19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

1. mál, fjárlög 1976

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 274 till. varðandi flugmál með hv. þm. Helga F. Seljan. Það er VI. till. á þessu þskj. og gerir ráð fyrir að í upptalningu þá, sem greint er frá á þskj. 242, brtt. frá fjvn., verði bætt við tveimur nýjum liðum, þ. e. varðandi flugvallargerð á Vopnafirði 5 millj. kr. og flugvallargerð á Djúpavogi 3 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að liðurinn „til annarra flugvalla, viðhalds og tækjakaupa“ lækki að sama skapi eða um 8 millj. kr. og verði 24 millj. kr. í staðinn fyrir 32, eins og er í till. fjvn. eins og þær liggja nú fyrir.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um ástæður fyrir þessari till. Báðir eru þessir staðir þannig í sveit settir að þeir þurfa mjög á bættum samgöngum að halda. Vopnafjörður liggur fjarri ýmsum þeim stöðum og svæðum á landinu sem hann þarf að hafa mikil viðskipti við og vegasamband er mjög lélegt. Sá staður byggir mjög mikið orðið á flugsamgöngum, en flugvöllurinn þar er enn illa útbúinn og illa gerður og það er orðið mjög aðkallandi að sinna honum meira en gert hefur verið. Svipað má segja um Djúpavog, hann liggur líka alllangt frá ýmsum stöðum sem hann þarf mjög að hafa samskipti við og samgöngur eru lélegar við staðinn, en þar er kominn mikill flugvöllur sem þarf að lagfæra, og hefur verið þrýst allmikið á að heiman um að fá þessar framkvæmdir unnar. Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að við flytjum þessa till., þar sem ekki er gert ráð fyrir því í þeirri sundurliðun, sem fyrir liggur í till. fjvn., að fé verði lagt í flugvallargerð á þessum stöðum.

Þá flyt ég einnig brtt. á þskj. 278, þrjár tillögur.

Sú fyrsta, sem er I. till. á því þskj., varðar stofnkostnað iðnskóla í Neskaupstað. Í till. fjvn. er gert ráð fyrir að verja til þeirrar skólabyggingar 500 þús. kr. Er þar aðeins um viðbótarfjárveitingu að ræða við fyrri fjárveitingar sem allar hafa verið aðeins til undirbúnings. Byggingin hefur sem sagt fengið fjárveitingar nú í nokkur ár, en ekki svo miklar að hægt hafi verið að ráðast í byggingarframkvæmdir. Iðnskólinn í Neskaupstað er eini iðnskólinn á öllu Austurlandi, sem er ætlað að hafa það verkefni með höndum samkv. lögum. Hann verður nú að búa við leiguhúsnæði og býr því við mjög þröngan kost. Það er því orðin knýjandi nauðsyn að fjárveiting verði það rífleg til þessa skóla að hægt sé að ráðast þar í byrjunarframkvæmdir. Af þeim ástæðum legg ég til að áætluð fjárveiting verði hækkuð úr 500 þús. kr. upp í 5 millj.

Önnur till. mín á þessu þskj. verðar Ríkisútvarpið, sjónvarp. Þar legg ég til að framlag ríkisins verði hækkað úr 33 millj. kr. í 63 millj. kr. eða um 30 millj. og þessari hækkun verði allri varið til fjárfestingarframkvæmda á vegum sjónvarpsins, þar sem fram sé tekið að af heildarfjárfestingarliðnum, 60 millj., sem þá yrði, verði varið 50 millj. til umbóta á dreifikerfi sjónvarpsins. Lagt er til að fjvn. skipti þessari fjárhæð milli einstakra framkvæmda.

Það hefur mikið verið um það rætt á hv. Alþ. að gera þurfi myndarlegt átak til þess að lagfæra ýmislegt varðandi dreifikerfi sjónvarps og verður auðvitað að ætla þessu nægilegt fjármagn. Ég tel að miðað við heildarfjármál þessarar stofnunar megi það ekki vera minna, eins og nú er komið málum, en að ætla 50 millj. í þessu skyni á næsta ári, til þess að gera umbætur varðandi dreifikerfið. Hafa þegar komið fram till. um að hækka útvarps- eða sjónvarpsgjöld almennings í landinu til þess að hægt sé að leysa þetta verkefni. Vissulega er það leið, en hún er að mínum dómi ekki sanngjörn því að þar með er verið að leggja sérstakan skatt einnig á þá sem verða að búa við það og hafa búið við það árum saman að hafa alveg ófullnægjandi sjónvarpsaðstöðu. Þeir eru nú knúðir yfirleitt til þess að borga full gjöld, þrátt fyrir það að þjónustan sé varla hálf, og því tel ég að það megi ekki vera um minna fjármagn að ræða af hálfu ríkisins í þessu skyni en hér er lagt til.

Þriðja till. mín á þessu þskj., 278, varðar byggingu læknisbústaðar í Neskaupstað. Legg ég til að þar komi nýr liður undir upptalningu um framkvæmdir varðandi læknisbústaði: Neskaupstaður með 4 millj. kr. Hér er um það að ræða að ætla greiðslu af vangoldnu fé af hálfu ríkisins, en samkv. upplýsingum frá bæjarstjóranum í Neskaupstað er vangoldið af hálfu ríkisins til þessarar byggingar rúmlega 4 millj. kr. Hann sækir að vísu um enn meira til þess að geta lokið við bygginguna, en ég tel að lágmarkið sé það, að ætluð sé í þessum fjárl. fjárhæð til að borga það sem ríkið skuldar í sambandi við þessa framkvæmd og er búið að skulda nú í alllangan tíma. Er í rauninni furðulegt að það skuli ekki tekin upp nein fjárveiting til þessarar byggingar, á sama tíma sem lagt er til að leggja nokkurt fé til þeirra framkvæmda sem ekki er byrjað á enn þá. Þarna er um það að ræða að borga skuld sem orðin er.

Ég stend að fleiri brtt., sem aðrir munu tala fyrir, og þarf því ekki að tala fyrir fleiri brtt., en ég vænti þess, að þessar till. mínar fái náð hjá þeim meiri hl. sem hér ræður ríkjum.