa málsmeðferð felst það, að við gerum ráð fyrir að ríkisstj. noti ekki heimild sína til útgáfu brbl. sem kunna að reynast nauðsynleg í sambandi við kjaraviðræður eða kjarasamninga, nema að höfðu fyllsta samráði við stjórnarandstöðuna. Við áskiljum okkur einnig rétt til að beina því til ríkisstj. einhvern tíma fyrir 26. jan. sem er síðasti dagur sem þing verður og hlýtur að koma saman á, að hún kveðji Alþ. saman í stað þess að nota rétt sinn til útgáfu brbl. Svo vandasöm mál getur borið að höndum á þessum tíma í sambandi við kjarasamningana, að við teljum rétt að brbl.-rétturinn verði ekki notaður, heldur að Alþ. verði beinlínis kvatt saman, en í till. felst það, að að sjálfsögðu má kalla þingið saman fyrir 26. jan. Það má ekki draga það lengur en til 28. jan. að kalla Alþ. saman. Í samþykki okkar við till. felst sem sagt einnig það, að við áskiljum okkur rétt til að beina því til ríkisstj., ef okkur þykir ástæða til. að hún kveðji Alþ. saman fyrr en 26. jan.