19.12.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

1. mál, fjárlög 1976

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir eyddi áðan löngu máli og góðu í að skýra frá samgönguvandamálum byggðanna. Ég sat ásamt henni í samstarfsnefnd um samgöngumál, þar sem fjallað var einmitt um þau atriði sem hv. þm. og áður hv. þm. Karvel Pálmason fjölluðu um öðrum fremur í ræðum sínum. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir kvaðst að loknum mjög svo glöggum rökstuðningi sínum fyrir þörf á bótum í samgöngumálum dreifbýlisins og þá sérstaklega vetrarsamgöngunum ekki gera þetta í þeirri von að sér tækist að knýja fram úrbætur nú, enda þótt þessi mál ættu skilningi að mæta hjá mjög mörgum þm. En í þessari sömu ræðu kvaðst hún mundu greiða að þessu sinni atkv. gegn úrbótum, nauðsynlegum úrbótum, og færði fram skýringar á því hvers vegna hún teldi sig til knúða. Skýringin er sú, þótt hún noti ekki þau orð, að hún er aðili að samsæri um ríkisstj. sem er byggðunum fjandsamleg í raun og fólkinu sem býr þar og aðhyllist allt aðra stefnu í byggðamálum en þá sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir lýsti yfir fylgi við. Þá er spurningin hvort velvilji hennar í garð byggðanna og fólksins í byggðunum, sem hún þekkir svo vel, yrði ekki einlægari ef hún hætti að styðja þessa ríkisstj.

Ég hef ekki tekið til máls fyrr um fjárlagafrv., þennan samdráttarboðskap í meginatriðum, þetta úrtöluhjal á þeim tíma þegar heldur væri þörf fyrir hvatningu til íslendinga af hálfu stjórnvalda að taka nú á og vinna betur vegna þess að tímar eru erfiðir. Það er náttúrlega mála sannast að ég er því fegnastur og hef eitt að vera þakklátur fyrir, og það er að hæstv. forsrh., Geir Hallgrímsson, skuli ekki sitja undir stýri á bát mínum í brimróðri.

Ég veit ekki hversu margir hv. þm. hafa hlýtt á hádegisfréttir í dag, þar sem sagt var frá skýrslu OECD um horfur í efnahagsmálum á þessum hnetti vorum. Þessar horfur eru að sögn stofnunarinnar ekki góðar. Þær spá vaxandi atvinnuleysi í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, að hagvöxtur í ríku löndunum verði í allra hæsta lagi 4% og stjórnarvöldum þar ráðlagt að hvetja til aukinna athafna, en ekki til samdráttar. Í sömu spá var gert ráð fyrir þrengingum í þróunarlöndunum sem mundu halda áfram að aukast, aukinni skuldasöfnun af hálfu þróunarríkjanna og auknum lántökum erlendis á neyslulánum.

Ég hvet nú ekki til þess að spár og skýrslur OECD verði gerðar að neins konar biblíum á voru landi Íslandi. En ég hygg að það muni algilt, að þegar að kreppir og nægt minnkar, þá sé þörf á því að fólkið leggi harðar að sér, ekki með því að spara við sig í mat og drykk og klæðum, heldur með því að leggja á sig meiri vinnu, og að óráðlegt sé að hvetja fólkið til að halda að sér höndum og hafast ekki að, heldur meiri þörf að hvetja það til þess að skapa verðmæti.

Eitt get ég þakkað kærlega fyrir, hvað sem öðru líður, í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga, og það er sú skýrsla sem ríkisstj. hefur látið gera um lánsfjáráætlun. Í þessari skýrslu sjást þess merki að einhver í hópnum sé þeirrar skoðunar að mikils sé um vert að við hefjumst nú handa um að virkja orkulindir okkar. Til þeirra nytsamlegu starfa er ráðgert að taka lán erlendis, og þeim fyrirætlunum er ég náttúrlega fylgjandi. Þessi skýrsla er sem bókmenntaverk góðra gjalda verð, þó að í ýmsum liðum hennar kveði við hálfgerður ómagatónn, þar sem örbirgðin er raunverulega sá grunnur sem byggt er á, þrotleysi skortsins túlkað sem vissa og aðeins gert ráð fyrir því að hann birtist í dálítið breytilegri mynd. Þarna koma fram að vissu leyti hin stóísku viðhorf til eigin vanmáttar.

Ég flyt brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 270. Hin fyrri er við 4. gr. og fjallar um ylræktarverkefni í Hveragerði og er á þá lund, að í stað 3 millj. kr. framlags komi 6 millj. kr. framlag. Fram kom í ræðu við 2. umr. um fjárlagafrv. af hálfu forstöðumanns Rannsóknaráðs ríkisins, hv. þm. Steingríms Hermannssonar, hér í Sþ., að fjárveiting sú, sem ætluð er í frv. til ylræktarrannsóknanna, 3 millj. kr., hrökkva ekki til þess að hægt sé að hefja fyrirhugaðar rannsóknir sem Rannsóknaráð er þó skuldbundið til að hefja. Þessar rannsóknir eiga að verða undirstaða að stórfelldri notkun jarðhita til hagsbóta fyrir land og lýð, - hagsbóta sem kunna að gerbreyta stöðu íslensks landbúnaðar, til hins betra. Til þess að unnt sé að hefja þessar tilraunir þarf að sögn hv. þm. Steingríms Hermannssonar 6 millj. eða 3 millj. til viðbótar við framlagið sem ætlað er í fjárlagafrv.

Ylræktin er ein sú nýting íslenskra orkulinda sem lofar hvað bestu og er einna viðkunnanlegust. Ég hef áður vitnað til þess að hafa fyrir skemmstu heyrt sérfræðinga í búvísindum, verkfræði og sjávarlíffræði lýsa yfir því, að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að auðlindir Íslands nægðu til þess að framleiða eggjahvítuefnaríka fæðu sem nægði til þess að brauðfæða 36 millj. manna, sé öllu til kostað, jarðargróða og sjávarfangi, orkulindir landsins beislaðar í þeim tilgangi og vinnuafli og þekkingu beint inn á þær brautir. Ég er þess fullviss að heill þessarar þjóðar er undir því komin að við einbeitum okkur nú þegar að því og kostum öllu til að nýta gæði þessa lands og verða sjálfum okkur nógir um orku að sem allra mestu leyti og þar næst á eftir að efla útflutning á þeim varningi sem mestur skortur er á í heiminum en það eru matvæll. Ég tel að ylræktarrannsóknin, sem Rannsóknaráð fyrirhugar í Hveragerði, sé stórt og merkilegt skref í þessa átt og að nauðsynlegt sé að við sjáum fyrir þeim 3 millj. sem þarf til viðbótar til þess að þessar rannsóknir komist í framkvæmd.

Á þessu sama blaði, þskj. 270, bendi ég á leið til þess að afla þessara 3 millj. Ég bendi á stað í fjárlagafrv. þar sem við getum tekið þessar 3 millj. sem vantar til þess að ylræktarverkefnið í Hveragerði komist í framkvæmd, þar sem ætluð er 3 millj. kr. fjárveiting til Kaupmannasamtakanna vegna hagræðingarstarfsemi. Ég legg til að þessi liður falli niður og að þær 3 millj., sem þar hafa verið merktar handa Kaupmannasamtökunum í þessu skyni, fari í ylræktaráætlunina í Hveragerði. Þetta legg ég til að gert verði, að þessi póstur verði felldur niður í því trausti, að hagræðing sú, sem hér um ræðir, sé ekki svo aðkallandi að hím megi ekki dragast, ellegar þá að öðrum kosti að hún sé svo arðbær, þessi hagræðing, að kaupmenn treysti sér til að kosta hana af eigin rammleik, og fer ég ekki nánar út í þá sálma.

Ég vil svo aðeins í lokin víkja að því, að ýmislegt er nú það og þá sérstaklega í þeirri ágætu bók, skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1976, í lesmáli, sem bendir til þess að enn sé ríkjandi töluverður áhugi á fjárfestingu í öðrum fyrirtækjum innlendum heldur en þeim sem miða að því að nýta landsins gæði til þess að framleiða mat. Og ýmislegt bendir til þess að þeir, sem nú ráða málum hér, telji annað þarfara en stuðla beinlínis að aukinni framleiðslu okkar fornu þjóðlegu atvinnuvega.

Við 2. umr. fjárlagafrv. bar ég fram till. um það ásamt hv. þm. Jónasi Árnasyni, að 285 millj. kr. framlag ætlað til Grundartangaverksmiðjunnar yrði fellt niður, því fé yrði varið á annan veg. Nú hefur þetta fyrirhugaða framlag verið lækkað ofan í 50 millj. kr. sem ætlaðar eru til hafnargerðar á Grundartanga við Hvalfjörð. Ég hef grun um að nokkuð verði um það spurt í mínu kjördæmi, t. d. á Ólafsfirði, Akureyri, Húsavík og Raufarhöfn, að þeir kunni, karlarnir þar, að inna þm. kjördæmisins eftir því, til hvers eigi að nota Grundartangahöfn á næstu árum, hvort fiskibátar liggi undir skemmdum í þeirri höfn, hvort skuttogararnir þeirra komist þar ekki inn. Og það kann að fara svo, að spurt verði um það, hvort ekki hefði verið meira aðkallandi að ríkisstj. aflaði sór lántökuheimilda upp á næstum milljarð kr. til einhvers annars en járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Þá ætla ég að öðrum verði stirðara um stef heldur en mér að svara.