19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

1. mál, fjárlög 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég allrækilega grein fyrir afstöðu okkar til þeirrar stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum sem það fjárlagafrv., sem nú er komið á lokastig, gerir ráð fyrir. Ekkert hefur frá þeim tíma komið fram sem gefur tilefni til að milda neitt gagnrýni, hvorki á þá stefnu, sem framfylgja á, né heldur þau vinnubrögð, sem uppi hafa verið.

Það var um það getið við 2. umr. og einnig hér í kvöld af hv. þm. Geir Gunnarssyni að óvenjulega margir stórir málaflokkar hefðu nú verið óafgreiddir þegar 2. umr. fjárl. fór fram, miðað við það sem áður hefur verið, og svo til enginn tími gefist frá þeirri umr. til þessarar, sem nú fer fram til þess að vinna að neinu gagni eða skoða hina ýmsu málaflokka af neinu viti, til þess að með eðlilegum hætti megi teljast að um þá hafi verið fjallað. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð, og því miður virðist hæstv. fjmrh. ekki vera ljóst með hversu miklum ólíkindum hér hefur verið staðið að málum í sambandi við fjárlagafrv.

Ég harma það mjög að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa opnast sýn í þeim efnum, að það þurfi hér um að bæta frá því sem nú er í sambandi við vinnubrögð og afgreiðslu fjárlaga og raunar miklu fleiri atriða í sambandi við störf hér á hv. Alþ. Hann sagði við 2. umr. fjárl. að sér virtist ekki vera hér um neitt öðruvísi vinnubrögð að ræða en mörg undanfarin ár sem hann hefur átt sæti hér á hv. Alþ., og er því miður ekki við góðu að búast þá eða úrbótum í málum sem þessu, þegar þeir, sem ferðinni ráða, gera sér ekki ljóst að úrbóta er þörf. Það er frumskilyrði þess, að hægt sé að breyta málum til hins betra, að þeir, sem fyrst og fremst hafa þar áhrif á, geri sér ljóst að það þarf úrbóta við.

En frá því að 2. umr. fjárl. fór fram og í sambandi við þær afgreiðslur, sem átt hafa sér stað síðan í hinum ýmsu málaflokkum, hefur verið haldið sömu stefnu og upp var tekin og boðuð í fjárlagafrv., þ. e. a. s. hún einkennist af miklum niðurskurði og samdrætti í fjárveitingum til fjárfestingarframkvæmda og hinna ýmsu félagslegu styrkja og samfélagslegrar þjónustu og fyrirgreiðslu.

Ég skal ekki að þessu sinni, nema þá að frekara tilefni gefist til, ræða öllu frekar almennt um fjárlagafrv. og þá stefnu sem það boðar, en ég ætla með örfáum orðum að gera grein fyrir nokkrum brtt. sem ég stend að ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Nú kann það að koma einkennilega fyrir sjónir hv. þm. að einstakir fjvn.-menn flytji brtt. til hækkunar við afgreiðslu fjárl. Oftast hefur það verið svo, að tiltölulega lítið hefur verið um slíkan tillöguflutning af hálfu fjvn.-manna. Hefur það fyrst og fremst kannske byggst á því, að í velflestum tilvikum hefur fjvn.-mönnum, þótt í stjórnarandstöðu væru, tekist að fá fram leiðréttingar til hækkunar á ýmsum fjárveitingum sem þeir hafa lagt áherslu á. Þessu er öðruvísi varið nú. Við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. hefur það verið svo í fjvn., að a. m. k. við stjórnarandstæðingar og raunar stjórnarliðar líka hafa tiltölulega litlu fengið ráðið eða um þokað frá því, sem hæstv. ríkisstj. var búin að ákvarða um þegar fjárlagafrv. var lagt fram.

Á þskj. 274 flyt ég ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni brtt. í sambandi við sjúkraflug. Það var getið um það hér í umr. við 2. umr., ekki síður af stjórnarsinnum sumum hverjum heldur en okkur stjórnarandstæðingum, að hér væri málefni á ferðinni sem nauðsynlegt væri undir öllum kringumstæðum að hækka mjög verulega frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Hér er um slíka þjónustu að ræða á þeim svæðum landsins sem eru mjög einangruð langan tíma úr ári mörg hver svo til allan veturinn. Er því nauðsynlegt í alla staði að sjá svo um að sú þjónusta, sem þarna er af hendi innt, sé með sem bestum hætti og a. m. k. að þannig sé að málum staðið af hálfu hins opinbera í þessu tilviki að reynt sé með öllum tiltækum ráðum að gera þessum fjölda fólks, sem er einangrað langan tíma úr ári, kleift að vera í einhverju sambandi við umheiminn. Sá styrkur, sem þarna er um að ræða, hefur verið veittur til nokkurra lítilla flugfélaga sem annast hafa þjónustu á þessum svæðum, nauðsynlega öryggisþjónustu. Þessi styrkur var á fjárl. ársins í ár 2.5 millj. Það gefur auga leið að það er ekki mikill stuðningur við svo mjög nauðsynlega þjónustu sem þarna er um að ræða. Í meðförum fjvn. hygg ég að þessi styrkur hafi verið hækkaður um 1 millj. Síðast þegar ég vissi var hækkunin orðin 1/2 millj., en mér sýnist að það hafi bæst 1/2 millj. við síðan, þannig að það hafi verið hækkað um 1 millj. í heild.

Þær umsóknir, sem borist höfðu í sambandi við aukningu á þessum styrk, eru að sjálfsögðu langtum hærri en hér er um að ræða. En sú brtt., sem ég stend að ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, gerir ráð fyrir því, að þessi styrkur hækki frá því að vera 2.5 millj. í frv. í það að verða 5 millj. Þessi styrkur var hækkaður tiltölulega lítið við síðustu afgreiðslu fjárl. Allur tilkostnaður hefur stórkostlega aukist og er sýnt að í nokkrum tilvikum a. m. k. er fyrirsjáanlegt að þessi þjónusta muni leggjast niður, bókstaflega leggjast niður, ef ekki verður hér ráðin bót á og veruleg lagfæring á þessu gerð. Ég veit a. m. k. í sambandi við flugfélagið Erni á Ísafirði, sem sinnir þessu verkefni og þjónustu á Vestfjörðum, að það er fyrirsjáanlegt, ef þessi aðili fær ekki verulega aukinn styrk, að þá leggst þessi þjónusta niður.

Það er rétt að minna á það að í hinum nýsamþykktum lögum um heilbrigðisþjónustu er ráð fyrir því gert að heilbr.- og trmrn. geti tekið upp samninga um vissa þætti í sambandi við öryggisþjónustu ásamt dómsmrn. og í sambandi við Landhelgisgæslu. Ég held að það sé orðin brýn nauðsyn á því að eitthvað fáist út úr þessari nýju löggjöf, ekki síst vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að a. m. k. þetta flugfélag — og svo mun líklega vera um fleiri — mun leggja niður sína starfsemi ef ekki verður hér bót á ráðin.

Á sama þskj., 274, flyt ég ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni einnig brtt. og er hún í sambandi við Menntaskólann á Ísafirði. Þar hafa staðið yfir byggingarframkvæmdir um nokkur ár, eru þó komnar á eftir a. m. k. tvö ár, og það kom okkur Vestfjarðaþm. a. m. k. mjög á óvart þegar það sást í fjárlagafrv. að í miðjum klíðum á byggingaráætlun og byggingartímanum er bókstaflega felld niður fjárveiting til frekari framkvæmda, þannig að eins og frv. kom fram og eins og það er enn, þá er um núllfjárveitingu að ræða til framkvæmda við menntaskólabygginguna á Ísafirði. Í fjárl. ársins í ár var þarna um að ræða 62 millj. kr. fjárveitingu, og í aths. með fjárlagafrv. fyrir árið 1975 var þess getið að þessari fjárveitingu yrði ráðstafað til þess að ljúka heimavist og mötuneytisbyggingu og hefja byggingu kennslustofa, þ. e. a. s. þess áfanga sem nú er óhafinn, þ. e. a. s. kennsluhúsnæðis fyrir menntaskólann.

Það er rétt að vekja athygli á því í sambandi við mál Menntaskólans á Ísafirði að öll kennsla við þann skóla hefur farið fram og fer fram enn í bráðabirgðahúsnæði, í húsnæði sem bæjaryfirvöld hafa út úr neyð tekið af barnaskólanum á Ísafirði og húsnæði sem raunar var ætlað til afnota fyrir báða skólana á grunnskólastiginu á Ísafirði, þ. e. a. s. barnaskólann og gagnfræðaskólann. Nú er þessi samningur, sem gerður var við menntmrn. á sínum tíma, útrunninn og enginn veit með hverjum hætti þessi mál leysast. Það er líka vert að vekja athygli á því, að ekkert er veitt til framkvæmda í fjárveitingum á grunnskólastigi til Ísafjarðar, svo að hér er ekki einvörðungu um að ræða málefni menntaskólans, heldur er þetta í heild tekið málefni menntaskólans, barnaskólans og gagnfræðaskólans, vegna þess að þetta er allt samofið eins og hefur verið að málum staðið. Vegna þess að menntaskólinn er með sína kennslu í hinu gamla barnaskólahúsi er útilokað að halda uppi lögboðinni kennslu í ýmsum greinum á barnaskólastiginu, og það er einnig vert að vekja athygli á því, að gagnfræðaskólinn er nú í húsnæði sem er einungis 1/3 þess byggingarnorms sem menntmrn. kveður á um fyrir þann nemendafjölda sem þar stundar nú nám, þannig að það er ekki ofsögum sagt, að ef haldið verður fast við þá stefnu að veita ekki eyri til framkvæmda við byggingu kennsluhúsnæðis fyrir Menntaskólann á Ísafirði, eins og allt hendir til, þá er fyrirsjáanlegt að málið tefst enn um eitt ár, þ. e. a. s. þriðja árið sem það er orðið á eftir því sem upphaflega var ætlað.

Nú skal ég ekki um segja hver er orsök þess að tekin var sú ákvörðun að ekki skyldi veita neina fjárveitingu til áframhaldandi byggingarframkvæmda við menntaskólann. Ég skal ekkert um það fjalla eða um það fullyrða. En eitt er víst, að ef haldið verður við þetta, þá er ekki einungis stefnt í algert óefni að því er varðar menntaskólann, heldur og líka langvarandi óefni að því er varðar gagnfræðaskólann og barnaskólann á Ísafirði, því að allt þetta mál er samtengt vegna þeirra aðstæðna sem þarna hafa skapast í sambandi við kennslumálin.

Í þessari brtt. gerum við ráð fyrir að inn verði tekinn nýr liður fyrir Menntaskólann á Ísafirði, gjaldfærður stofnkostnaður 20 millj. kr., en það er talið þurfa til þess að hægt verði að koma upp grunni og steypa plötu, þannig að það frestist þó ekki um heilt ár til viðbótar því sem nú er. Það skal sérstaklega tekið fram í sambandi við þetta, að þessi 20 millj. kr. fjárveiting er af okkar hálfu hugsuð sem framkvæmdafé á árinu 1976, til byrjunar á framkvæmdum við kennsluhúsnæðið, og þá við það miðað að það væri hægt að koma upp grunni og steypa plötu.

Í þriðja lagi mæli ég hér fyrir till. sem ég flyt ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, en það er í sambandi við Flóabátastyrkinn. Hv. 4. þm. Vesturl., Friðjón Þórðarson, frsm. fyrir nál. samvn. samgm., gerði hér grein fyrir þessum málaflokki allítarlega, Hann gat þess að aðeins einn af nm. í samvn. samgm. hefði skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og það er einmitt ég sem það gerði, fyrst og fremst vegna þess að mér er það alveg ljóst, að á nákvæmlega sama hátt og við blasir alger stöðvun í sambandi við sjúkraflugsþjónustu og aðra þá þjónustu sem innt hefur verið af hendi af flugfélaginu Erni á Ísafirði innan Vestfjarðasvæðisins, — á nákvæmlega sama hátt blasir við alger stöðvun hjá Djúpbátnum hf., þ. e. a. s. Fagranesinu, ef ekki verður hækkaður sá styrkur, sem því er ætlaður á fjárlögum, frá því sem nú hefur verið gerð till. um, þ. e. a. s. 17 millj. kr.

Það má segja að allt til ársins 1972 hafi Fagranesið notið tiltölulega lítils styrks úr ríkissjóði vegna þeirrar þjónustu sem það veitir vestra. En frá því á árinu 1972 hefur sigið á ógæfuhlið í rekstri bátsins, og að því er mig áhrærir a. m. k., þá tel ég að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða að það verði ekki fram hjá því gengið að taka fullt tillit til þess hvernig það mál stendur nú. Hv. þm. Friðjón Þórðarson gerði grein fyrir því að allar upplýsingar í sambandi við reksturinn frá þessu fyrirtæki væru til fyrirmyndar, þar lægi allt ljóst fyrir. Staðreyndin er sú, að þeir telja að þeir þurfi 28 millj. kr. styrk á árinu 1976 til þess að geta rekið Fagranesið með eðlilegum hætti á næsta ári. Og ég vil leggja sérstaka áherslu á það, að hér er um svo nauðsynlega þjónustu að ræða fyrir þennan afskekkta landsfjórðung að það verður ekki með neinum hætti varið að taka ekki fyllsta tillit til þessa, þegar það liggur fyrir viðurkennt að ástandið er eins og gerð hefur verið grein fyrir hér. En það er nú ekki svo að við gerum till. um að fara upp í 28 millj. kr. styrkveitingu. Í áliti samvn. samgm. er gert ráð fyrir að Fagranesið fái 17 millj. kr. styrk. Við gerum ráð fyrir í okkar brtt. að sú upphæð verði 21 millj., og ég fyrir mitt leyti a. m. k. tel að þar sé vægt í sakir farið, en það er sama upphæð og flóabáturinn Baldur fær samkv. till. samvn. samgm. Þó að ég vilji á engan hátt draga úr nauðsyn þessarar fjárveitingar til flóabátsins Baldurs, — ég hygg að hún sé nauðsynleg, — þá sé ég ekki að það sé með neinum hætti réttlætanlegt, þegar svo er komið rekstri Fagranessins eins og raun ber vitni, að halda því í algeru lágmarki og kannske langt fyrir neðan það, miðað við þá aðra báta sem styrkveitingar njóta. Og ég hef verið talinn heldur gagnrýninn og harðorður í sambandi við hina margumtöluðu Akranesferju, Akraborgina. Í þessari till. er gert ráð fyrir að hún verði með 15 millj. kr. fjárveitingu, og vel má vera að henni veiti ekki af því. En ef slík styrkveiting er réttlætanleg, miðað við þær aðstæður sem eru á þessum stað, þá er vissulega réttlætanleg styrkveiting upp á 21 millj. kr. til Fagranessins, miðað við þær aðstæður sem það fólk, sem Djúpbáturinn veitir þjónustu, býr við stóran hluta af árinu þegar það er einangrað svo að langtímum skiptir. Hér er sem sagt um að ræða að við gerum till. um að Djúpbáturinn hf. fái sömu styrkveitingu og flóabáturinn Baldur, ég a. m. k. fyrir mitt leyti verð að telja að ekki sé ósanngjarnt að fara fram á slíkt.

Það er rétt að minna á það, að Fagranesið hefur árum saman verið með miklu lægri styrk en t. d. Baldur. Það er því eðlilegt, þegar staðreyndir sýna fram á hver þörf er nú ef ekki á illa að fara, að tekið sé tillit til þess, ekki kannske síst með hliðsjón af því sem á undan er gengið.

Þetta eru þær till. sem ég ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni ber fram nú við 3. umr. Á sama þskj., 274, flyt ég till. ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni og Jóni Árm. Héðinssyni, en það er í sambandi við heimildagrein. Á fjárl. ársins 1974 og fjárl. ársins 1975 hefur verið heimild fyrir Hafnabótasjóð til þess að taka lán að upphæð allt að 40 millj. kr., ef ég man rétt, bæði árin, til þess að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir af lögum og háum lánum. Þetta var tekið inn í fjárlög ársins 1974 fyrst og þá gert með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði, sem er í gildandi hafnalögum, þar sem gert er ráð fyrir að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir. Það ætti ekki að þurfa að ítreka það hér hversu slæm staðan er hjá ýmsum og að öllum líkindum flestum hafnarsjóðum í landinu. Því er nauðsynlegt að það verði gert virkt, þetta ákvæði gildandi hafnalaga, og séð verði fyrir fjármagni til þess að það verði framkvæmanlegt.

Hvorki á árinn 1914 né 1975 hefur hæstv. samgrh. eða hæstv. ríkisstj. séð ástæðu til þess að nýta þessa heimild í fjárl. til þess að gera virkt þetta ákvæði gildandi hafnalaga. Hvorugt áranna hefur þetta verið gert. Og það lá fyrir á lokafundi fjvn.hæstv. samgrh. mundi ekki kæra sig um að fá slíka heimild inn í fjárlög fyrir árið 1976, þ. e. a. s. hæstv. ráðherrar kæra sig ekki um að láta verða virkt það ákvæði gildandi hafnalaga sem fyrst og fremst var til þess ætlað að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem verst eru settir.

Varðandi þessa brtt. er það að segja, að við gerum ráð fyrir að Hafnabótasjóði verði heimilt að taka 50 millj. kr. lán í þessu skyni, til þess að sinna þessu verkefni. Ég vænti þess að hv. þm. stjórnarliðsins séu a. m. k. ekki orðnir svo þrælhlekkjaðir af hálfu hæstv. ríkisstj. að þeir sjái sér ekki fært a. m. k. að greiða þessari brtt. atkv. Það getur a. m. k. ekki skaðað að það verði fyrir hendi heimild í fjárl. til að sinna þessu mjög svo nauðsynlega og brýna verkefni sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki sinnt tvö undanfarin ár. Hvað sem um aðrar till. má segja, þá trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að hv. stjórnarliðar séu það þrælbundnir í flokksviðjum stjórnarflokkanna að þeim leyfist ekki að hleypa slíku máli sem þessu í gegn. En komi það í ljós, þá verður að sjálfsögðu að taka því. Þá eru menn reynslunni ríkari á eftir (Gripið fram í: Það þýðir karlmennsku.) Að sjálfsögðu. Það er margt, sem dynur yfir menn þessa síðustu og verstu daga, sem reynir á karlmennsku í sambandi við það sem hér er að gerast á hv. Alþ., og ég vona að menn kikni ekki þrátt fyrir það.

Ég hef þá lokið, herra forseti, að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt hér ásamt öðrum hv. þm. Ég vil að lokum segja það, að ég vænti þess, þar sem hér er um að ræða í öllum atriðum mjög brýn og nauðsynleg mál sem kosta tiltölulega lítið miðað við það verkefni sem hér er verið að sinna, að hv. þm. sjái sér fært að greiða þeim atkv. þannig að þau nái fram að ganga.